,

Ræða Guðmundar Inga

Virðulegi forseti, kæru landsmenn,

Hvort sem við erum ung eða öldruð, hvar sem við búum og hversu ólík sem við innbyrðis kunnum að vera þá er eitt sem við eigum öll saman: Náttúru landsins. Þetta stórbrotna samspil elds og íss, auðna og óbyggðra víðerna – náttúruminjar sem eiga fáa sína líka á heimsvísu.

Náttúra Íslands hefur einstakt aðdráttarafl, hún er efnahagslega verðmæt og færir okkur gleði, gjaldeyristekjur og atvinnu – hún er gulleggið okkar. Og það er okkar að gæta hennar og viðhalda töfrunum.

Um leið og við gætum gulleggsins þurfum við að vita á hvaða vegferð við erum og setja markið hátt. Við eigum að vera leiðandi í umhverfismálum í heiminum. Við höfum þann valkost að sýna í verki hvað lítil og samrýmd þjóð getur gert. Höfum trú á okkur. Verðum fyrst ríkja til að ná að hætta að keyra grunnkerfin okkar áfram á mengandi og innfluttu eldsneyti. Hugsum út fyrir kassann til að taka á síhækkandi plastfjalli landsins og ósjálfbærri neyslu. Og verum öðrum fyrirmynd í náttúruvernd.

Kæru landsmenn.

Ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur hefur sett umhverfismál rækilega á oddinn. Loftslagsmálin eru og verða mikilvægasta viðfangsefni 21. aldarinnar. Mörg munum við úr skóla hvernig sumir kennarar gáfu frest á skilum ritgerða og verkefna, meðan aðrir gerðu það ekki. Í loftslagsmálunum þýðir ekki að fá fresti. Það eru engir frestir. Hér á landi liggur nú fyrir fyrsta útgáfa að aðgerðaáætlun í loftslagsmálum og mörg brýn verkefni eru á leið í útfærslu í samvinnu við samfélagið. Tími aðgerða er runninn upp.

Önnur mikilvæg vegferð er hafin. Stærsta framlag Íslands til náttúruverndar á heimsvísu felst í stofnun þjóðgarðs á miðhálendi Íslands. Þverpólitísk nefnd með þingmönnum allra flokka á Alþingi og fulltrúum Sambands íslenskra sveitarfélaga vinnur nú að undirbúningi að stofnun þjóðgarðsins. Ég leyfi mér að fulllyrða að aldrei hefur verið ráðist í jafn metnaðarfullt verkefni í náttúruvernd á Íslandi.

Mikil tækifæri felast í friðlýsingum fyrir efnahag og atvinnulíf landsbyggðanna. Í sáttmála ríkisstjórnarinnar er kveðið á um átak í friðlýsingum og í þessari viku fara fyrstu friðlýsingar svæða í verndarflokki rammaáætlunar frá 2013 í almenna kynningu. Fjármagn hefur verið tryggt til uppbyggingar aðstöðu fyrir ferðamenn á friðlýstum svæðum á næstu árum og ný stofnun fyrir þjóðgarða og vernduð svæði er í undirbúningi. Hún mun efla náttúruvernd til muna og auka aðkomu sveitarfélaga og félagasamtaka að stjórnun náttúruverndarsvæða.

Herra forseti.

Afstaða til umhverfismála á alþjóðavettvangi hefur gjörbreyst eins og Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun bera með sér. Umhverfismál eru ekki lengur álitin andstaða framfara, heldur undirstaða. Þau eru forsenda lífsgæða, friðar, blómlegs efnahagslífs, og grunnþarfa samfélagsins. Þetta kallar á nýja nálgun og samvinnu þvert á málaflokka og pólitískar línur, rétt eins og kynning sjö ráðherra á aðgerðaáætlun í loftslagsmálum bar með sér. Þetta er mikilvæg breyting í íslenskri pólitík sem gaman er að fá að taka þátt í.