Ræða Edwards Huijbens varaformanns

 

Kæru félagar,

 

Ég vil byrja á að biðja ykkur öll hjartanlega velkomin á þennan flokksráðsfund sem haldin er á tuttugasta afmælisári hreyfingarinnar. Á morgun verður hreint út sagt frábær dagskrá þar sem við ferðumst fram og aftur í tíma og skoðum okkar hreyfingu, hvað hún hefur lagt til þjóðmálaumræðu á Íslandi og hvað hún getur gert fyrir pólitíkina framundan. Það er engum ofsögum sagt að okkar hreyfing breytti pólitíkinni á Íslandi! Okkar hreyfing kom á dagskrá málum sem í dag ekki nokkurt stjórnmálaafl þorir því að sleppa að ræða. Hinsvegar þegar umhverfismál og náttúruvernd, kvennfrelsi, friður og jöfnuður eru nú á allra vörum, þá blasir við okkur að viðhalda forystu í þessum málaflokkum og tryggja að háleitum markmiðum sé náð og orðin verði ekki bara innihaldslaus tískufroða.

 

Um leið og ég býð ykkur því velkomin vil ég ræða hvert við stefnum á þessum tímamótum í okkar hreyfingu. Ég vil ræða hvernig við skerpum hugmyndir okkar og sýn og styrkjum um leið innviði okkar hreyfingar. Hreyfing sem þessi og öll okkar háleitu markmið geta aðeins náð fótfestu og árangri með því fólki sem hreyfinguna skipa, fólkið, við sjálf, sem aftur erum hinir styrku innviðir okkar.

 

En fyrst að því að skerpa okkar hugmyndir og sýn.

 

Ég skynja breytingu! Ég skynja satt best að segja, bæði hér á landi og erlendis, stórkostlegar breytingar í farvatninu sem eru af tvennum toga. Þær togast sannarlega á og eru eiginlega algerlega af öndverðu meiði, en mögulega eiga þesar breytingar sér sameiginlega rót og sameiginlega lausn. Annarsvegar er um að ræða þau öfl sem nú naga að innan samfélög okkar um allan heim með þjóðernispópúlisma og hugmyndum sem í raun eru fasískar. Já fasískar segi ég og það er engum ofsögum sagt að víða er hreinn fasismi gengin í endurnýjun lífdaga. Það sorglega í því er að fasískar hugmyndir hafa reglulega komið upp á yfirborðið í sögu Vesturlanda, ekki bara í aðdraganda síðara stríðs og eru afleiðing og sorgleg hliðarverkan okkar kapítalíska hagkerfis. Hagkerfi sem inniber misrétti og ójafna skiptingu gæða, hagkerfi sem stillir hópum upp sem andstæðum sem þurfi að keppast um molana sem hrjóta af borði þeirra sem halda í raun um alla þræði valdins. Nú á ný stafar veruleg ógn af fasískum hugmyndum sem aukinheldur geta nýtt sér sí vaxandi einangrun hugarheims hvers og eins á internetinu. Með Brexit og Trump og í orðræðu sumra stjórnmálamanna hér á landi er heimurinn þannig að verða svart/hvítur – við og þeir, við og allir hinir óvinir okkar sem við verðum að standa saman gegn sem ógna tilveru okkar uppá hvern dag. Kunnuglegt stef?! Er ekki viðvarandi neyðarástand í heiminum? Stöðug krísa sem við verðum öll að berjast við? Það er hægur leikur að mála heiminn upp svo, hræða alla inn í skelina, titrandi með snjallsímann einan við hönd sem matar okkur með fréttum gervimenna sem lesið hafa í persónugerð okkar út frá eigin netnotkun, netnotkun sem auðvitað einkennist af leit að skýringum á hinu viðvarandi neyðarástandi. Áhugaverð sjálfstyrkjandi hringrás sem er að leiða okkur á nýjar lendur í stjórnmálum, eru raunveruleg ógn við lýðræðið. Hvernig svörum við í VG því?

 

Hinsvegar þegar kemur að þeim stórkostlegu breytingum sem ég skynja, eru það umhverfis- og loftslagsmálin. Nú tala auglýsingar um kolefnisspor og matarsóun, fyrirtæki eru að umbreyta umbúðum svo þær séu endurvinnanlegar og fólk er farið að huga að mataræði sínu og samgöngum vegna loftslagsins. Þetta er meira nú en hefðbundin hýðing sálarinnar í janúar vegna jólasukksins.  Loftslagsbreytingar eru sannarlega mest aðkallandi áskorun fyrir mannkyn allt. Rót þeirra breytinga liggur í neysluháttum okkar og nýttum orkugjöfum, sér í lagi á Vesturlöndum þó heimsbyggðin öll sé nú á harðahlaupum við að ná því sem við höfum. Til að ná tökum á loftslagsbreytingum er því nauðsynlegt að endurskoða í grunninn hvernig við högum okkar lífi og taka umhverfi, náttúru, dýralíf og jörðina alla með í reikninginn við þá endurskoðun. Þannig er tækifæri nú til að skoða allar stefnur VG útfrá þeirri ógn sem mannkyni stafar af loftslagsbreytingum og hvernig hægt er að bregðast við henni á öllum sviðum mannlífsins. Dæmi þar um væri hvernig við nálgumst boðaða matvælastefnu sem nú er í bígerð.

 

Kæru félagar, ég sagði nú áðan að þessir tvær straumar, fasisminn og loftslagsmálin, stöfuðu mögulega af sameiginlegri rót. Jú þannig er að auðvelt er að mála loftslagsmálin upp sem eitt viðvarandi neyðarástand, sem jafnvel réttlæta valdboð byggt á einföldum svart/hvítum lausnum. Þörf okkar fyrir að einfalda heiminn, flokka hann niður í gott og vont, svart og hvítt, rétt og rangt gerir það að verkum að einfaldar lausnir ná gripi í sálarlífi okkar. Loftslagsmálin sem viðvarandi neyðarástand réttlætir þannig hugmyndir um stórkostleg inngrip á hnattræna vísu sem vísindamenn leiða. Líkt og með einfaldar patent lausnir fasistanna á öllum okkar málum þá ber að varast slíka hugsun. Arfleið smættunarhyggju í vísindum er löng og sorgleg og hefur mikið til leitt okkur þangað sem við erum í dag. Nú hvá eflaust margir; smættunarhyggja vísindanna?! er þessi varaformaður ekki að verða full fræðilegur? Tja mögulega, en við sáum nýverið stórkostlegt dæmi um vísindi smættunar að störfum í skýrslu hagfræðistofnunar um hvalveiðar. Þegar vistfræði hafsins varð að línulegu viðfangi hagfræðinnar og hvalur drepin varð að veiddri loðnu eins og ekkert væri.

 

Okkar verkefni, kæru félagar, okkar verkefni í stjórnmálum er að vinna með og viðurkenna að málin eru ekki einföld, klippt og skorin. Heimurinn er ekki svartur og hvítur, það eru ekki við og þeir. Það erum við öll. Já „við öll“ og sumir hér ættu að kannast við þessa vísun frá 2006. Þá líkt og nú er okkar verkefni að standa vörð um íslenskt velferðarsamfélag, eyða fátækt og tryggja stóraukinn jöfnuð í skiptingu lífsgæða á Íslandi og jörðinni allri, vernda umhverfið og íslenska náttúru og vera boðberar friðar í heiminum og friðsamlegra lausna í samskiptum.

 

Í staðinn fyrir við og þeir, þá segjum við; við öll, þegar við bjóðum flóttafólk og hælisleitendur velkomin hingað. Við segjum „við öll“ þegar við bjóðum þeim velferð og góð laun sem hingað koma til að vinna. Við segjum „við öll“ þegar við tryggjum öllum þeim sem höllum fæti standa gott húsnæði, góð lífskjör og öryggi. Það sem meira er, við segjum líka „við öll“ þegar kemur að náttúru, umhverfi og jörðinni allri. Náttúran og jörðin eru ekki hlutbundin viðföng, einhverskonar passívir móttakendur okkar gerða og hugmynda. Loftslagsbreytingar hafa einmitt fært okkur heim sannin af því að náttúran og jörðin eru þátttakendur sem svara gjörðum okkar, á máli sem við í raun erum rétt að byrja að ná tökum á í dag. Líkt og vistfræði hafsins er aðeins flóknari en hagfræðistofnun vill vera láta, þá er jörðin og hennar loftslag, umhverfi og náttúra ekki bara þarna fyrir okkur til að manipúlera. Við mætum ekki bara með sleggjuna hans Krumma á lofthjúpinn og reddum þessu með verkfræði lausnum. Við verðum að hugsa okkur með jörðinni og öllu sem á henni þrífst. Við þurfum að hugsa um ábyrgð okkar og okkur sem vörslufólk jarðar, ráðsmenn svo gripið sé til hefða í orðum, ekki ráðandi heldur með ráð undir rifi hverju, góð ráð – sem þurfa ekki einu sinni að vera dýr. „Við öll“ á því ekki bara við um mannfólkið sem jörðina byggir, heldur og hana sjálfa, dýr merkurinnar, fugla himinsins og allt sem í djúpunum býr.

 

Hver er þá framtíð stjórnmálanna? Hvert stefnum við í VG nú. Jú, loftslagsvandinn er víst ógn sem að mannkyni steðjar, lausn hans felst í umbreytingu á okkar hugmyndum og þankagangi um okkur sjálf, hver við erum og hlutverk okkar hér á jörð. Við búum  í flóknum heimi, þar sem eitt leiðir alls ekki beinlínis til annars. Gagnvart flóknum veruleika þarf æðruleysi og tileinka sér virðingu og jafnvel auðmýkt fyrir því að lausnir eru ekki algildar né einfaldar. Ef við getum talað fyrir opnu hugarfari sem býður alla og allt velkomna inn í þá mynd sem við og framtíðin er, þá held ég að við vinnum á móti fasisma og umhverfisvanda jarðar. Ef við tölum fyrir því að dýrið sem við borðum er gjöf jarðar, ekki samkeppnishæft kílóverð, byrjum við að borða það öðruvísi – eða ekki, eftir atvikum. Ef við tölum fyrir því að fólk er fólk, ekki tölur á blaði þá förum við að umgangast það öðruvísi. Ef við tölum fyrir því að jörðin er jörðin, eiginlega alveg óháð því hvort á henni þrífist mannkyn eða ekki, þá förum við að umgangast hana öðruvísi.

 

Kæru félagar. Loftslags og umhverfismálin og fasísk öfl sem naga samfélag okkar að innan með frasa pólitík og patent lausnum eru mál málanna. Þau verða ekki leyst með nýsköpun í markaðssetningu eða því að klæðast grænu við gefin tilefni. Við kaupum okkur ekki frá þessum málum. Við þurfum að kaupa minna, kaupa minna af þvætting, kaupa minna af einföldum lausnum, kaupa minna af reddingum, kaupa minna af drasli, kaupa minna – vera meira! Góð ráð þurfa nefninlega alls ekki að vera dýr, jafnvel þó vandinn sé stór. Við öll, erum einfaldlega það „við öll“ í víðustu merkingu þess orðs.

 

Ég vil enda þetta erindi á smá fréttum. Þannig er eins og mörg ykkar hafa heyrt að hagir mínir eru að breytast. Ég fékk stöðu sem prófessor og yfirmaður 35 manna rannsóknarteymis í menningarlandfræði við Wageningen háskóla í Hollandi. Um er að ræða sérhæfða rannsóknarstofnun í umhverfsivísindum og ég hef fegnið topp stöðu sem leiðtogi þessa öfluga rannsóknarhóps. Þetta leiðir til þess að ég flyt til Hollands núna eftir helgina. Ég mun áfram sinna af elju störfum mínum sem varaformaður. Líkt og til þessa mun ég vinna gegnum netið og síma og frómt frá sagt er ferðalagið frá Hollandi til Reykjavíkur oft á tíðum einfaldara en Akureyri – Reykjavík, sér í lagi að vetri og stundum jafnvel ódýrara. Fjölskyldan kemur með mér í haust en við munum engu að síður halda heimili hér á landi einnig. Því er fyrirsjáanlegt að ég verði í nokkuð tíðum ferðum heim fram á haustið. Hinsvegar er ljóst að svona breyting á högum er ekki góð fyrir varaformann til langs tíma litið. Því vil ég tilkynna hér og nú að ég mun ekki sækjast eftir endurkjöri á landsfundi okkar nú í október. Samhliða því hef ég lagt til og mun fylgja eftir, skoðun á hlutverki stjórnar og varaformanns sérstaklega til að styrkja innviði hreyfingarinnar. Það er mikilvægt að skoða hvaða hlutverki þeir gegna sem sækjast eftir forystu í stjórnmálaafli sem þessu. Gera má ráð fyrir að sá sem sækist eftir slíku ætli sér eitthvað á vettvangi stjórnmálanna, en ekki á skrifstofu hreyfingarinnar sem nú er orðin mjög öflug og skipulögð. Ég vænti þess að línur skýrist fyrir landsfund okkar, hvað sá er nær kjöri varafomanns getur vænst að ætlast sé til af sér og ekki síður að sá hinn sami fái færi á að beita sér á hinum pólitíska vettvang.

 

Kæru félagar. Það eru spennandi tímar framundan hjá okkar tvítugu hreyfingu. Við vitum hver við erum, vitum hvað við viljum og höfum starfsemi sem getur framfylgt því. Nú brýnum við okkar góðu stefnumál og höldum ótrauð áfram baráttunni til jafnara, grænna og manneskjulegra samfélags. – Áfram VG, 20 ár hið minnsta …