Ræða: Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir

Virðulegi forseti, góðir landsmenn.

 

Um ríkisstjórnarsamstarfið og forsendur þess

Um þessar mundir hefur ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttir starfað í hálft ár. Að baki ríkisstjórninni eru ólík stjórnmálaöfl sem jafnvel greinir á í mikilvægum málum. En stjórnmálaflokkarnir eiga það sameiginlegt með almenningi að við erum ekki ávallt sammála um alla hluti en þó verður okkur að takast að ná niðurstöðu og leiða mál til lykta á lýðræðislegan hátt. Þetta getur auðvitað tekið á og við í Vinstrihreyfingunni – grænu framboði finnum vissulega fyrir því og það gera þingmenn Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks vafalaust líka.

Ríkisstjórnarsamstarfið er óvenjulegt í sögulegu samhengi en ekki er það þó fordæmalaust að stjórnmálaöfl sem spanna skalann frá vinstri til hægri standi að ríkisstjórnarsamstarfi enda getur það gefist vel ef rétt er á málum haldið. Það var alveg ljóst eftir síðustu Alþingiskosningar að almenningur vænti þess og gerði þá kröfu til kjörinna fulltrúa að þeir mynduðu starfhæfa ríkisstjórn sem kæmi til leiðar ýmsum mikilvægum og löngu tímabærum ráðstöfunum í þágu samfélagsins og stuðlaði að pólitískum stöðugleika. Ríkisstjórnarsamstarfið er svar flokkanna þriggja sem að því standa við þeirri kröfu.

Hvað varðar okkur félaga í Vinstrihreyfingunni – grænu framboði sérstaklega þá viljum við hafa hönd í bagga með því hvernig þeim gæðum sem samfélagið skapar er skipt og þar leggjum við sem endranær áherslu á að berjast gegn ójöfnuði en fyrir félagslegu réttlæti.

 

 

 

 

Í sáttmála ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur er lýst áformum um verulega uppbyggingu innviða samfélagsins. Með því er átt við samgöngu- og tæknikerfi sem þjóna atvinnulífi og almenningi, velferðar-, mennta-, heilbrigðis- og réttarkerfi sem eiga það sameiginlegt að vera undirstaða efnahags- og félagslegs velfarnaðar, eru almannaeign og krefjast langtímafjárfestingar. Enn fremur fylgir ríkisstjórnin þeirri stefnu að auka jöfnuð og sjá til þess að landsmenn hafi aðgang að gæðum á borð við menntun og heilbrigðisþjónustu á jafnréttisgrundvelli.

Fyrstu fjárlög ríkisstjórnarinnar bera vott um eftirfylgni við þessa stefnu. Veitt var fé til að styrkja þjónustu sjúkrahúsanna og heilbrigðisþjónustunnar almennt, niðurgreiðslur á tannlæknakostnaði aldraðra og öryrkja voru auknar og bætt var við fjárframlög til háskóla og framhaldsskóla svo dæmi séu tekin og fjármálaáætlun til næstu fimm ára fylgir þessari stefnu eftir.

Áhersla er á nýsköpun í velferðarþjónustu og opinberum rekstri og afnám þaks á endurgreiðslu vegna rannsókna og þróunar sem mun verða til þess að skjóta fleiri stoðum undir íslenskt atvinnulíf. Þá verða háskólar og framhaldsskólar efldir til muna og sérstakt átak gert í samgöngumálum auk þess sem myndarlega verður staðið að byggðamálum.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Fjármálaáætlun hefur vissulega mætt talsverðri gagnrýni. Sumum þykir hún ekki ganga nægilega langt og vilja sjá enn ríflegri úthlutanir til ýmissa málaflokka en þar er gert ráð fyrir en öðrum þykir of mikið að gert. Við sem að málinu stöndum teljum að þrátt fyrir að útgjöld séu aukin verulega samræmist áætlunin í senn meðalhófi hvað varðar framkvæmdir hins opinbera og áformum um nauðsynlega uppbyggingu.  .

 

Góðir landsmenn

Ferskir vindar blása nú í verkalýðshreyfingunni. Forystufólk sumra stærstu stéttarfélaga innan ASÍ hafa farið hörðum orðum um þá sjálftöku sem virðist eiga sér stað hjá stjórnendum sumra félaga, bæði opinberra og almennra. Eðlilega svíður almenningi að horfa upp á stjórnendur hlutafélaga skammta sér launahækkanir upp á hundruð þúsunda fyrir hvern mánuð á sama tíma og talað er um ábyrgð launþega að viðhalda efnahagslegum stöðugleika. Við hljótum að veita þessum ábendingum fulla athygli og bregðast við þeim og eitt af því er að leggja niður kjararáð eins og meirihluti efnahags- og viðskiptanefndar leggur til.

Í samstarfi við verkalýðshreyfinguna þurfum við, ætlum og munum skoða samspil tekjuskatts og yfirfærslutekna með það markmið að finna fátæktargildrur sem þar kunna að leynast og eyða þeim. Markmiðið með þessum aðgerðum verður að bæta stöðu lágtekjuhópa og lægri millitekjuhópa.