Ræða formanns á flokksráðsfundi

Kæru félagar!

 

Það sem mér finnst best við kosningar er sjálft lýðræðið á kjördeginum, þegar kjósandinn stendur einn í klefanum og þarf að gera upp við sig hverjum hún eða hann eða hán treystir best fyrir þessu sérkennilega verkefni að stjórna landinu, að því marki sem einhver stjórnar þessu landi.

 

Það er gaman að ræða málefnin og á þessum tæpa mánuði sem er til kosninga höfum við tækifæri til að setja tiltekin mál á dagskrá og helst uppskera svo mikið fylgi að við getum síðan þokað þeim í rétta átt.

 

Það hefur verið verkefni okkar Vinstrigrænna frá upphafi að setja mál á dagskrá og það hefur okkur stundum tekist bærilega, svo vel stundum að fólk er jafnvel búin að gleyma því hversu óvinsæl þau voru fyrir rúmum áratug. Þá var fólk stundum sagt illa vinstrigrænt fyrir að efast um kapítalismann, fyrir að vara við stóriðju, og hversu oft höfum við ekki heyrt orðin öfgar og femínismi í sömu setningu.

 

En margt af því sem við sögðum áður þykir ekki lengur róttæk og yfir því getum við glaðst saman hér í dag þegar framundan er einstakt tækifæri okkar og þjóðarinnar til að breyta um stefnu og taka nýja stefnu sem leggur grunninn að betra samfélagi fyrir okkur öll.

 

Við erum í framboði í þessum kosningum af því að við vitum að framtíðarsýn VG á brýnt erindi við íslensku þjóðina. Við vitum líka að hugmyndir okkar eiga hljómgrunn hjá almenningi. Verkefni okkar næstu daga og vikur er að kynna þessar hugmyndir sleitulaust; við þurfum að ræða við vini og vandamenn, vinnufélaga og nágranna, ókunnugt fólk; við þurfum að vekja með öllum von um heilbrigt og réttlátt samfélag þar sem enginn er skilinn eftir, þar sem við tryggjum jöfnuð og jöfn tækifæri fyrir okkur öll. Það er hægara sagt en gert að tryggja slíkt samfélag en það er okkar eindregni vilji.

 

Þetta er sá valkostur sem við í VG bjóðum í stað þeirrar áherslu á velferð hinna auðugu sem sem hefur verið ráðandi í landinu síðastliðin þrjú ár. Við sjáum nú að ýmsir talsmenn ríkisstjórnarinnar hafa keypt sér sósíalískar sauðargærur á afslætti fyrir þessar kosningar því að nú keppast ráðherrar og þingmenn hver um annan þveran að lofa bót og betrun í heilbrigðismálum, í málefnum aldraðra og öryrkja, menntamálum, húsnæðismálum og svo mætti lengi telja. Sannarlega líta þeir betur út í þessari gæru en í þeim auðmannafötum sem við höfum hingað til séð. En hvað er bak við gæruna?

 

Hver eru hin raunverulegu gildi á bak við það hjá flokkum sem reyndu að leggja á komugjöld á sjúkrahús (en voru stöðvaðir af öflugri stjórnarandstöðu), felldu ítrekað tillögur stjórnarandstöðuflokkanna um kjarabætur fyrir aldraða og öryrkja, skáru niður heilt ár af framhaldsskólunum og lokuðu þeim fyrir eldri nemendum og hrósa sér af hækkuðum framlögum á nemanda í háskólum með því að fækka nemendum?

 

Hvaða gildi eru þetta önnur en auðþekkt hægristefna þar sem ofurkapp hefur verið lagt á að lækka skatta og skorið niður á móti?

 

Og menn hafa líka dregið fram grænþvottaduftið. Nú er engin stóriðja í spilum lengur, heldur hljóma allir eins og við vinstrigræn talandi um nýsköpun og skapandi greinar – það vantar bara fjallagrösin. En hver er sannleikurinn á bak við það hjá flokkum sem byrjuðu á að afturkalla ný náttúruverndarlög og taka rammaáætlun úr sambandi og hafa svo verið hraktir til baka af okkur í stjórnarandstöðunni sem gáfumst ekki upp í þessum málum?

 

Það væri gaman að trúa þessum nýju andlitum en við vitum ósköp vel að þessar áherslur verða því aðeins endingargóðar að Vinstrigræn fái myndarlega útkomu í kosningunum 29. október.

 

Það geta allir reynt að mæta til kjósenda fyrir kosningar með nýtt nesti í nýjum mal. En þessi ríkisstjórn hefur ekki nýtt sín tækifæri. Hún hefur einbeitt sér að því að lækka skatta og gjöld á þá ríkustu en hún hefur vanrækt uppbyggingu innviða, hvort sem er í heilbrigðisþjónustu, menntun, samgöngum, fjarskiptum eða öðru. Hún hefur sólundað opinberu fé í skuldaleiðréttingu sem breytti litlu fyrir raunverulegan efnahag heimilanna og hefur reynst illa lág- og millitekjufólki sem allt í einu áttar sig á að vaxta- og barnabætur hafa verið skertar á móti. Hún hefur látið breytingar á stjórnarskránni reka á reiðanum, hún hefur lítið frumkvæði sýnt í baráttunni gegn loftslagsbreytingum. Og hún hefur svo sannarlega glatað niður tækifærinu til að byggja upp traust almennings á stjórnmálunum. Það gufaði upp í vor þegar í ljós kom að ráðherrar ríkistjórnarinnar búa ekki í sama hagkerfi og við hin.

 

Þetta er svo sannarlega ríkisstjórn hinna glötuðu tækifæra. Hún tók við prýðilegu búi en náði ekki að byggja upp traust á sjálfri sér. Þess vegna eru þeir núna komnir í ný gervi, kæru félagar! Þess vegna eru þeir dulbúnir sem undanrennugerðin af vinstrigræna rjómanum.

 

Mér finnst það hafa komið æ betur í ljós seinustu misserin að Íslendingar vilja samfélag sem grundvallast á jöfnuði, réttlæti, umhverfisvernd og lýðræði. Tækifærin eru til staðar til að gera svo miklu betur – og þess vegna segi ég: Ef við leggjum hart að okkur næstu daga og vikur og kynnum okkar hugmyndir, þá munum við í Vinstri-grænum standa uppi sem sigurvegarar kosninganna.

 

Við ættum að geta það því við höfum hugmyndirnar og skýra framtíðarsýn sem við deilum með þorra þjóðarinnar. En við verðum að nota hverja mínútu framundan, láta hendur standa fram úr ermum því nú skiptir hvert einasta augnablik máli, hvert einasta samtal, við eigum brýnt erindi og við getum haft áhrif til góðs fyrir samfélagið allt.

 

Kæru félagar.

 

Það er ekki nóg að tala um heilbrigðismálin rétt fyrir kosningar, við þurfum að láta verkin tala. Spurningin er þessi: Hverjum treysta kjósendur til að standa við stóru orðin? Heilbrigðiskerfið hefur verið fjársvelt í heilan aldarfjórðung og greiðsluþátttaka almennings hefur aukist jafnt og þétt. Ríkisstjórnir Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks hafa grafið undan heilbrigðisþjónustu hins opinbera og aukið einkarekstur í heilbrigðiskerfinu. Það í trássi við vilja almennings en samkvæmt skoðanakönnunum vilja 80% Íslendinga að heilbrigðiskerfið sé félagslega rekið. Þó bjóða nú ýmis framboð, bæði gömul og ný, upp á sömu gömlu tuggurnar um dýran einkarekstur sem svarið við fjársveltinu.

 

Ríkisstjórn stærir sig af því að hafa sett fleiri krónur í heilbrigðiskerfið en staðreyndin er sú að framlög til heilbrigðismála drógust saman sem hlutfall af landsframleiðslu milli áranna 2014 og 2015. Þó hafa yfir 86 þúsund Íslendingar skrifað undir áskorun um það að þetta hlutfall eigi að fara upp en ekki niður. Talnaleikir skipta hér ekki máli heldur sá raunveruleiki sem fólk býr við sem þarf á heilbrigðiskerfinu hér.

 

Í góðærinu fyrir hrun voru það sömu flokkar og nú sem vanræktu heilbrigðiskerfið með hörmulegum afleiðingum. Ríkisstjórnin virðist staðráðin í að endurtaka sömu mistök: Að fjársvelta heilbrigðiskerfið í góðæri. Markmiðið kannski það að fá fólk til að vantreysta hinu opinbera kerfi, skapa gerviþörf fyrir einkarekstur.

 

Fólkið í landinu getur treyst því að við í Vinstri-grænum munum snúa þessari þróun við. Við munum standa við stóru orðin og gera það sem þarf til að endurreisa heilbrigðiskerfið. Ekki með tvöföldu kerfi. Okkar áherslur eru þær að þjónustan verði veitt fremur en að á henni verði grætt.

 

Á fyrstu hundrað dögum ríkisstjórnar okkar verður sett niður sex ára aðgerðaáætlun um forgangsröðun fjármuna þar sem mat sérfræðinga mun skipta máli. Þar verður forgangsraðað í þágu hins opinbera kerfis sem hefur orðið útundan í þróun heilbrigðismála. Við munum styrkja rekstur sjúkrahúsa, heilbrigðisstofnana og hinnar opinberu heilsugæslu. Þa’ð verður forgangsraðað í þágu þess að létta gjaldtöku af sjúklingum í áföngum. Fyrst á heilsugæslunni og göngudeildum sjúkrahúsanna.  Og auðvitað á að ljúka byggingu Nýs Landspítala við Hringbraut.

 

Við getum gert það og við eigum að gera það.

 

En hvernig? Hver á að borga? Þarf ekki að hækka skatta á almenning og fyrirtæki til að standa undir þessum loforðum?

 

Svarið er nei.

Við munum ekki hækka skatta á almenning í landinu en í staðinn munum við gera þrennt:

 

  1. Tökum á skattaskjólum og skattaundanskotum. Umfang skattaundanskota á Íslandi er varlega áætlað 80 milljarðar króna á ári. Með því að setja aukið fé í skattaframkvæmd og skattaeftirlit er hægt að tryggja mun betri heimtur og að allir leggi sitt af mörkum til samfélagsins. Hér er um stórar upphæðir að ræða.
  2. Tryggjum að alþjóðleg stórfyrirtæki borgi skatta á Íslandi eins og önnur fyrirtæki. Þetta höfum við þingmenn Vinstri grænna lagt til allt frá árinu 2013 – og fyrst nú eru stjórnarflokkarnir að hreyfa sig í þessa átt.
  3. Sjáum til þess að þeir sem nýta auðlindir þjóðarinnar greiði fyrir það eðlilegt gjald og að hinir allra ríkustu borgi hlutfallslega meira en aðrir hópar. Þannig á skattkerfið að virka, ekki aðeins til að afla tekna heldur til að jafna kjör og jafna aðstæður.

 

Svona er réttlátt skattkerfi og svona er skattastefnan okkar í VG. Hún er alveg kýrskýr.

 

Ég sat fjölmennan fund eldri borgara í vikunni. Þar var krafan skýr. Ekki er hægt að samþykkja almannatryggingafrumvarpið sem liggur fyrir þinginu óbreytt. Það verður að bæta kjör þeirra sem ekkert hafa nema lífeyri TR en það fólk er nú að fá útborgað um 180 þúsund krónur. Og það verður að setja inn frítekjumörk þannig að tekjulágt fólk geti sótt sér einhverjar aukatekjur. Og síðast en ekki síst er krafan sú að aldraðir vilja taka meiri þátt í ákvörðunum og stefnumótun í samfélaginu á öllum sviðum. Þessu er ég sammála. Það verður að tryggja að lágmarksframfærslan fylgi að minnsta kosti lágmarkslaunum og fylgi þeim upp í þrjú hundruð þúsund krónur, það verður að tryggja að skerðingar letji fólk ekki til atvinnuþátttöku og við eigum umfram allt að líta á aldraða sem þá auðlind í samfélaginu sem þau eru.

Við eigum sömuleiðis að hlusta á kröfur öryrkja sem eru skammtaðar sömu 180 þúsund krónurnar. Það er óviðunandi staða enda ekki margir sem treysta sér að lifa af slíkum tekjum og það er ósanngirni að ríkt samfélag eins og Ísland sætti sig við það.

Það á líka að boða til sóknar í menntamálum. Það var samþykkt stefna á sínum tíma um að fjárveitingar á hvern háskólanema skyldu ná meðaltali OECD-ríkjanna 2016 og meðaltali Norðurlandanna 2020. Allir fögnuðu því. Ríkisstjórnin samþykkti síðan ríkisfjármálaáætlun þar sem boðað var að þessu markmiði yrði náð en ekki með hærri framlögum heldur með því að fækka nemendum. Sama virðist vera uppi á teningnum í framhaldsskólum landsins sem hafa verið fjársveltir um árabil. Það vantar alla alúð við þessar undirstöður framfara á landinu.

Menntakerfið er undirstaða þess að hér sé hægt að byggja blómlegt atvinnulíf, auka verðmætasköpun og gera fólki fært að skapa sér sín eigin tækifæri. Menntakerfið er líka forsenda þess að hér vilji ungt fólk búa áfram en staða ungs fólks er sérstakt áhyggjuefni um þessar mundir. Ungt fólk nú býr við verri kjör en ungt fólk á Íslandi fyrir þrjátíu árum. Því gengur illa að komast í eigið húsnæði því erfitt er að safna fyrir útborgun í íbúð þegar ekkert er afgangs um hver mánaðamót. Þess vegna þarf að styrkja leigumarkaðinn með mun hærri stofnframlögum, það verður að gefa sveitarfélögum heimildir til að stýra leiguverði og það þarf að gæta þess að ásókn ferðamanna í íbúðagistingu raski ekki húsnæðismarkaðnum jafn rækilega og raunin hefur verið á höfuðborgarsvæðinu. Þar þarf stjórnmálaflokka sem þora að beita alvöru aðgerðum til að tryggja að fólk – ekki aðeins ungt fólk heldur fólk á öllum aldri – njóta þeirra grundvallarmannréttinda að hafa öruggt þak yfir höfuðið. Ungt fólk á Íslandi horfir á fæðingarorlofskerfið á Íslandi dragast aftur úr kerfum annarra Norðurlanda – þetta kerfi sem við vorum svo stolt af. Og við skulum ekki gleyma því að það var núverandi ríkisstjórn sem afturkallaði samþykktir síðustu ríkisstjórnar um að lengja fæðingarorlofið upp í 12 mánuði – þótt hún sé fáorð um það núna rétt fyrir kosningar.

Öflugt velferðar- og menntakerfi eru undirstaða þess að hér vilji fólk búa og skapa sér tækifæri – og öflugt atvinnulíf er líka undirstaða öflugs velferðar- og menntakerfis.

 

Kæru félagar.

 

Ég er alin upp við tal um fisk og banka. Og um fátt er meira talað í íslenskum stjórnmálum. Öflugur sjávarútvegur er samfélaginu mikilvægur en eigi að síður hefur ranglæti kvótakerfisins gert það að verkum að neikvæð umræða er um stjórn fiskveiða hér á landi og sátt hefur aldrei náðst og mun ekki náðst nema með kerfisbreytingum. Við Vinstri-græn höfum skýr markmið. Fiskveiðistjórnunarkerfið verður að vera sjálfbært og rekið með umhverfisvænum hætti. Þar verður að tryggja ákveðna byggðafestu. Og við þurfum að reka sjávarútveginn með hagkvæmum hætti þannig að arðurinn af auðlindarentunni skili sér til fólksins í landinu. Þess vegna lögðum við á sérstaka veiðigjaldið á síðasta kjörtímabili og þess vegna höfum við verið opin fyrir því að reyna uppboð á hluta aflaheimilda ef sú leið nær þessum markmiðum.

 

Þegar kemur að bönkunum þá erum við í einstökum færum til að endurskoða kerfið í ljósi þess að ríkið á nú tvo banka. Það þarf að fara fram umræða um bankakerfið og samfélagshlutverk banka. Og umfram allt á að nýta tækifærið og aðskilja þarf starfsemi bankanna í viðskipta- og fjárfestingastarfsemi annars vegar hins vegar í innlenda og erlenda starfsemi. Það er mikilvægt að stórfyrirtæki á borð við bankana starfi samkvæmt umhverfis- og samfélagssjónarmiðum. Þar höfum við líka einstakt tækifæri því það er ekki æskilegt að fjármálageirinn verði hér jafn risavaxinn og varð fyrir hrun. Þess vegna þarf að ráðast í kerfisbreytingar á fjármálakerfinu – aðskilja þessa þætti, losa um afmarkaða eignarhluti og meta tækifærið fyrir samfélagsbanka.

 

Og við þurfum einnig að nýta betur færin í ferðaþjónustunni sem skilar samfélaginu ómældum hagnaði og arði. Því miður hefur hin pólitíska umræða nánast eingöngu snúist um gjaldtöku af ferðamönnun, oft mjög óskynsamlega, en ekki snúist um sóknarfærin í að tryggja gæði, umhverfisvæna ferðaþjónustu þar sem lögð er áhersla á vernd náttúrunnar. Uppgangur ferðaþjónustunnar sýnir einmitt að náttúruvernd er ekki aðeins mikilvæg í sjálfri sér heldur getur hún skapað gríðarleg veraldleg verðmæti. Áratugum saman hlógu menn að sögunni um að Einar heitinn Benediktsson hefði selt útlendingum norðurljósin en núna gleðjumst við saman yfir norðurljósunum, heimamenn og ferðamenn sem hafa borgað stórfé fyrir að koma hingað til að sjá þau. Menn hlógu líka þegar hvalaskoðun var fyrst nefnd, núna hlæja hvalaskoðunarfyrirtæki á leið í bankann. Kannski hlær einhver líka fyrst að því sem ég segi nú: að miðhálendisþjóðgarður gæti líka skapað mikil verðmæti. Ekki vanmeta færin í slíkum garði.

 

Og vanmetum ekki tækifærin sem felast í því að gera Ísland kolefnishlutlaust og sýna þannig að lítil lönd geta tekið raunverulegt frumkvæði í baráttunni gegn loftslagsbreytingum og gert raunverulegar breytingar á lifnaðarháttum sínum.

 

Og nýtum tækifærið til að sýna að á Íslandi virki lýðræðið og virðum  þjóðaratkvæðagreiðsluna sem haldin var í október 2012 þar sem meirihluti landsmanna kaus með því að byggja á tillögum stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá. Ljúkum því ferli þannig að sómi sé að.

 

Vinstrigræn eiga skýrt erindi í þessum kosningum. Við göngum sameinuð og bjartsýn til þeirra með skýr skilaboð um traust og ábyrgð, um heilbrigt samfélag

 

Um allt land dæmi

 

Þessar kosningar eru mikilvægt tækifæri. Mikilvægt tækifæri fyrir okkur öll Vinstrigræn og fyrir íslensku þjóðina. Það hefur komið á daginn að íslenska þjóðin er dauðþreytt á spillingu og sérhagsmunagæslu. Hún er líka dauðþreytt á orðagjálfri og blekkingum og hún er dauðþreytt á ójöfnuði og misskiptingu. Allt þetta þurfa stjórnmálamenn að skilja og horfast í augu við. Við bjóðum upp á heiðarlega stefnu um sanngjarna skiptingu þjóðarkökunnar. Okkar stefna er hvorki loðin né óljós. Fólk veit hvar það hefur okkur. Og nú getum við Vinstrigræn aðstoðað þjóðina í næstu beygju, í vinstribeygju.

 

Gegn sérhagsmunum. Gegn spillingu. Gegn ofríki og tuddaskap. Gegn blekkingum og orðagjálfri. Við viljum samvinnu við alla sem við getum átt samleið með. En umfram allt viljum við hafa þjóðina sjálfa með í ráðum um öll mál.  Sú ríkisstjórn sem nú situr hefur glatað trúnaði þjóðarinnar með sinni stefnu í þágu auðmagnsins gegn fólkinu í  landinu. Hún er ekki óvinsæl vegna þess að hún tók við erfiðu búi og hún er ekki óvinsæl vegna erfiðra ytri aðstæðna. Þvert á móti hefur henni tekist að verða óvinsæl í miðju góðæri, í ferðamannaævintýrinu mikla. Hún hefur stundum varla verið starfhæf vegna hneykslismála. Það dylst engum að hvað sem gerist núna 29. október, þá heldur þessi ríkisstjórn ekki áfram. Hún á sér enga framtíð.

 

Það þarf núna nýja ríkisstjórn. Ríkisstjórn þar sem Vinstrigræn eru leiðandi. Við erum tilbúin í slíka stjórn með skýrar málefnaáherslur og skýra framtíðarsýn. Ég sé fyrir mér ríkisstjórn sem hlustar á almenning, sem tekur tillit til sem flestra, sem er tilbúin til viðræðu við hvern sem er. Ríkisstjórn sem lítur ekki á stjórnarandstöðuna sem andstæðing heldur sem mikilvægt aðhald. Ríkisstjórn sem umfram allt er í sátt og samvinnu við fólkið í landinu og gerir ekki lítið úr því. Ríkisstjórn sem hlustar.

 

Ég get ekki lofað því að ríkisstjórn með þátttöku Vinstrigrænna munu bæta böl allra á einni nóttu eða finna strax lausnir á öllum þeim erfiðu málum sem blasa við núna eða öðrum sem munu skjóta upp kollinum. En ég get lofað því að fara í ríkisstjórn með sanngirni og velvilja að leiðarljósa og með skýrar málefnaáherslur sem fólk þekkir og sem fólk veit að við ætlum að vinna að. Það er eina kosningaloforðið sem við getum gefið.

 

Við viljum að kjósendur treysti Vinstrigrænum en fyrst og fremst viljum við verðskulda traust. Og þetta er okkar markmið næsta mánuðinn. Að kynna íslensku þjóðinni áherslur okkar og sannfæra hana um að við meinum það sem við segjum og höfum eindreginn og einlægan vilja til að hrinda okkar hugmyndum í framkvæmd.

 

Núna eru margar kannanir á sveimi og frambjóðendur misánægðir með hverja og eina. Flestar hafa þær sýnt þokkalega stöðu Vinstrigrænna en hún þarf að batna aðeins til að við höfum áhrif og okkar áherslur verði í öndvegi næsta kjörtímabil. Ég er bjartsýn. Við höfum áður sýnt og sannað að við getum barið okkur í gegn. Við höfum skýrar áherslur og einvalalið sem bæði þorir, getur og vill. Ég er bjartsýn af því að ég hef talað við marga kjósendur seinustu daga, ég er bjartsýn af því að ég veit að margir Íslendingar vilja meiri vinstriáherslur, ég er bjartsýn af því að ég sé ykkur hérna í salnum og ég veit hvað við sem hópur getum ef viljinn er fyrir hendi.

 

Baráttan er framundan, við kvíðum engu og höfum allt að vinna.