Ráðherra segir lög á verkföll ,,möguleg”

Katrín Jakobsdóttir gerði verkföll heilbrigðisstarfsmanna að umtalsefni í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi í morgun. „Mér telst til þegar ég skoða tölur að þarna séu 40% af starfsmönnum Landspítalans í einhverskonar verkfallsaðgerðum, þ.e.a.s. 1500 hjúkrunarfræðingar og hátt í 500 starfsmenn innan vébanda BHM,“ sagði Katrín og bætti við: „Við erum að horfa á það að hér geti orðið verulegur skortur á starfsfólki innan heilbrigðisþjónustunnar.“ Katrín spurði heilbrigðisráðherra í lok fyrri ræðu sinnig hvort til greina komi að skipuð verði sáttanefnd með aðkomu deiluaðila og Ríkissáttasemjara til að reyna að leysa málið.

Katrín bætti svo við: „Mig langar líka að spyrja hæstvirtan heilbrigðisráðherra, og vonast eftir neikvæðu svari, hvort hann telji mögulegt að setja lög á þetta verkfall.“ „Auðvitað er það mögulegt,“ var svar Kristjáns Þórs Júlíussonar heilbrigðisráðherra, „fordæmi eru fyrir því að það hafi verið sett lög á kjaradeilur, og í þeirri stöðu sem uppi er vil ég ekki útiloka neinn möguleika.“

Í seinni ræðu sinni benti Katrín á að heilbrigðisráðherri hefði ekki svarað spurningu þingmannsins um sáttanefnd. „Minn ótti í þessum efnum, herra forseti, er auðvitað sá að lagasetning á verkföll mun ekki gera annað en að ýta undir það sem hæstvirtur ráðherra kom að í sínu svari, þ.e.a.s. að heilbrigðisstarfsfólk, menntað hér á landi – Íslendingar, munu flytja úr landi,“ sagði Katrín og óskaði eftir málefnalegum svörum frá ráðherra.

Heilbrigðisráðherra sagðist telja „fulla ástæðu til að horfa út fyrir ramann ef viðræður eru ekki að skila okkur neinu,“ og útilokaði ekki sáttanefnd. Hann lauk ræðu sinni með því að segja að „með einhverjum hætti verðum við að leita leiða til þess að höggva á þann hnút sem þarna er uppi því svona getur þetta ekki gengið mikið lengur að mínu mati þó svo að ég sé ekki tilbúinn að nefna neina dagsetningu.“