Ræða Katrínar á flokksráðsfundi

Kæru félagar!

Verið velkomin á flokksráðsfund, þann fyrsta eftir þingkosningarnar í október. Við Vinstri-græn getum verið ánægð með okkar hlut. Tæp 16 prósent komu upp úr kössunum sem er annar besti árangur okkar frá upphafi. Ég þakka þennan árangur mikilli og öflugri vinnu allra okkar félaga um land allt, öflugu málefnastarfi í aðdraganda landsfundar 2015 þar sem samþykkt var endurnýjuð stefna í öllum helstu málaflokkum, öflugu starfi í kjölfarið þar sem mótaðar voru kosningaáherslur upp úr þeirri stefnu, öflugum frambjóðendum og sjálfboðaliðum sem lögðu á sig ómælda vinnu og gerðu þessa kosningabaráttu þá skemmtilegustu í lengri tíð. Og aldrei hef ég fundið fyrir eins miklu sjálfstrausti hjá félögum okkar – trausti sem byggðist á skýrri stefnu og þeirri vissu að við værum að sækja fylgi vegna þess að við stæðum fyrir skýra sýn – ekki vegna þess að við værum á móti einhverjum öðrum. Og ég vil nota tækifærið og þakka okkur öllum fyrir þennan árangur!

Í kjölfarið hófust stjórnarmyndunarviðræður. Fyrst hófust viðræður núverandi stjórnarflokka og síðan fengum við Vinstri-græn umboðið og reyndum ríkisstjórn fimm flokka, allra nema fyrrverandi ríkisstjórnarflokka. Þar náðum við ekki saman um grundvallaratriði; tekjur og útgjöld. Mest bar þar á milli okkar og Viðreisnar – og reyndum við að fá Framsóknarmenn inn í viðræðurnar eftir að Viðreisn upplýsti okkur um að þau hefðu ekki sannfæringu fyrir að halda áfram viðræðum. Það gekk hins vegar ekki upp, meðal annars vegna þess að bandalag Bjartrar framtíðar og Viðreisnar varð ekki sundur slitið. Áfram héldu viðræður. Við ræddum við Sjálfstæðismenn og kemur engum á óvart að þar var langt á milli málefnalega – aftur hvað varðar tekjur og útgjöld. Aftur var reynt við fimm flokka viðræður en segja má að niðurstaðan sem varð: Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar hafi legið í loftinu allan tímann.

Og það sem vakti hvað mesta athygli að þrátt fyrir allt tal um frjálslyndi og kerfisbreytingar sem voru tvö af lykilorðum kosningabaráttunnar slitnaði ekki upp úr viðræðum vegna þessa. Nei, það slitnaði upp úr vegna þess að við Vinstri-græn vildum ekki fara í ríkisstjórn nema við værum viss um að ná þar markverðum árangri í að byggja upp innviði þessa samfélags: Heilbrigðiskerfið, menntakerfið, kjör aldraðra og öryrkja, samgöngur og fjarskipti. Og að ná marktækum árangri í loftslagsmálum og náttúruvernd með uppbyggingu innviða til að ná fram orkuskiptum, landgræðslu og aukinni fræðslu um loftslagsmál,  uppbyggingu á ferðamannastöðum og aukinni landvörslu. Og við vorum tilbúin að afla þeirra tekna sem til þurfti. Það vildum við gera með því að skattleggja fjármagnið, t.d. með auðlegðarskatti og hærri fjármagnstekjuskatti, það vildum við gera með hærri veiðigjöldum á stórútgerðina og komugjöldum á ferðamenn, það vildum við gera með grænum sköttum, t.d. stórhækkuðu kolefnisgjaldi, sem um leið myndi vera mikilvægt framlag til að berjast gegn loftslagsbreytingum. Skýr sýn sem ekki náðist saman um til að mynda meirihluta. Skýr sýn þar sem skildi á milli vinstri og hægri.

 

Fyrir nokkrum árum var talað talsvert um að vinstri og hægri væru úrelt hugtök í pólitískri umræðu. Ýmist var það vegna þess að menn töldu að flestir væru orðnir sammála um meginmarkmið í pólitík, eða vegna þess að talið var að viðfangsefni samtíðarinnar kölluðu ekki á vinstri-hægri pólitík heldur annars konar stjórnmál, nútímaleg stjórnmál í stað gamaldags stjórnmála, framsýni í stað afturhalds. Og það má til sanns vegar færa að þróun vestrænna stjórnmála á undanförnum áratugum færði um margt sögulega hægri- og vinstriflokka nær hverja öðrum. Almenningur upplifði að munurinn lægi fyrst og fremst í því smávægilegum lagfæringum; sígildir hægriflokkar töluðu fyrir einkavæðingu og skattalækkunum, sígildir vinstriflokkar þorðu ekki annað en að tala líka fyrir skattalækkunum og einkavæðingu en töluðu fyrir betri reglum um markaðinn. Fáir þorðu að tala fyrir því að það væri eðlilegt að skattleggja fjármagnseigendur og þá sem mest ættu; fáir þorðu að tala fyrir því að hið opinbera hefði ákveðnu hlutverki að gegna til að tryggja lýðræðislega rekið velferðarkerfi og menntakerfi þar sem allir hefðu jafnan aðgang.

Upp úr þessu andrúmslofti sprettur það sem Tariq Ali, borgarstjóri Lundúna, kallar hina öfgakenndu miðju (e. the extreme centre) þar sem áherslan verður á form umfram inntak – þar sem minna fúsk verður aðalslagorð heilu stjórnmálaflokkanna – og almenningur hættir smám saman að greina nokkurn mun á vinstri og hægri. Stjórnmál þar sem niðurstaðan er aukaatriði en aðferðafræðin við að ná henni aðalatriði – þar sem ekki má efast um efnislega niðurstöðu ferlis sem metið er faglegt.

Þar með er ekki sagt að vinstri og hægri séu úrelt hugtök. Hins vegar hafði hin öfgakennda miðja þau áhrif að hefðbundnir sósíaldemókrataflokkar misstu tengslin við rætur sýnar og glötuðu sérstöðu sinni flokkar almannahagsmuna. Þetta hefur valdið þeim vandræðum um alla Evrópu á sama tíma og flokkar sem byggjast fyrst og fremst á lýðskrumi og dekri við öfgakennda þjóðernishyggju og hægristefnu hafa sprottið upp. Vegna þess að þeir greina sig frá miðjunni.

Vinstristefnan er svo sannarlega ekki úrelt lausn á viðfangsefnum samtímans. Því hver eru viðfangsefni samtímans? Í fyrsta lagi er það vaxandi ójöfnuður sem ógnar félagslegum stöðugleika í samfélögum um heim allan. Í öðru lagi eru það loftslagsbreytingar þar sem hlýnun jarðar á eftir að ógna vistkerfum um heim allan og á líklega eftir að bitna einna helst á fátækari þjóðum þessa heims. Og í þriðja lagi vil ég nefna hraða tækniþróun og enn meiri alþjóðavæðingu sem á eftir að hafa róttæk áhrif á vinnumarkaðinn, líklega með þeim afleiðingum að störf munu breytast og þeim mun fækka í tilteknum geirum, hugsanlega með afar slæmum áhrifum á réttindi verkafólks. Í fjórða og síðasta lagi vil ég nefna lýðræðið og þátttöku almennings í þeim ákvörðunum sem varða almannahag en víða um heim má greina dvínandi þátttöku almennings í kosningum og öðrum samfélagslegum verkefnum. Um leið má sjá hvernig peningaöflin nýta sér tæknina til að greina hegðun almennings og hafa áhrif á hegðun þeirra í kosningum. Öll þessi viðfangsefni kalla á að við endurskoðum skiptingu gæðanna, hvernig við öflum tekna og hvernig við byggjum upp innviði, að við tryggjum almannahagsmuni umfram sérhagsmuni. Allt þetta má kalla kjarna vinstristefnunnar.

Vaxandi ójöfnuð á Vesturlöndum má beinlínis rekja til stjórnarstefnu nýfrjálshyggjunnar þar sem skattar á hina ríkustu hafa verið lækkaðir og skattkerfið hefur verið flatt út þannig að hlutfallslega hefur skattbyrðin orðið þyngri á tekjulægri hópa en léttari á tekjuhærri og efnameiri hópa. Þá hafa  samfélagslegar stofnanir á ólíkum sviðum verið einkavæddar og þar með rennur aukinn hluti úr samfélagslegum sjóðum til einkaaðila. Sömu einkaaðilar hafa skammtað sér háar arðgreiðslur af samfélagslegum verkefnum. Nákvæmlega sömu þróun höfum við séð hér á landi á undanförnum misserum:

Við sáum það þegar auðlegðarskattur var látinn falla niður en á sama tíma var skattur á mat hækkaður en sú skattahækkun bitnaði fyrst og fremst á tekjulægri hópum. Veiðigjöld á stórútgerðina voru lækkuð og arðgreiðslur til eigenda hennar hækkuðu. Að vísu voru bankarnir skattlagðir – en þeim fjármunum var varið í svokallaða skuldaleiðréttingu sem gagnaðist fyrst og fremst hinum efnameiri og tekjuhærri – sem þannig fengu hlutdeild í hagnað bankanna með aðstoð hægristjórnarinnar. Á sama tíma var ráðist í aukinn einkarekstur. Gleymum ekki þegar rekstrarformi Iðnskólans í Hafnarfirði var breytt og hann settur inn í Tækniskólann, boðinn var út rekstur þriggja nýrra heilsugæslustöðva á höfuðborgarsvæðinu í stað þess að byggja upp hina opinberu heilsugæslu. Og enn er ekki vitað hvað nýr heilbrigðisráðherra mun gera hvað varðar umsókn Klíníkurinnar um að reka sjúkrahúsþjónustu. En í nýlegu viðtali segir hann að Klíníkin hafi verið að falast eftir hafi í raun og veru verið betra eða meira eftirlit – og það séu margar einkareknar legudeildir – en þær eru hins vegar reknar af sjálfeignarstofnunum en ekki hagnaðardrifnum einkafyrirtækjum.

Sama má segja um fjármálakerfið – nú þegar tækifærið er til að endurskipuleggja fjármálakerfið, aðskilja viðskiptabanka- og fjárfestingabankastarfsemi, er ætlunin að selja nánast allt íslenska bankakerfið. Það liggur engin framtíðarsýn fyrir um hvernig íslenska fjármálakerfið á að vera. Hvert á umfangið að vera, hve stór hluti á að vera í eigu ríkisins og á ríkið að eiga fjárfestingabankastarfsemi? Hvaða reglur eiga að gilda um eignarhald og samþjöppun?

Það er ekki pólitískur vilji til að nýta tækifærið og tryggja þannig hagsmuni almennings. Um þetta snýst vinstri og hægri. Að tryggja almannahagsmuni, skattleggja fjármagnið en ekki fólkið, tryggja samfélagslegan rekstur á grunnstofnunum samfélagsins, heilbrigðisstofnana, skóla, öldrunarstofnana, vegakerfisins og svo framvegis. Um það er vinstrið: Það snýst um almannahagsmuni.

Loftslagsbreytingar. Í baráttunni gegn loftslagsbreytingum þurfum við að hafa þá grundvallarsýn að leiðarljósi að við viljum berjast fyrir jöfnuði kynslóðanna. Við viljum tryggja að komandi kynslóðir eigi ávallt sæti við borðið þar sem ákvarðanir eru teknar og það verði tryggt að jörðinni sé skilað áfram í sambærilegu ástandi frá hverri kynslóð til þeirrar næstu. En hver er staðan í raun? Ef hagsmunir gróðafyrirtækja ráða för en ekki sjónarmið um jöfnuð kynslóðanna eru engar líkur til þess að við náum að snúa þessari þróun við. Því miður hefur hagkerfi kapítalismans snúist um að auka hagvöxt með aukinni neyslu sem vinnur beinlínis gegn yfirlýstum markmiðum um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Vistspor Íslendinga einna er slíkt að ef allir höguðu sér eins og Íslendingar þyrftum við sex jarðir. Og hugsum bara hvert og eitt um allt það dót sem flæðir yfir okkur alla daga – sem við losum okkur yfirleitt við eftir stutta notkun.

Hröð tækniþróun sem mörgum finnst minna meira á vísindaskáldskap en raunveruleikann er ekki lengur handan við hornið heldur komin til að vera. Það er ekki langt í því að drónar flytji pítsur og að bílarnir keyri sjálfir. Og nú liggur það í höndum bílaframleiðenda að ákvarða hvort sjálfkeyrandi bílar eigi að velja að vernda farþegann í bílnum – eða gangandi vegfarandann sem bíllinn gæti keyrt á? Sú ákvörðun mun ekki liggja hjá hverjum og einum einstaklinga heldur gervigreindinni sem mun stjórna bílnum. Hvaða áhrif mun gervigreindin hafa á siðferði? Og hvernig verður vinnumarkaður framtíðarinnar? Verða fleiri í hlutastörfum en fullu starfi? Og hvernig verður framfærslunni háttað?

Og óháð framtíðinni hljótum við líka að þurfa að ræða hvernig við getum tryggt aukna sátt á vinnumarkaði hér og nú?

Ég held að lykilatriði í því sé að tryggja það sem verkalýðshreyfingin kallar félagslegan stöðugleika; sátt um velferðarkerfið og skattkerfið þar sem rekið er öflugt opinbert heilbrigðiskerfi og allir geta sótt sér góða menntun. Í velferðinni eru raunveruleg verðmæti fyrir venjulegt fólk.

Sátt um réttlátt skattkerfi þar sem þeir ríku leggja meira af mörkum en hinir sem minna hafa á milli handanna.

Og sátt um að hið opinbera hefur skyldum að gegna við að tryggja mannsæmandi húsnæði á viðráðanlegu verði: Við verðum að fallast á að það eru mannréttindi að hafa þak yfir höfuðið. Miklu meira þarf að leggja af mörkum til að byggja upp leiguhúsnæði og það þarf að setja reglur um samspil skammtímaútleigu til ferðamanna og almennan húsnæðismarkað.

Ef við viljum ná sátt um vinnumarkaðinn hljótum við að þurfa sátt um velferðarkerfið.

Og við hljótum líka að þurfa að ná sátt um réttindi þeirra sem hér starfa. Meðal annars þess vegna hefur þingflokkur Vg lagt til á yfirstandandi þingi að keðjuábyrgð verði leidd í lög eins og víða hefur verið gert annars staðar – og við heyrum núna af frá Hollandi þar sem íslenskt fyrirtæki kemur því miður við sögu.

Meðal annars vegna þessara knýjandi spurninga setjum við nú á laggirnar sérstakan málefnahóp um vinnumarkaðsmál, verkalýðsmál og réttindi launafólks sem mun móta stefnu í þeim málaflokki fyrir komandi landsfund.

Og tækniþróunin hefur líka haft áhrif á lýðræðið. Falskar fréttir eru skyndilega orðnar algengari en raunverulegar fréttir. Í Bandaríkjunum er Svíþjóð orðin hættulegasta land í heimi og svo mætti áfram halda. Hvert og eitt okkar gæti orðið fórnarlamb slíkra falskra frétta. Og þeim er dreift með leifturhraða á samskiptamiðlum. Fjölmiðlar sem starfa í almannaþjónustu – sem hafa enga aðra hagsmuni en að veita almenningi réttar upplýsingar – hafa því aldrei verið jafn mikilvægir. Þrátt fyrir það búa slíkir fjölmiðlar um allan heim við erfið rekstrarskilyrði sem er mikið áhyggjuefni sem nauðsynlegt er að bregðast við. Að sama skapi eru fyrirtæki sem safna upplýsingum úr alls kyns persónuleikaprófum á samskiptamiðlum og þeirra þjónustu er hægt að kaupa ef maður á nóga peninga. Það gerði núverandi forseti Bandaríkjanna, keypti aðgang að slíkum gögnum af fyrirtækinu Cambridge Analytica og nýtti þau til að hafa áhrif á óákveðna kjósendur. Þegar við það bætist sú þróun sem varð með hinni öfgakenndu miðju þar sem hægri og vinstri runnu saman í eitt og almenningur hætti að upplifa nokkurn mun á ólíkum stjórnmálaflokkum er ljóst að lýðræðinu er vandi á höndum. Það er okkar hlutverk að tryggja þann rétt almennings að hafa raunveruleg áhrif á samfélagið og ákvarðanir stjórnmálanna. Og það verður gert með því að styrkja fjölmiðlun, setja skýrari reglur um persónuvernd á vettvangi samskiptamiðlanna, styrkja menntun og fræðslu um lýðræði á öllum skólastigum.