Ræða Katrínar á landsfundi

Hér má lesa ræðuna sen Katrín Jakobsdóttir flutti við setningu landsfundar 2015. Upptökur frá fundinum verða gerðar aðgengilegar á vg.is á næstu dögum

Kæru félagar.

Þegar ég var í Menntaskólanum við Sund lásum við Sölku Völku, eftir Halldór Kiljan Laxness. Hluti af vinnunni var hópverkefni um túlkun á bókinni. Þar sátum við nokkur í hóp, og ræddum um hvað þessi bók væri. Talið barst að stórkapítalistanum Jóhanni Bogesen. Ég var ekki í stjórnmálaflokki þá en vissi þó sitthvað um kerfislægt arðrán auðvaldisins á alþýðunni og lagði fram þá túlkun að Jóhann Bogesen væri tákngervingur þessa arðráns. Ein besta vinkona mín horfði á mig stórum augum og sagði: Hvað ertu að kvarta yfir Jóhanni Bogesen? Gaf hann ekki Sölku Völku kjól?

Með hjálp bókmennta og annars í umhverfinu rennur upp fyrir manni að kerfið getur verið ranglátt þó að fólk sé ekki vont. Að við getum fundið til samúðar gagnvart öðrum einstaklingi en samt viðhaldið ranglátu kerfi. Og að það er mikilvægt að við nýtum þessar tilfinningar til að breyta kerfinu – ekki til að horfa fram hjá eða viðhalda ranglátu kerfi, friðþægja eigin samvisku og gefa Sölku Völku kjól.

Um þetta snýst pólitík meðal annars. Það er vinsælt um þessar mundir að segja að pólitík sé þreytandi og leiðinleg. Jú, stundum er hún það vissulega en þarf hún það endilega? Ég var spurð í gær: Hefurðu enn gaman af þessu? Og svarið; jú pólitík eins og allt annað getur verið leiðinleg og skemmtileg en það skiptir einfaldlega ekki mestu máli. Pólitískt starf skiptir máli því við viljum flest bæta samfélagið þannig að það verði réttlátt samfélag fyrir alla, gott samfélag fyrir alla. Og það hlýtur þegar öllu er á botninn hvolft að fela einnig í sér skemmtilegheit.

Við í Vinstrihreyfingunni – grænu framboði höfum nýtt tímann frá síðasta landsfundi. Við höfum í senn verið öflug stjórnarandstaða og farið yfir okkar stefnu til að undirbúa okkur fyrir framhaldið. Það eru blikur á lofti í heiminum og því miður virðast vandamálin vera hin sömu og fyrr. Stóru viðfangsefnin snúast meðal annars um misskiptingu auðs og hnattræna hlýnun sem bitnar fyrst og fremst á fátækum löndum og fátæku fólki alls staðar, stríðsátök sem tengjast fyrst og fremst um yfirráðum yfir auðmagni, ójöfnuð af ýmsum toga bæði milli heimshluta og innan ríkja, undirokun kvenna víða um heim og rasisma og útlendingaandúð. .

Allt tengist þetta og verður drifkrafturinn í pólitískri hugsun okkar, þetta gerir það að verkum að við brennum áfram fyrir því að berjast fyrir réttlátu samfélagi. Þetta eru einmitt málin sem þessi hreyfing snýst um: Félagslegt réttlæti, umhverfisvernd, kvenfrelsi og friðarstefnu Allt er þetta samofið í einn vefnað félagshyggju, vinstristefnu.

Kæru félagar.

Margt stefnir í rétta átt á Íslandi. Það hefur verið efnahagslegur uppgangur, ekki síst vegna vaxtar í ferðaþjónustu, og smám saman þokast landið upp alþjóðlega lista yfir auðlegð þjóða. Þrátt fyrir þetta er margt sem vekur áhyggjur.Þróun búferlaflutninga virðist aftur orðin neikvæð. Við lesum viðtöl við ungt fólk sem flytur úr landi. Af hverju? Ýmsar ástæður er settar fram en margar snúast um kjör og lífsgæði. Hér er langur vinnudagur, lyf og læknisþjónusta kostar sitt, skólar og frístundir kosta sitt, það er erfitt að kaupa sér húsnæði og leigumarkaðurinn er erfiður. Grunnþjónustan er ekki gjaldfrjáls, húsnæðismarkaðurinn er ómögulegur og framtíðarsýnin er óljós. Það er vissulega ekki ókeypis að reka gott samfélag en það er ekki það sem fólki svíður, það sem fólki svíður er ranglæti og ójöfnuður í samfélaginu. Ungt fólk horfir upp á að opinber störf eru ekki auglýst, bankar selja sjálfum sér risavaxnar eignir án þess að þær séu auglýstar, sumir fá að kaupa hlutabréf í Símanum á betra gengi en aðrir. Þetta er ekki samfélag jafnræðis. Þetta er ekki samfélag gagnsæis. Og í ofanálag er litið á kjarabaráttu láglaunastétta sem sérstakt tilræði við ríkjandi ástand sem stjórnvöld kjósa að kalla stöðugleika en er í raun ekkert annað en varðstaða um ríkjandi ástand, um að hinir efnameiri eigi að spila á öðrum leikvelli en við hin. Við tölum um norrænt vinnumarkaðslíkan en lítið sem ekkert um norræna samfélagsgerð. Það virðist ekki henta þeim sem með völdin fara.

Þrátt fyrir að bæði fyrri ríkisstjórn og sú sem nú situr hafi gert sitt til að stuðla hér að efnahagslegum bata þá hefur núverandi ríkisstjórn í flestum sínum gerðum að forgangsraðað í þágu hinna ríku.

Það gerði hún með því að afnema auðlegðarskatt, lækka skatta á alla nema hina tekjulægstu og svo taka forkólfar ríkisstjórnarinnar upp orðaleppa Repúblíkanaflokksins bandaríska um að hinir tekjulágu borgi nú bara alls engan skatt því að þeirra skattttekjur renni allar í útsvar sveitarfélaganna.

Það gerði ríkisstjórnin með því að afnema orkuskatt og ívilna þannig alþjóðlegum stóriðjufyrirtækjum, lækka veiðigjöldin á stórútgerðina sem síðan hefur notað hvert tækifæri til að borga eigendum sínum ríkulegan arð, arðinn af auðlindinni sem fólkið í landinu á.

Það gerði ríkisstjórnin með því að veikja með markvissum hætti alla tekjur ríkisins, tekjur okkar, og skera fremur niður hjá hinu opinbera til að skerða almannaþjónustu, okkar þjónustu.

Það gerir ríkisstjórnin með því að eiga í leynilegum fríverslunarumræðum á alþjóðavettvangi en leyniskjöl sem þaðan hafa lekið út benda til þess að færa eigi meira vald frá almenningi yfir til auðmagnsins, gera stórfyrirtæki jafnrétthá lýðræðislegum stofnunum í almannaþágu.

Það gerir ríkisstjórnin þegar hún fárast yfir of miklu eftirliti og talar fyrir því að endurtaka afregluvæðingu fyrirhrunsáranna í viðskiptalífinu sem hún kallar einföldun.

Kæru félagar, efnahagsbatinn sem ríkisstjórninni er svo tíðrætt um skilar sér ekki með réttlátum hætti til allra. Með markvissum aðgerðum má tryggja að vöxturinn nýtist fyrst og fremst hinum ríku og svo má afsaka sig með brauðmolakenningunni um að velgengnin muni líka skila sér til hinna fátæku á endanum – hvenær sem hann nú kemur. En sú brauðmolakenning er í öndunarvél. Raunar er þegar búið að úrskurða hana látna af OECD og fleiri íhaldsstofnunum á sviði efnahagsmála en ríkisstjórn Íslands tók á móti henni, líklega eina pólitíska flóttamanninum, sem hún vill hleypa inn í landið, og notfærir sér hana til að rökstyðja stefnu sína – sem byggist fyrst og fremst á trúarsetningu en minna á skynsemi eða reynslu.

Ef við viljum að ungt fólk kjósi búsetu á Íslandi þá skiptir máli að samfélagið breytist til batnaðar. Og það skiptir ekki aðeins máli fyrir unga fólkið. Það skiptir máli fyrir mig, fyrir okkur öll. Jafnaðarsamfélög þessa heims eru almennt þau samfélög þar sem hagsæld er mest og farsæld borgaranna mest. Þar ríkir stöðugleiki sem snýst um að tryggja öllum mannsæmandi kjör og mannsæmandi líf. Líka öryrkjum og öldruðum sem enn einu sinni sitja eftir og geta með engu móti náð endum saman með þá framfærslu sem þeim er skömmtuð. Líka láglaunafólki sem hefur barist fyrir sjálfsögðum hækkunum lágmarkslauna og verið sakað um aðför að stöðugleikanum.

Við Vinstri græn viljum samfélag þar sem við öll, ung og gömul, getum lifað með reisn. Til þess að það gerist þarf að dreifa byrðunum með réttlátum hætti og það þarf að jafna kjörin. Það þarf að tryggja að arðurinn af auðlindunum renni til fólksins í landinu, hvort sem um er að ræða fiskinn í sjónum eða raforkuna okkar.

Þetta eru engin geimvísindi. Þetta er félagshyggja og það hefur aldrei verið meiri þörf fyrir hana en einmitt nú, á 21. öldinni, þegar reynslan sýnir að kapítalískt hagkerfi leysir ekki öll vandamál mannlegs lífs. Verkefnið, erindi okkar, er að byggja mannúðlegt samfélag, réttlátt samfélag, jafnaðarsamfélag, félagshyggjusamfélag.

Við þurfum lýðræðissamfélag, samfélag þar sem almenningur getur treyst því að sömu leikreglur gildi fyrir alla en ekki aðeins suma, þar sem upplýsingar eru aðgengilegar og leikreglur virka. Þar sem lýðræði snýst ekki einungis um að kjósa á fjögurra ára fresti og þess á milli geti meirihlutinn farið sínu fram. Þar sem almenningur hefur sjálfur skýrar leiðir til að fá fram þjóðaratkvæðagreiðslu um tiltekin mál eins og gert er ráð fyrir í tillögum starfandi stjórnarskrárnefndar sem byggja á fyrri tillögum, og þarf ekki að leggja fram bænaskjal til forseta Íslands til að fá það fram, þar sem hægt er að treysta því að stjórnsýslan virki. Þar sem við sitjum öll við sama borð.

Gagnsæi er lykilatriði þegar stórar ákvarðanir eru teknar sem varða almenning. Snemmsumars kynntu stjórnvöld hugmyndir um hvaða aðgerðir þyrfti til að hér væri hægt að aflétta gjaldeyrishöftum. Sú leið sem fékk mestan þunga í kynningu stjórnvalda var stöðugleikaskattur svokallaður og rímaði það raunar vel við það sem við Vinstri-græn sögðum fyrir síðustu kosningar. Einnig var kynnt, nánast í framhjáhlaupi, önnur leið, það er stöðugleikaframlög. Það er sú leið sem stjórnvöld virðast veðja á eftir viðræður við kröfuhafa sem stjórnvöld vilja samt ekki viðurkenna að hafi átt sér stað af ótta við að einhver rifji upp öll þeirra stóru orð um samtöl síðustu ríkisstjórnar við erlenda kröfuhafa.

Hálfpínlegur feluleikur hefur staðið yfir um þessar viðræður þar sem öll önnur orð eru notuð, ábendingar, athugasemdir og fleira, til að breiða yfir að einhverjir hafa talað saman einhvers staðar. Við greiddum götu þessara lagafrumvarpa en höfum gert þá skýlausu kröfu frá upphafi að verði farin leið nauðasamninga þurfi að ríkja um þá gagnsæi því hér eru miklir hagsmunir undir, þ.e, að losun þessara eigna úr hagkerfinu hafi ekki neikvæð áhrif á kjör og hagi almennings.

Skattlagningarleiðin er gagnsæ, hún er hrein og bein. Nauðasamningaleiðin kann að þjóna sömu markmiðum og skattlagningarleiðin en hún er ekki gagnsæ – og þar hafa stjórnvöld það í hendi sér hvernig samið er. Og því hlótum við að spyrja: Eru þessi viðmið fyrir stöðugleikaframlögin of lág til að uppfylla þau markmið að losun gjaldeyrishafta raski ekki högum almennings? Er verið að gefa of mikinn afslátt? Hefði ekki verið hreinlegra og gagnsærra að fara skattlagningarleiðina í stað þess að vera með þetta möndl sem ekki má kalla viðræður?

Verði þetta niðurstaðan hins vegar getur það skapað tækifæri til að stokka upp spilin í bankakerfinu. Aðskilja starfsemi viðskiptabanka og fjárfestingabanka. Ákveða að ríkið eigi einn banka sem verði rekinn með öðrum hætti en sú bankastarfsemi sem við þekkjum hér á landi – með umhverfis- og samfélagssjónarmið að leiðarljósi eins og eru fordæmi fyrir annars staðar á Norðurlöndum. Hættan er að núverandi stjórnvöld muni ekki feta þá leið. Saga stjórnarflokkanna í einkavæðingu banka er harmleikur sem ég leyfi mér að segja að mjög fáir vilja endurtaka. Sporin hræða.

Kæru félagar.

Um daginn var einn sona minna að lesa bók eftir einn frumkvöðul íslenskra vinstrimanna, bókina Enn af Jóni Oddi og Jóni Bjarna eftir Guðrúnu Helgadóttur. Þar má finna söguna af því þegar söguhetjurnar heimsóttu leikfangabúðina ÆVINTÝRAHEIMUR BARNANNA þar sem letrað var á veggina GLEÐJIÐ BÖRNIN UM JÓLIN. Mamma Jóns Odds og Jóns Bjarna bað drengina að skoða sig um en þá lenda þeir í reiðum búðamanni:

Látiði allt vera, hrópaði hann. Hvað eruð þið að gera hér? Við erum bara að skoða, sagði Jón Bjarni og þrýsti hönd bróður síns fastar. Þið megið ekki vera einir hér, sagði kaupmaðurinn æstur. Ég vil enga krakka hér. Það er engin leið að hafa ykkur hér. Svo fer að búðarmaðurinn reynir að henda bræðrunum út og snýr upp á eyrað á Jóni Bjarna sem þrjóskast við og segir: Við förum ekki neitt. Þetta er búð fyrir börn.

Á endanum kemur mamma og bregst hin reiðasta við og segir búðamanninum til syndanna: Þér eruð dónalegur við börn eins og reyndar flestir aðrir. Þess vegna eru flest börn dónaleg. Þau læra það af fólki eins og yður. Þér skuluð hafa yðar ævintýraland í friði fyrir okkur. Það eina sem þér hugsið um er að græða á þessu rándýra drasli yðar. Strákarnir voru farnir að háskæla. Kaupmaðurinn baðaði út höndunum og mamma strunsaði út. Fólkið horfði á mömmu eins og hún væri karlinn í tunglinu. Eða eins og hún væri kommúnisti. Strákarnir höfðu svosem fengið að heyra það í skólanum að mamma þeirra væri kommúnisti. En strákunum fannst ótrúlegt að það gæti verið neitt ljótt, því að mamma var svo góð.

Núorðið eru fjölmiðlahetjur, ekki síst til hægri, farnir að tala mikið um hið svokallaða góða fólk. Þessu hugtaki virðist, meðal sumra, ætlað að gera lítið úr hugmyndum um félagslegan jöfnuð og réttlæti og þeim sem fyrir þeim vilja berjast. Þegar Íslendingar buðu sig unnvörpum fram til að taka á móti flóttafólki með alls kyns framlögum, íslenskukennslu, gistingu og svo mætti lengi telja mátti heyra umræðuna vakna um góða fólkið sem alltaf þættist vera siðferðilega betri en aðrir. En er þetta fólk að setja sig á háan hest eða er það einfaldlega að reyna taka þátt í mannúðlegu samfélagi, í mannúðlegum heimi? Á áttunda áratugnum mátti vera góður eins og sést á mömmu Jóns Odds og Jóns Bjarna. Mannúð er ekki meðvirkni eða upphafning á eigin gæsku. Mannúð snýst um að reyna að breyta rétt. Reyna að vera manneskja í hörðum heimi þar sem við sjáum drukknandi fólk á flótta og síðan er að kappkostað að segja okkur að ekkert sé hægt að gera.

Þegar við samþykkjum að verja tveimur milljörðum í að styðja við flóttamenn þá eigum við ekki að senda öðru fólki, öðrum fjölskyldum bréf og segja þeim að það sé ekki velkomið. Fjölskyldur sem hingað eru komnar og hafa fengið stuðning frá venjulegum Íslendingum. Sem vilja koma sér fyrir, vinna fyrir sér, verða hluti af samfélaginu. En þá fá þær bréf. Og þá erum við orðin eins og búðamaðurinn sem rak Jón Odd og Jón Bjarna út úr ævintýraheimi barnanna. Þá erum við ekki að breyta rétt.

Áskoranir dagsins eru stórar og miklar. Tugir milljóna manna streyma í okkar heimsálfu frá stríðshrjáðum svæðum. Ég ætla ekki að láta eins og úrlausnarefnið sé einfalt, það er það ekki. En reglurnar okkar eru mannanna verk. Og við verðum að hafa hugrekki til að breyta þessum reglum í samræmi við breyttan veruleika. Við erum aflögufær þjóð og við verðum að sýna það í verki. Ekki af því að við þykjumst vera góð heldur af því að það er rétt. Og við eigum ekki að láta óttann við hið ókunna stjórna okkur í þeim efnum. Og rétt eins og í Sölku Völku þá skiptir mestu að samfélagsgerðin sjálf byggist á réttlæti en ekki að mannúðin og góðmennskan séu einkamál einstaklinga.

Kæru félagar.

Flóttafólkið okkar sprettur ekki úr engu. Ástandið í miðausturlöndum hefur þróast með uggvænlegum hætti. Þar bera Vesturlönd ríka ábyrgð. Eða eigum við að rifja upp Afganistan 2001? Írak 2003? O.s.frv. o.s.frv? Hver hefur þróunin orðið í þessum ríkjum? Jú í stað lýðræðisins sem lofað var býr fólk við ógn og skelfingu endalausra stríðsátaka, innviðir þessara landa hafa verið hlutaðir upp, afhentir vestrænum alþjóðafyrirtækjum, réttindi fólks verið skert fremur en aukin og stöðugt stríðsástand ríkir. Það er ekki tími til að fara ítarlega yfir ástand alþjóðamála hér en við skulum ekki halda að staðan nú verði til í sögulegu tómi. Allt frá 19. öld hafa Vesturveldin reynt að tryggja stöðu sína og ítök á þessum slóðum. Aukin hernaðarhyggja og vígvæðing eru svo sannarlega ekki lausnin – lærdómur sögunnar ætti að vera sá að varast aukna vígvæðingu í stað þess að stofnanavæða hana í hernaðarbandalögum sem koma í veg fyrir allar umbætur.

Kæru félagar.

Við höfum í ár haldið upp á 100 ára afmæli kosningaréttar kvenna. Ef það er eitthvað sem við konur höfum verið rækilega minntar á á þessu afmælisári er það að sú barátta var ekki sársaukalaus fremur en önnur barátta fyrir mannréttindum. Íhaldsöflin sem lögðust gegn því að konur fengju kosningarétt, rétt sem flestum þykir sjálfsagður nú, vildu ekki gefa eftir sín forréttindi því um það snýst baráttan. Um leið og vald kvenna jókst dró úr forréttindum þeirra sem réðu. Og slík barátta getur aldrei verið sársaukalaus, getur aldrei orðið samkvæmt dagskrá ráðamanna á hverjum tíma. Það sama á við um þær byltingar sem hafa orðið í átt til kvenfrelsis núna á þessu afmælisári; brjóstabyltinguna og svokallaða Beauty tips-byltingu, þar sem konur stigu fram og sögðu sögur sínar. Þær eru ekki samkvæmt dagskrá ráðandi afla en þær skipta máli því að með þeim taka konur í eigin hendur sína eigin sögu. Ég hlustaði á Guðrúnu Jónsdóttur, okkar góða félaga, í þættinum „Höfundar eigin lífs“, þar sem hún lýsti einmitt mikilvægi þess að konur sem hefðu orðið fyrir ofbeldi fengju að segja sögu sína og hvernig það breytti allri umræðu um þennan málaflokk. Og baráttan um hver segir söguna – hún er eilíf og hana heyja ungar konur samtímans. Fyrir það skulum við vera þakklát..

Kæru félagar.

Fyrir réttri viku sat ég í troðfullum sal og hlustaði á François Hollande, forseta Frakklands, tala um loftslagsmál. Hann talaði af innlifun um þetta stærsta viðfangsefni mannkyns um þessar mundir, maður fann það að hann leggur allt undir til að loftslagsráðstefnan í París beri árangur. Hollande var hér í boði forseta Íslands og flutti þessa ræðu á ráðstefnunni Arctic Circle. Og hann var ómyrkur í máli. Það breytir engu þó að einhverjir geti grætt á loftslagsbreytingum, grætt á því að nýta auðlindir Norðurskautsins, grætt á nýjum siglingaleiðum. Við eigum ekki að græða á því sem veldur eymd annarra, sem skaðar náttúruna. Um það snýst raunveruleg mannúð.

Það misskildi enginn François Hollande í Hörpu. Samt talaði hann frönsku. Orð hans þurftu engra útskýringa við. Og ég fylltist meira að segja bjartsýni. Sú aðferðafræði sem hefur verið beitt hefur ekki gefist sem skyldi. Reynt hefur verið að beita lögmálum markaðarins til að stemma stigu við losun gróðurhúsalofttegunda, til dæmis með því að koma á viðskiptakerfi með losunarheimildir, og fara ýmsar hvataleiðir til að ná því markmiði að hlýnunin verði undir tveimur gráðum. En við þurfum að horfast í augu við að það þarf miklu róttækari aðgerðir og það þarf að hafa það leiðarljós sem Hollande setti fram: Það á enginn að hagnast á þessum skaða. Þetta verkefni snýst um mennskuna. Að tryggja mannúðlegan heim fyrir fólk um allan heim. Hvort sem það á heima hér á Íslandi eða á Tuvalu-eyjum. Þess vegna verður mannúðin að vera okkar leiðarljós í loftslagsbreytingum og við eigum að vera stolt af framlagi Íslendinga til þessa málaflokks, ekki með því að reyna að telja okkur sjálfum og öðrum trú um að hér sé allt best og horfast ekki í augu við þá stórfelldu aukningu á losun gróðurhúsalofttegunda sem hér hefur orðið fyrst og fremst af völdum stóriðju. Heldur með því að raunverulega gera betur og vera stolt af því.

Þar getum við Íslendingar sett okkur framsækin markmið. Við höfum raunverulega möguleika á því að verða kolefnishlutlaust land. Við getum sagt: Olíuvinnsla er ekki valkostur miðað við stöðuna og við ætlum að hverfa frá henni. Við getum nýtt okkar endurnýjanlegu orku til að ráðast í orkuskipti í samgöngum, að rafvæðast að mestu eða öllu leyti. Og við getum sagt: Við ætlum að draga úr losun frá stóriðju óháð kvótakerfum með losunarheimildir. Okkar markmið á ekki að snúast um að nota okkur endurnýjanlegu orku til að knýja fleiri iðjuver heldur einmitt um orkuskipti, breytingar sem geta skipt máli fyrir heiminn þó að um litla þjóð sé að ræða. Og þetta á ekki aðeins að vera verkefni einstaklinganna eins og stundum er gefið í skyn. Stjórnvöld og samfélagið bera þessa ábyrgð og geta ekki vikist undan henni! Hins vegar getum við öll lagt okkar af mörkum í þessu risastóra verkefni.

Því að verkefnið er knýjandi. Og það snýst um börn okkar og barnabörn, hvernig við ætlum að búa að þeim, hvaða möguleika þau munu hafa til að byggja sér gott samfélag. Ábyrgð okkar er rík gagnvart komandi kynslóðum og í desember munu verða teknar örlagaríkar ákvarðanir fyrir okkur sem nú lifum en fyrst og fremst fyrir þau sem á eftir koma. Ég vona kæru félagar að þar verði það mannúðin sem ráði för en ekki sérhagsmunir eða gróðavon.

Góðir félagar. Ef það er eitthvað sem ég hef sannfærst um undanfarin tvö og hálft ár, þá er það að þessi hreyfing á sér skýran kjarna. Við eigum hann saman og þá skiptir ekki öllu máli hver talar hverju sinni. Þessi kjarni er ástæðan fyrir því að við erum hér og að við ætlum að nýta þessa daga til að stilla saman stengi, skerpa á okkar stefnu og vinna saman að tryggja réttlátt samfélag fyrir okkur öll. Það er okkar kjarni, okkar brýna erindi.