Ræða Ara Trausta Guðmundssonar

Ræða Ara Trausta Guðmundssonar í umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra á Alþingi 24. janúar 2017.

 

Virðulegi forseti og kæru landsmenn.

Á mínum stutta þingmannsferli hef ég heyrt úr ræðustól staðhæfingar eins og þær að ekki sé hægt að eyða sömu krónunni tvisvar, að menn geti ekki fengið allar sínar kröfur uppfylltar og nú síðast að framtíðin sé okkur hulin. Hvað annað? Við sem erum eldri en tvævetur – þingmenn og kjósendur – hljótum að óska eftir bitastæðari orðum en þeim sem hæfa tilteknu skólastigi en varla Alþingi – við viljum sjá og heyra umræður um raunveruleg vandamál, öruggar framfarir, ólíka hugmyndafræði og síðast en ekki síst stefnuræðu sem stendur undir heiti og dregur upp skýrar línur nýs þingmeirihluta. Hún á að fjalla um markmið og leiðir í stað útlistunar á almennum hugtökum eins og stöðugleika, jafnvægi og framsýni, með eða án ljóðatilvitnana.

 

Ekki lasta ég það sem stefnt er að á vegum nýrrar ríkisstjórnar svo sem aukna nýsköpun eða fé til heilsugæslu, eða annað sem gæti horft til aukinnar samneyslu, jöfnuðar og bættrar afkomu tugþúsunda. Við erum mörg sem sjáum fá ljós í því sem háttvirtur forsætsráðherra nefnir stefnu sína og stjórnarinnar – af því að ræða hans fjallar fyrst og fremst um markmið en ekki leiðir – um gildi en ekki lausnir. Þar með erum við litlu nær um hvað bíður landsmanna næstu fjögur árin – og þó: Innviðauppbygging sem greiða á fyrir með aukinni verðmætasköpun og hagvexti. Hvort tveggja er óútfylltur víxill. Hvort tveggja byggir á kökukenningunni: Vinnandi fólk fær ekki stærri hlut í kökunni nema hún stækki fyrir þess atbeina. Þetta svarar ekki ákalli tugþúsundanna um betri heilbrigðisþjónustu, samgöngur, menntakerfi og almannatryggingar. Þarna fer úthugsuð hagfræði auðhyggjunnar. Með henni má vernda hag 10% þjóðarinnar sem eiga 60% eigna, eða þess eina prósents sem tekur við 44% allra fjármagnstekna. Það er til mikið fjármagn, handan allra hagsveiflna, sem taka má af til samneyslunnar – án þess að samfélagið brotni. Í því er fólgin úthugsuð félagshyggja – sem sagt við getum valið á milli hægri og vinstri – og má vera að óánægja með nýja ríkisstjórn í skoðanakönnun endurspegli þrotna þolinmæði gagnvart tregðu við að lagfæra skemmda innviði þegar næg efni eru til þess.

 

Hæstvirtur forsætisráðherra ber fyrir sig gagnrýni fjölda hagfræðinga á aukin útgjöld ríkisins þegar hagvöxtur er mikill. Sem jarðvísindamaður get ég fullyrt að álíka margir hagfræðingar, hvað þá jarðfræðingar, eru á öndverðri skoðun. Aftur má velja á milli hægri og vinstri en stakur óþarfi að leyna því að hagvísindi eru pólitísk og umdeilanleg – fjarri því að líkjast náttúrulögmálum. Vernd hinna efnamiklu er aðeins einn flokkur hagfræði – sem hæstvirtur ráðherra velur sér og sínum.

 

Frú forseti, til þess að marka stefnumið og leiðir þarf raunhæfa greiningu á samfélagsstöðunni. Skammt dugar að telja að niðurskurður í heilbrigðiskerfinu hafi kallað fram neikvæð hughrif hjá almenningi, eins og heyrðist hér í upphafi. Almenningur finnur glöggt á huga og líkama hvað er að: Í heilbrigðiskerfinu er raunveruleikinn dökkur – og í andstöðu við nýja stjórn er greining almennings réttust: Kerfið í heild er við þolmörk og þjónustustig víðast hvar ekki sæmandi. Ef greiningar tíu ráðherra eru með sama sniði og hjá forsætisráðherra er vonlítið að úrlausnir verði teknar í sátt.

Tvennt undir lokin, frú forseti. Við höfum aðeins 13 ár til að standa við Parísarsamkomulagið. Eftir er að útskýra hvað gera skal annað en búa til græna hvata, rækta skóg, auka landgræðslu og hafa orkuskipti í samgöngum – eins og fram kom áðan. Verkefnin eru margfalt fleiri, kosta milljarða og þarfnast mikillar samvinnu – en einnig vandaðra markmiða í öllum geirum umhverfismála. Þarna fer mikilvægasta mál jarðarbúa til langs tíma litið og um það hefði hæstvirtur Bjarni Benediktsson átt að fjölyrða. Í öðru lagi sneiðir ráðherrann og stjórn hans framhjá flest öllu sem horft getur til stjórnunar á viðbrögðum við fjölgun ferðamanna og frumskógarlögmálum sem ríkja enn um of í greininni, þrátt fyrir framfarir. Þolmörk staða, svæða og landsins alls – ef sjálfbærni, náttúruleg, félagsleg og hagræn, á að ríkja – kalla á umræðu og ákvarðanir sem virðast rýrar í meira lagi í stjórnarsáttmálanum. Auðlindastjórnun nær auðvitað til stærsta atvinnuvegarins.

100 ára fullveldi örþjóðar í stóru en gjöfulu landi, er merkileg tilraun og afrek að mörgu leyti. Á sömu öld jókst jöfnuður, fyrst og fremst vegna baráttu launamanna, lengi framan af. En í þrjá til fjóra áratugi hefur ójöfnuður aukist og velferðin trosnað um of – slík sýn er gjörólík sýn háttvirts forsætisráðherra og þeirra flokka sem mynda ríkisstjórnina. Það er kjarni máls. Um hann og leiðir til annars konar samfélags en þeirra óskir ná til – mun samtal okkar hér á þingi snúast, átök jafnt sem samvinna – og það á líka við um þjóðfélagið allt.