,

Ræða formanns á flokksráðsfundi 12 október

Kæru félagar

Velkomin á flokksráðsfund

Verkefni undanfarinna tíu mánaða, allt frá kosningum hafa verið ærin. Ný ríkisstjórn tók við 30. nóvember eftir óvæntar kosningar fyrir tæpu ári. Við Vinstri-græn komum vel út úr þeim kosningum og bættum við fylgi okkar í annað sinn í röð enda settum við fram skýra stefnu með þremur höfuðatriðum sem voru: uppbygging samfélagslegra innviða til að jafna lífskjör og bæta hag almennings, aukið samráð um stórar pólitískar ákvarðanir og raunverulegar umfangsmiklar aðgerðir í loftslagsmálum.

Hér stöndum við tíu mánuðum síðar eftir að hafa tekið þá ákvörðun að ráðast í umdeilt ríkisstjórnarsamstarf sem eigi að síður naut yfirgnæfandi stuðnings innan flokksráðs Vinstri-grænna. Og ég er stolt af þeim árangri sem hefur náðst á þessum skamma tíma. Mig langar að tala sérstaklega um þrjú lykilatriði sem ég tel að skipti máli í þeirri vinnu. Og síðan langar mig – af því að þessi flokksráðsfundur er helgaður innra starfi hreyfingarinnar – að tala um okkur sjálf.

Við erum hreyfing sem leggur áherslu á félagslegt réttlæti. Það er ein af fjórum stoðum stefnuyfirlýsingar okkar. Þessi ríkisstjórn hefur með breytingum sínum í skattamálum nú þegar stuðlað að auknum jöfnuði og réttlátara skattkerfi. Í fyrra við afgreiðslu fjárlaga hækkuðum við fjármagnstekjuskatt um tíu prósent, úr 20 prósentum í 22 prósent en sú skattahækkun leggst á þá sem eiga mest. Núna leggjum við til að hækka barnabætur og auka þannig ráðstöfunartekjur tekjulágra barnafjölskyldna svo um munar frá næstu áramótum. Ennfremur er lagt til að hækka persónuafsláttinn umfram breytingar á vísitölu neysluverðs og það gagnast best hinum tekjulægri. Að auki verða efri mörk skattkerfisins fest við neysluvísitölu eins og lægri mörkin þannig að þessi mörk breytist með sambærilegum hætti eins og margoft hefur verið kallað á. Allt eru þetta mikilvægar jöfnunaraðgerðir og fyrst og fremst í þágu sem standa höllum fæti. Að lokum er tryggingagjaldið lækkað um 0,25% sem gagnast atvinnulífinu öllu, ekki síst litlum og meðalstórum fyrirtækjum.

Þessar breytingar endurspegla líka þá tóna sem við höfum heyrt frá aðilum vinnumarkaðarins en þar hefur verkalýðshreyfingin til dæmis lagt áherslu á hækkun barnabóta og endurskoðun á persónuafslætti en Samtök atvinnulífsins hafa lagt áherslu á lækkun tryggingagjalds. Þeir reglubundnu fundir sem við, forystufólk ríkisstjórnarinnar, höfum átt með aðilum vinnumarkaðarins og forsvarsmönnum sveitarfélaga hafa skilað auknum skilningi milli aðila og aðgerðum. Nægir þar að rifja upp hækkun atvinnuleysisbóta og greiðslna úr Ábyrgðarsjóði launa, niðurlagningu kjararáðs sem og þær aðgerðir sem ég nefndi hér áðan.

En rétt er að minna á að það eru fleiri jöfnunartæki til en skattkerfið. Þannig hefur Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin bent á að það að draga úr kostnaði fólks við að sækja sér heilbrigðisþjónustu sé gríðarlega mikilvæg jöfnunaraðgerð. Hér á landi hafa sjúklingar þurft að greiða meira fyrir heilbrigðisþjónustu en annars staðar á Norðurlöndum. Fyrstu skrefin í því að lækka þennan kostnað voru stigin þann 1. september þegar dregið var úr kostnaði aldraðra og öryrkja við tannlækningar sem er löngu tímabær og mikilvæg aðgerð. Gleymum því svo ekki að þetta er mesta bragarbót sem gerð hefur verið á þessum málum síðan við vorum síðast í ríkisstjórn en þá voru tannlækningar barna gerðar gjaldfrjálsar. Heilbrigðisráðherra mun halda áfram á sömu braut og í fyrstu fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar er gert ráð fyrir fjármunum til að lækka kostnað sjúklinga jafnt og þétt uns við verðum komin á par við Norðurlöndin á tíma fjármálaáætlunar.

Gott heilbrigðiskerfi er brýnt lífskjaramál og þar er mikilvægt að bregðast við skýrri forgangsröðun almennings sem hefur sett þennan málaflokk efst á sinn lista fyrir tvennar síðustu kosningar. Þar forgangsraðar heilbrigðisráðherra okkar Vinstri-grænna geðheilbrigðismálunum en nú er unnið að því að auka aðgengi að sálfræðingum um land allt auk geðheilsuteyma en sú geðheilbrigðisáætlun sem samþykkt var á Alþingi 2016 er nú loksins fjármögnuð. Og á morgun verður tekin skóflustunga að nýjum Landspítala sem er löngu tímabær framkvæmd –  og verður stór og flókin en mikið framfaraspor.

Enn eitt jöfnunarmál er það mikilvæga verkefni að bæta framfærslu öryrkja en í það eru lagðir fjórir milljarðar í fjárlagafrumvarpinu sem nú liggur fyrir Alþingi. Starfað hefur samráðshópur sem ætlað er að gera tillögur um það hvernig þessum fjármunum verður sem best varið ásamt því að auka möguleika öryrkja til virkrar samfélagsþátttöku og þátttöku á vinnumarkaði. Þarna verður að horfa til tveggja mikilvægra þátta að mínu viti; að bæta framfærslu þeirra sem eingöngu hafa úr framfærslu almannatrygginga að spila og standa höllustum fæti og hins vegar að draga úr skerðingum á þær viðbótartekjur sem fólk aflar sér og hafa reynst letjandi til allrar þátttöku á vinnumarkaði. Þá er unnið að því í að fara yfir hvernig breytingar á almannatryggingum sem samþykktar voru árið 2016 hvað varðar eldri borgara hafa reynst þeim en markmiðið er að greina þann hóp eldri borgara sem býr við bágust kjör og styðja betur við hann. Allt eru þetta mikilvægar jöfnunaraðgerðir sem snúast um að útrýma fátækt og tryggja að allir búi við mannsæmandi kjör.

Í þessari umræðu má hins vegar ekki gleyma unga fólkinu okkar en margar vísbendingar eru um að þegar við horfum heildstætt á stöðu ólíkra samfélagshópa þá sé unga kynslóðin sá hópur sem við þurfum að sinna sérstaklega. Öll gögn sem við höfum benda til að unga fólkið hafi dregist aftur úr í tekjum og það er þessi hópur sem á í kröggum með að flytja úr foreldrahúsum.

Kæru félagar.

Enn hef ég ekki nefnt eitt mikilvægasta jöfnunartækið sem er menntakerfið. Þar höfum við aukið verulega fjárveitingar til háskóla og framhaldsskóla. Samkvæmt upplýsingum frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu stefnir allt í að fjárframlög til íslenskra háskóla verði komin á par við meðaltal OECD árið 2020 en þetta markmið er í stjórnarsáttmála þessarar ríkisstjórnar. Sömuleiðis hafa framlög til framhaldsskóla verið aukin en ekki skert eins og fyrirhugað var hjá síðustu ríkisstjórn. Og af hverju er það mikilvægt? Jú, það er mín bjargfasta trú að menntun sé lykilatriði fyrir tvennt. Annars vegar að tryggja aukinn jöfnuð, tryggja það að allir geti sótt sér menntun og þar með þroskað hæfileika sína og skapað sér sín eigin tækifæri og aukið lífshamingju sína. Og hins vegar er aukin menntun undirstaða fyrir hagsæld framtíðarinnar sem mun byggjast á nýsköpun og þekkingariðnaði. Það er langmikilvægasta efnahagsmál þessarar þjóðar, að fjölga stoðunum undir efnahagslífinu, byggja á hugvitinu ekki síður en nýtingu náttúruauðlinda og tryggja þannig hagsæld til langrar framtíðar.

Meðal annars þess vegna leggur ríkisstjórnin til að settur verði á laggirnar þjóðarsjóður með arðgreiðslum frá Landsvirkjun og hluti þeirra verði notaður, annars vegar í hið brýna verkefni, uppbyggingu hjúkrunarrýma, og hins vegar í aukna fjárfestingu í nýsköpun. Nýsköpun í ólíkum geirum sem ekki verður aðeins mikilvæg fyrir hagsæld framtíðar heldur er að mínu viti nauðsynleg til að bregðast við stærstu áskorunum samtímans sem eru annars vegar sú tæknibylting sem blasir við á öllum sviðum samfélagsins og hins vegar loftslagsbreytingar.

Og þá kemur að ekki minna lykilatriði sem eru umhverfismálin. Í tíð þessarar ríkisstjórnar hafa orðið straumhvörf í fjárveitingum til loftslagsmála og í stefnumörkun. Ríkisstjórnin kynnti í byrjun september fyrstu áfangana í metnaðarfullri aðgerðaáætlun í loftslagsmálum. Þar munu landgræðsla, skógrækt og endurheimt votlendis verða fyrirferðarmikil til þess að binda aukið kolefni en í stjórnarsáttmála er kveðið á um að Ísland eigi að verða kolefnishlutlaust ekki seinna en 2040. Annar stór áfangi eru orkuskipti í samgöngum þar sem stórátak verður í uppbyggingu fyrir rafbíla og rafhjól og sett niður tímaáætlun um að ekki verði fluttir inn nýir bílar sem ganga fyrir bensíni eða olíu eftir 2030. Ný skýrsla um loftslagsbreytingar sýnir gjörla að aðgerða er þörf – og víðar en á þessum tveimur sviðum. Þar þurfa stjórnvöld að ganga á undan með skýrri sýn og aðgerðum en mikil ábyrgð hvílir líka á sveitarfélögum og atvinnulífi en ég vil fagna þeim áhuga sem við höfum fundið, bæði frá ýmsum sveitarfélögum en ekki síður heildarsamtökum innan atvinnulífsins á að sýna ábyrgð og takast á við þetta risavaxna verkefni – og ný skýrsla SÞ er auðvitað sláandi áminning um hina alvarlegu stöðu sem mannkynið stendur frammi fyrir ef ekkert er að gert.

Við þurfum að huga að því hvernig við getum orðið mun öflugri í matvælaframleiðslu til að draga úr vistspori innfluttra matvæla og verða sjálfum okkur nægari í matvælaframleiðslu. Við þurfum að tryggja ungum bændum frelsi til að fara ótroðnar slóðir í matvælaframleiðslu, tryggja að bændur eigi ólíka valkosti í framleiðslu sinni, geti selt beint frá býli og greiða fyrir því að þeir geti sinnt nýsköpun og þróun.

Það er orðið leiðigjarnt stef þegar menn kappkosta að tala niður innlendan landbúnað eins og hann sé þurfalingur í íslensku samfélagi þegar hann er einmitt undirstöðuatvinnugrein til þess að Ísland geti orðið raunveruleg matarkista. Öll okkar stefnumörkun á að miðast við þá heildarsýn að við drögum úr vistsporinu, minnkum sóun, eflum nýsköpun í matvælaframleiðslu og tryggjum matvæla- og fæðuöryggi. Sýna þarf stórhug í hvers konar landbúnaði og sjávarútvegi og setja niður matvælastefnu fyrir Ísland sem bregst við þeim raunverulegu áskorunum sem heimurinn stendur frammi fyrir.

Atvinnulíf í sátt við samfélag og umhverfi er kjarni okkar stefnu; kjarni hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar. Við eigum einstakt tækifæri til að ráðast í breytingar sem munu gera íslenskt samfélag sjálfbærara. Þar skiptir öllu máli það sem við erum að gera í þessari ríkisstjórn, sú kúvending sem nú hefur orðið í þessum málaflokki, mestu áskorun aldarinnar; loftslagsmálunum.

Og þá komum við að þriðja lykilatriðinu sem snýst um fólk; traust, gagnsæi, mannréttindi. Nú um áramótin munu jafnréttismál færast yfir í forsætisráðuneytið í kjölfar þess að ríkisstjórnin ákvað strax í desember að setja á laggirnar ráðherranefnd um jafnréttismál til að tryggja að þau séu forgangsmál allra ráðuneyta. Endurskoðun jafnréttislaga verður þar stórt verkefni en miklu skiptir að samhliða útvíkkun jafnréttishugtaksins sé gætt að því að ekkert bakslag verði í kvenfrelsis- og kynjajafnréttismálum. Sérstök áhersla hefur verið lögð á að uppræta kynbundið ofbeldi. Fullgilding Istanbúlsáttmálans um forvarnir og baráttu gegn ofbeldi gegn konum og heimilisofbeldi var mikilvægt skref í rétta átt sem stigið var í vor. Á þessu ári hefur hópur sérfræðinga verið að störfum undir forystu Höllu Gunnarsdóttur, og greint hvað þurfi að gera og hverju þurfi að breyta til þess að hafa betur í baráttunni gegn kynferðisofbeldi. Hópurinn hefur nú skilað af sér verkáætlun sem verður samstundis hrint í framkvæmd. Og við munum halda áfram að vinna úr lærdómum #églíka-byltingarinnar, meðal annars með alþjóðlegri ráðstefnu sem haldin verður hér á landi á komandi ári. Og við ætlum að horfa inn á við í þessum málum – á morgun ræðum við drög að nýrri áætlun VG gegn kynferðislegri áreitni og kynbundinni áreitni og ofbeldi. Það var tímabært að endurskoða áætlunina okkar og #églíka bylgjan gaf okkur kærkomið tækifæri til að líta aftur inn á við og spyrja: fara saman orð og gjörðir í okkar hreyfingu?

Að einhverju leyti, tel ég, en við megum ekki slá slöku við. Við þurfum að horfast í augu við að eðli stjórnmálastarfs er með þeim hætti að þar eru áhættuþættir fyrir hendi. Innan stjórnmálaflokka er alltaf ákveðin samkeppni, það komast færri að en vilja í ýmsar stöður, og við eigum í átökum um hugmyndir, stefnur og strauma. Stjórnmálastarfi fylgir líka félagslíf sem er mikilvægur hluti stjórnmálastarfs en getur einmitt orðið vettvangur áreitni og jafnvel ofbeldis.

 

Þetta tölum við sjaldan um, en ég er sannfærð um að opin umræða sé af hinu góða.

Síðan er hitt og það er að við þurfum að vera undir það búin að takast á við einstaklingsmál þegar þau koma upp. Í nýju drögunum okkar er lögð áhersla á að í flóknum málum eigi að sækja utanaðkomandi aðstoð. Vandinn er sá að fæst okkar kunna að takast á við svona mál – og sem betur fer komumst við ekki í góða þjálfun við það. Þess vegna fagna ég því að við séum að útbúa sterkari ferla í sameiningu.

 

En þessi áætlun á að vera lifandi plagg. Við eigum að endurskoða hana reglulega og við eigum öll að eigna okkur hlutdeild í henni. Því þetta er okkar áætlun. Ég veit líka að engir ferlar eru fullkomnir. Kynbundið ofbeldi er aðeins ekki einstaklingsbundið vandamál, heldur menningarbundið og við höfum öll lifað og hrærst í þessari sömu menningu. En kæru félagar, gerum öll, hvert og eitt og í sameiningu, allt sem í okkar valdi stendur til að koma í veg fyrir að áreitni og ofbeldi sé liðið innan okkar hreyfingar.

En aftur að landsmálunum.

Hér heima vitum við að við höfum dregist aftur úr öðrum löndum í Evrópu hvað varðar lagaleg réttindi hinsegin fólks. Í vetur verður lagt fram frumvarp á Alþingi um framsækið lagaumhverfi um kynrænt sjálfræði. Þegar frumvarpið verður að lögum mun það koma okkur í fremstu röð – þar sem við eigum að vera, af því að við getum það og af því að það er rétt.

Réttindabarátta hinsegin fólks er ofarlega á forgangslista núverandi ríkisstjórnar og við höfum þegar náð góðum áföngum á þessum fyrstu mánuðum. Frumvarp um jafna meðferð á vinnumarkaði óháð kynþætti, þjóðernisuppruna, trú, lífsskoðun, fötlun, aldri, kynhneigð, kynvitund, kyneinkennum eða kyntjáningu var samþykkt í vor og er mikilvægt skref til að tryggja mannréttindi allra. Ríkisstjórnin hefur líka tvöfaldað fjárframlög til Samtakanna 78 þannig að þau geti betur sinnt sínu mikilvæga starfi.

Á síðustu misserum höfum við séð stjórnvöld í ýmsum ríkjum afnema réttindi sem lengi hefur verið barist fyrir. Víða hefur orðið bakslag og við þurfum að berjast gegn því og tala skýrt fyrir réttindum fólks hvar sem við komum og á hvaða vettvangi sem er.

 

 

Ég hef sett fram tillögu um heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar á tveimur kjörtímabilum. Formenn flokkanna hafa fundað nokkrum sinnum og ég vona svo sannarlega að sem breiðust samstaða náist um breytingar á stjórnarskrá á þessu kjörtímabili. Ætlunin er að hafa samráð við almenning í því ferli og nýta til þess aðferðir þátttökulýðræðisins. Ríkisstjórnin hefur tekið ýmis skref í því að auka gagnsæi og upplýsingagjöf. Góð skýrsla var gerð um eflingu trausts á stjórnmálum og stjórnsýslu og verður núna markvisst unnið úr þeim tillögum sem þar eru lagðar fram. Sumt hefur ríkisstjórnin þegar ráðist í, meðal annars að opna dagbækur ráðherra og birta hagsmunaskráningu ráðuneytisstjóra og aðstoðarmanna. Næstu skref verða að setja skýrari ramma um birtingu upplýsinga, meðal annars með endurskoðun upplýsingalaga. Núna á mánudaginn verða kynnt fimm frumvörp sem heyra undir fjóra ráðherra sem öll efla upplýsinga- og tjáningarfrelsi.

Að efla traust er langtímaverkefni. Ýmsir hafa orðið til að gera lítið úr þessum aðgerðum og nýjasta tuggan er að gera lítið úr umræðu, undirbúningi og vandaðri vinnu en sem vanur langhlaupari veit ég að í þessum málum er það úthaldið sem skiptir máli.

Að lokum langar mig að nefna eitt frumvarp sem ég fæ vonandi að mæla fyrir í næstu viku og varðar réttindi barna. Það felur í sér endurskoðun á lögum um umboðsmann barna og að efnt verði til barnaþings annað hvert ár. Ég vona sannarlega að þetta verði til þess að börn og ungmenni fái sterkari rödd í okkar samfélagi. Ekki veitir af.

Kæru félagar.

Þessi flokksráðsfundur á ekki síst að snúast um innra starf og okkur sjálf. Við fögnum tuttugu ára afmæli á næsta ári. Sjálf hef ég verið virkur félagi í ein 17 ár. Þessi hreyfing er ekki sú sama og hún var þá. Hreyfingin eldist og breytist, eins og við öll.  Og það er sú spurning sem mig langar að varpa til ykkar góðir félagar. Erum við söm? Eruð þið söm? Og eigum við að vera söm?

Í ár eru tíu ár liðin frá hruni. Þróun stjórnmálanna hefur verið sú að æ fleiri flokkar hafa komið fram og náð áhrifum. Flokkakerfið er gjörbreytt frá árinu 1999, og við erum ekki á sama stað í því kerfi og við vorum þá.

Mér finnst það ekki hættulegt. Mér finnst það ekki slæmt. Hins vegar er mikilvægt að við ígrundum hvað okkur sem hreyfingu finnst um þessa þróun.

Ég ætla að nefna nokkra þætti sem ég tel að geti skipt máli fyrir þá ígrundun.

Í fyrsta lagi eru lýðræðislegir stjórnmálaflokkar ekki ættaðir úr neðra eins og ætla mætti af orðræðu undanfarinna ára. Lýðræðislegir stjórnmálaflokkar sem farvegur hugmynda og gilda eru undirstaða lýðræðisins og að hallmæla flokkakerfi og stjórnmálaflokkum er slæmt fyrir lýðræðið. Þá eykst hættan á að stjórnmálin snúist um einstaklinga og persónur en ekki lýðræðislega ákvarðanatöku á félagslegum grunni.

Þá er ástæða til að gera upp við fjórflokkshugtakið. Þetta er ekkert nema merkimiði sem þjónar tilteknum öflum, hugtak sem beinlínis var búið til í áróðursskyni. Í þessari orðræðu er ung hreyfing eins og okkar lögð að jöfnu við hundrað ára gamla flokka. Við störfum á sviði þar sem eru alls konar stjórnmálahreyfingar, sumar tveggja ára, sumar 19 ára og aðrar 102 ára, sem snúast um ólík gildi og ólíka hugmyndafræði. Og það eru þau gildi og sú hugmyndafræði sem við í Vinstrihreyfingunni-grænu framboði ætlum að ræða hér á eftir.

Í þriðja lagi er það svo að Vinstrihreyfingin – grænt framboð hefur breytt um ýmsar áherslur á því tæplega tuttugu ára tímabili sem við höfum starfað. Það er vegna þess að stjórnmálaflokkur er ekki safn eða stofnun með hlutverk sem skráð er í lög heldur hreyfing sem eins og nafnið gefur til kynna er ekki kyrrstæð. Hreyfing fólks sem breytist, þroskast og lærir og skiptir stundum um skoðun. Ég get nefnt mörg dæmi. Eða man einhver eftir því hvernig við tókumst á við spurninguna um olíuleit? Eigum við að ræða Evrópusambandið og þau sjónarmið að þar ætti meirihlutinn að ráða för? Já við erum hreyfing. Og við ættum að huga að því þegar við tölum um stjórnmál og stefnu að þar skipta gildin einmitt mestu. Ég hef lært mikið á þeim tíu árum sem ég hef setið á þingi og skoðanir mínar á ýmsu hafa breyst og þróast. Hvort sem er bönkum, landbúnaði, sjávarútvegi og ég gæti haldið lengi áfram.

Í fjórða lagi hefur reynslan mótað okkur. Þátttaka okkar í ríkisstjórninni 2009 til 2013 breytti þessari hreyfingu talsvert. Þar gátum við ekki látið nægja að gagnrýna og setja fram óskir heldur þurftum við að starfa með öðrum og að leysa ófyrirsjáanleg og flókin verkefni sem kallar á málamiðlanir. Margir aðrir flokkar hafa orðið til síðan sem hafa tekið af okkur það hlutverk að vera nýjasti flokkurinn sem aldrei hefur þurft að miðla málum eða velja milli tveggja erfiðra kosta. Við höfum á meðan lært að maður nær aldrei fram öllum sínum óskalista í ríkisstjórn og jafnvel geta fleiri en eitt af okkar mikilvægu gildum kallað á mismunandi niðurstöðu. Því stundum stangast gildin á og þá þurfum við að viðurkenna það og vinna úr því. Það á við um bæði stjórnmálaflokka og einstaklinga.

Í fimmta lagi tel ég að allir stjórnmálaflokkarnir hafi breyst. Ég held í fyrsta lagi – af því að ég nefndi traust hér áðan – að ekki aðeins hafi traust á stjórnmálum hrunið 2008 heldur hrundi líka traust í stjórnmálum. Það hefur haft áhrif á þróun stjórnmálanna; óttinn við vera kennt um allt sem aflaga fer hefur haft áhrif á hvernig ákvarðanir eru teknar því enginn vill bera ábyrgð á hugsanlegum mistökum. Og ég er sannfærð um að núverandi ríkisstjórn getur skipt máli í því verkefni – við tókum áhættuna 2009 og við tökum hana aftur núna af því að við ætlum ekki að láta óttann við gagnrýnina ráða för heldur trúna á að við getum náð árangri fyrir fólkið í landinu; árangri sem er í takt við okkar gildi og okkar hugmyndir.

Í sjötta lagi tel ég að þessi staða skapi okkur tækifæri. Vissulega er það svo að þegar við breytumst þá breytist líka kjósendahópur okkar. Bæði vegna þess að við höfðum að einhverju leyti ekki til sama fólks og áður en líka – og það er mikilvægt að muna – að kjósendur eru fólk eins og við sem breytist, þroskast, skiptir um skoðun. Og þá er eini leiðarvísir okkar að vera sjálfum okkur trú, gildum okkar og hugmyndum. Við erum í langhlaupi, góðir félagar, og við höfum reynst drýgri í því langhlaupi en margir hafa spáð gegnum tíðina. Nýtum tímann í kvöld og á morgun til að nesta okkur fyrir það, það gerum við með því að horfa inn á við – og fram á við.

Katrín Jakobsdóttir