Pólitísk ábyrgð óskast

Þingfréttir vikunnar

– svör við ákalli þjóðar, farsar, kerfi viðskila við réttlæti-

Þingmenn VG komu kraftmikil inn á þing eftir kjördæmavikuna þar sem þau funduðu um allt land, bæði með sveitarstjórnarfulltrúum, á vinnustöðum og á opnum fundum.

Ákall þjóðarinnar um aukið fé til heilbrigðismála

Steingrímur hóf þingvikuna í á því að krefja forsætisráðherra um efnisleg viðbrögð við ákalli þjóðarinnar um aukna fjármuni til heilbrigðismála og spurði hvort ríkisstjórnin hefði rætt stöðuna. Hvort það væri jafnvel til skoðunar að taka upp fjárlög og veita í fjáraukalögum auknum fjármunum til heilbrigðismála? Eða hvort þyrfti úrlausnin að bíða fjárlaga næsta árs og þá tefjast um heilt ár? Sigmundur svaraði í engu spurningum Steingríms.

Í sama streng tók Katrín daginn eftir þegar hún lýsti áhyggjum fólks yfir stöðunni í heilbrigðiskerfinu og sagði þær snúast um hvernig kostnaður sjúklinga hefur vaxið jafnt og þétt, um það mikla álag sem er á Landspítalanum, á heilsugæslunni og sjúkrahúsum, um þær áhyggjur sem landlæknir hefur sett fram um að heildarsýn vanti á þróun heilbrigðisþjónustunnar. En áhyggjurnar snúist líka um réttlæti.

Borgunarmálið enn tekið upp

Bjarkey gerði Borgunarmálið að umtalsefni á þriðjudag og sagði að þjóðinni væri boðið upp á farsa dag eftir dag í tengslum við málið. Bjarkey minnti á rannsóknarskýrslu Alþingis og að réttast væri að efna til lestrarstundar í þingsal fyrir ríkisstjórnarflokkana: „Þar ætti helst að lesa um einkavinavæðingu bankanna upp úr skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. En fyrir það fyrsta þurfum við að koma þessari einkavinavæðingarvildarvinahægriríkisstjórn frá.“

Borgunarmálið var svo aftur tekið upp af þingmönnum VG, því á fimmtudag spurði Svandís fjármálaráðherra hvort hann teldi ekki þörf á því að láta fara fram rannsókn á hvernig söluferlinu á hlut Landsbankans í Borgun hafi verið háttað. Svandís minnti á fyrirspurn sína um málið sem hún lagði fram fyrir rúmu ári. Það sem hefði gerst síðan þá kallaði á skýr svör um hver bæri hina pólitísku ábyrgð á málinu. Sérstaklega þar sem bæði forsætisráðherra og fjármálaráðherra hafa lýst því yfir að söluferlið hafi verið klúður.

Félagsþjónusta sveitafélaga, Hús íslenska fræða og stefnuleysi í ferðaþjónustu

Fyrsta umræða um frumvarp Eyglóar Harðardóttur um breytingar á félagsþjónustu sveitafélaga kláraðist á þriðjudag og fer nú til velferðarnefndar til umsagnar. Lilja Rafney, Steingrímur og Steinunn Þóra tóku öll til máls en þingmenn VG hafa varað sterklega við því að verið sé að þrengja skilyrðin sem fólk í afar bágri fjárhagsstöðu þarf að uppfylla til að fá fjárhagsaðstoð. Þingmenn VG hafa ítrekað bent á í ræðum sínum um frumvarpið að fjárhagsaðstoð sveitarfélaga sé algert neyðarúrræði og öryggisnet sem eigi að grípa fólk í grafalvarlegri stöðu. Ekkert annað taki við ef þessa aðstoð þrýtur.

Bjarkey tók til máls í störfum þingsins á miðvikudag og vakti athygli á töfum ríkisstjórnarinnar á byggingu Húss íslenskra fræða við Hagatorg. Bjarkey, sem situr í allsherjar-og menntanefnd, tók undir með forstöðumanni Stofnunnar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, að við eigum að fara vel með þjóðararfinn okkar, hafa hann til sýnis og aðgengilegan. Bjarkey sagði það vekja athygli að á sama tíma og ríkisstjórnin aðhafist ekkert í byggingu hússins hafi forsætisráðherra meiri áhuga á að eyða mörg hundruð milljónum í „í einhvern grjótgarð rétt hjá okkur…“

Stefnuleysi ríkisstjórnarinnar þegar kemur að heildaruppbyggingu ferðaþjónustunnar er orðið vægast sagt vandræðalegt. Skiptir þar engu hvort um sé að ræða uppbyggingu á nauðsynlegri aðstöðu fyrir ferðamenn,brýnum aðgerðum í öryggismálum, atvinnumál greinarinnar eða stefnumótun um umhverfisverndarþátt ferðaþjónustunnar. Framtíðarstefnumörkun stjórnvalda í greininni er aðkallandi. Í ljósi aðgerðaleysis ríkisstjórnarinnar sendi Lilja Rafney inn fyrirspurn í vikunni til iðnaðarráðherra um stjórnarfundi Stjórnstöðvar ferðamála en eins og kunnugt er þá er stjórnin skipuð 4 ráðherrum ! Fróðlegt verður að fá svör við þeim spurningum.

Baráttukveðjur og góða helgi kæru félagar !
Rósa Björk
Framkvæmdastýra þingflokks VG