Ræða forsætisráðherra á 100 ára afmæli fullveldis

Kæru landsmenn.

Á þessum degi fyrir 100 árum var íslenski þjóðfáninn dreginn fyrst að hún, hér á þessum stað. 1. desember 2018 var fallegur dagur í Reykjavík – það var kalt en bjart, fjölmenni var í bænum og hátíðleikinn alltumlykjandi. Fullveldið hafði ekki komið af sjálfu sér. Mörg voru þau sem áttu þennan draum um frjálst og fullvalda ríki; og mörg voru þau sem lögðu hönd á plóg til að ná þessu markmiði sem vafalaust hefur virst fjarlægt oft og tíðum. Saga Íslands á síðustu 100 árum hefur heldur ekki verið saga værðar og hvíldar. Saman höfum við, kynslóð fram af kynslóð, unnið sleitulaust til að koma Íslandi í hóp þeirra sjálfstæðu ríkja í heiminum þar sem velmegun er mest. Margir draumar hafa ræst og Ísland trónir nú á toppi ýmissa þeirra lista sem mæla hagsæld og velferð. Samfélagið hefur orðið fjölbreyttara, uppruni landsmanna er líka fjölbreyttari núna en árið 1918 og þeir eiga ólíka sögu og bakgrunn. Það er ekki nokkur vafi á því að fullveldið reyndist aflgjafi til að ná öllum þessum árangri. Við vildum ráða örlögum okkar sjálf og það reyndist farsælt þó að við höfum ekki liðið gegnum öldina átakalaust. Hitamál hafa reglulega skipt þjóðinni í ólík horn þar sem tekist hefur verið á um ólík sjónarmið. Ekki síst á vettvangi alþjóðlegra samskipta en líka í kjarabaráttu og jafnréttisbaráttu. Þegar áföll hafa dunið yfir hafa landsmenn sett þessi mál til hliðar og staðið saman sem einn. En skiptir það okkur máli að vera fullvalda í daglegu lífi okkar? Og hvaða merkingu hefur það í hugum okkar sem byggjum þessa eyju nú, hundrað árum síðar, í allt öðru samfélagi þar sem allt hefur breyst, samfélagið er orðið fjölbreyttara, lífsgæði hafa aukist og tækifærin allt önnur en fyrir einni öld? Dagur íslenskrar tungu var haldinn hátíðlegur fyrir tveimur vikum. Þá heimsótti ég Menntaskólann við Hamrahlíð og fékk tækifæri til að spjalla aðeins við ungu kynslóðina. Þau höfðu stórar hugmyndir um framtíðina, voru bjartsýn á að íslensk tunga myndi halda áfram að dafna og vera notuð á öllum sviðum samfélagsins, fannst gaman að velta fyrir sér framtíðarstörfum og námi og mikilvægt að geta haft eitthvað að segja um eigin örlög. Kannski snýst fullveldið einmitt um það; við náðum því fram að fá einhverju ráðið um eigin örlög og það skiptir okkur máli, jafnvel þó að við séum ekki öll sammála um hvert eigi að stefna og jafnvel þó að ekki séu allar ákvarðanir farsælar. Það er mikilvægt að við berum sjálf ábyrgð á eigin örlögum, bæði sem einstaklingar og sem samfélag. En hvaða örlög eigum við val um nú? Við sem byggjum íslenskt samfélag, við vitum það að okkur hefur verið trúað fyrir miklu. Við vitum að við eigum einstaka náttúru,
stærstu ósnortnu víðerni Evrópu, endurnýjanlega orkugjafa sem munu verða Íslandi dýrmætir til framtíðar, gjöful fiskimið og einstaka fegurð. Við vitum að við eigum tungumál sem geymir ótrúleg blæbrigði, óteljandi orð yfir birtu, myrkur, vind og sjó. Tungumál sem geymir hugmyndaheim Íslendinga allt frá landnámi þar sem menn skipta litum þegar tilfinningarnar bera þá ofurliði, stökkva hæð sína í fullum herklæðum og konur neita körlum um lokk úr hári sínu. Við eigum samfélag sem hefur þroskast og þróast. Á hundrað árum höfum við byggt upp sjúkrahús og leikskóla og rannsóknastofnanir og leikhús og bókasöfn. Við höfum byggt upp almannatryggingar og fest í sessi mikilvæg mannréttindi. Þjóðin er fjölmennari og fjölbreyttari. Við tölum hundrað tungumál. Við forritum, skerum upp sjúklinga, kennum börnum, veiðum fisk eða við gerum eitthvað allt annað. Við skrifum og syngjum og sköpum og leikum. Við erum hann og hún og hán. Við erum alls konar. Líklega hefði sagan orðið öðruvísi ef við hefðum ekki náð hinu sögulega samkomulagi um fullveldið við Dani. Samkomulagi sem um margt er sérstakt í sögunni þar sem það náðist á friðsamlegan hátt, með samningum, án blóðsúthellinga og án varanlegra særinda á báða bóga. Við eigum fullveldinu mikið að þakka en um leið leggur það ríkar skyldur á herðar okkar. Þær skyldur að standa vörð um þau einstöku náttúruverðmæti sem við eigum og nýta auðlindir okkar með sjálfbærum hætti. Að tryggja að við öll sem hér búum fáum notið samfélagslegra gæða og þátttöku í samfélaginu. Að skynsamlega sé haldið utan um stjórn efnahagsmála og verðmætasköpun þannig að við tryggjum lífsgæði fyrir okkur öll. Að við varðveitum og tölum íslensku og tryggjum að við notum hana ekki einungis um forna kappa og kvenskörunga heldur líka um það sem gerist í tölvuleikjum, fjármálamarkaði, veðurfræði og geimvísindum. Kæru landsmenn Hvernig sem við snúum teningnum þá höfum við tekið margar farsælar ákvarðanir á liðinni öld sem hafa gert það að verkum að á Íslandi er samfélagið gott, lífsgæði hér eru mikil og við stöndum vel í alþjóðlegum samanburði. Um leið vitum við öll að við getum gert betur og verkefninu um gott samfélag lýkur aldrei. Saga fullveldisins vekur hins vegar bjartsýni um að við munum halda áfram á réttri braut og byggja enn betra Ísland fyrir okkur öll.