Ráðherra tregur til svara

Katrínu Jakobsdóttur þingkonu Vinstri grænna gekk illa að fá svör frá Illuga Gunnarssyni mennta- og menningarmálaráðherra um málefni framhaldsskóla landsins á Alþingi í dag. Katrín spurði hann um kjaramál framhaldsskólakennara, boðaða stefnumótun ráðherrans og aðkomu kennara að henni.

Þrjár spurningar um menntapólitík

Katrín lýsti yfir áhyggjum af því að næstkomandi mánudag gæti skollið á verkfall framhaldsskólakennara sem hefur áhrif á hátt í tuttuguþúsund framhaldsskólanemendur. Hún sagði hún væri meðvituð um að menntamálaráðherra hefði ekki kjaraviðræðurnar á sínu forræði því vildi hún þess í stað spyrja hann þriggja spurninga er vörðuðu menntapólitík og tengdust kjaraviðræðunum.

„Menntamálaráðherra hefur sagt að í raun sé ekkert í boði umfram almennar launhækkanir á vinnumarkaði, nema framhaldsskólinn verði styttur með kerfisbreytingu,“ sagði Katrín og benti á að efir honum hafi verið haft „að hægt væri að nýta styttinguna til að búa til launahækkunarmöguleika“. Í framhaldi spurði Katrín Illuga, í fyrsta lagi, hvort „launahækkunarmöguleikinn“ fælist í því að fækka kennurum og hækka laun þeirra sem eftir sitja? Í öðru lagi spurði hún hvort hann telji framhaldsskólakennara hafa setið eftir í launaþróun miðað við aðra hópa með sambærilega menntun. Í þriðja lagi spurði Katrín hvort margboðuð stefnumótun ráðherrans í málefnum framhaldsskólans, svonefnd hvítbók, væri tilbúin og hvort fulltrúar Kennarasambandsins hefðu fengið að taka þátt í henni?

Engin eða óljós svör frá ráðherra

Illugi sagðist ekki gæta rætt kjarasamninga í þingsal en tók undir áhyggjur Katrínar af verkfalli. Spurningum hennar svaraði hann hins vegar ekki eða með óskýrum hætti. Katrín ítrekaði þá að hún hefði beðið Illuga um að ræða inntak kjarasamninga og sagði hann hafa komið sér algjörlega hjá því að svara spurningum sínum. „Þó að kjarasamningar séu ekki viðfangsefni hér á Alþingi þá er menntapólitík viðfangsefni. Lagabreytingar á framhaldsskólanum eru viðfangsefni. Þess vegna skiptir mjög miklu máli að við fáum hér skýr svör frá hæstvirtum ráðherra,“ sagði hún.
Síðari svör Illuga voru litlu skýrari. Hann sagði hvítbókina vera skrifaða að starfsmönnum ráðuneytisins og að samráð færi fram eftir að hún hefur verið kynnt, en af því má ráða að ekkert samráð hafi farið fram við kennara.