Ráðherra verji frekar störf Fiskistofu sem þegar eru á landsbyggðinni

Lilja Rafney Magnúsdóttir, þingmaður Vinstri grænna, tók til máls á Alþingi í dag til að ræða flutning á störfum Fiskistofu.

Lilja Rafney benti á að starfsemi á starfsstöð Fiskistofu á Ísafirði hefur legið niðri frá áramótum og annað starfið þar auglýst laust til umsóknar. „Starfið er að vísu ekki hjá Fiskistofu og því síður á Ísafirði heldur er það hjá Matvælastofnun á Selfossi,“ sagði Lilja Rafney og bætti við að sjávarútvegsráðherra hafi verið búinn að lýsa því yfir að starfsstöðin á Ísafirði yrði að fá önnur verkefni ef önnur hyrfi. „Ekkert bólar á þeim verkefnum enn.“

„Hæstvirtur ráðherra telur rétt að flytja Fiskistofu með manni og mús til Akureyrar,“ og benti á að Umboðsmaður Alþingis hefur ákveðið að taka málið til skoðunar. „Á hvaða vegferð er hæstivirtur ráðherra? Ef hann vill landsbyggðinni svona vel og vill halda utan um starfsemi Fiskistofu úti á landi, af hverju ver hann þá ekki þau störf sem eru til staðar úti á landi?“ spurði Lilja Rafney og bætti svo við að ráðherra kysi í staðinn að „ryðjast áfram með eitthvað sem ekki er víst að sé lagagrundvöllur fyrir eins og flutning Fiskistofu til Akureyrar.“