Ráðherra telur sáttanefnd „töluvert inngrip“

Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, tók til máls í upphafi þingfundar í dag til að eiga orðastað við Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra um verkfall og kjaradeilu lækna.

Katrín greindi frá því að hún hefði ásamt formönnum hinna stjórnarandstöðuflokkanna á Alþingi gert tillögu um skipun sáttanefndar í kjaradeilu lækna og ríkisins. „Við sjáum fram á kostnað sem hleðst upp í framtíðinni, auknir biðlistar eftir aðgerðum og öllum öðrum verkum og gríðarlegar áhyggjur almennings í landinu af stöðu mála í heilbrigðiskerfinu,“ sagði Katrín og spurði heilbrigðisráðherra hvort skipun sáttanefndar kæmi ekki til greina til að leysa úr stöðunni.

Í svari sínu sagðist heilbrigðisráðherra deila áhyggjum af því hversu hægt miðar í deilunni og tók undir að staðan væri mjög alvarleg. Ráðherra útilokaði ekki að fara þá leið sem stjórnarandstöðuformennirnir hafa lagt til en sagði það vera „töluvert inngrip“. Í seinni ræðu sinni minnti Katrín hins vegar á að Alþingi hafi nýlega sett lög á kjaradeilur og benti á að „sáttanefnd sé mun vægara inngrip en slík lagasetning.“

Katrín lauk ræðu sinni með því að minna á skyldur Alþingis gagnvart heilbrigðisþjónustu almennings: „Það er okkar hlutverk hér á Alþingi en ekki síst hæstvirtrar ríkisstjórnar að tryggja þann stöðugleika sem almenningur í landinu á skilið,“ sagði Katrín og bætti við: „Það gerum við meðal annars með því að tryggja það að hingað snúi læknar aftur, til að mynda úr námi.“