Ræða Katrínar Jakobsdóttur á eldhúsdegi

Katrín Jakobsdóttir

Virðulegi forseti, góðir landsmenn,

„Réttlæti er höfuðkostur á stofnunum samfélags, eins og sannleikurinn er á kenningum. Það er sama hversu fögur og nýtileg kenning er: ef hún er ósönn verður að breyta henni eða hafna. Eins er um stjórnarskrár og stofnanir. Það er sama hversu haganlega þeim er fyrir komið, og hversu gagnlegar þær eru: ef þær eru ranglátar verður að breyta þeim eða bylta.“

Þetta sagði hinn áhrifamikli stjórnmálaheimspekingur John Rawls í kenningu sinni um réttlæti. Við þingmenn veltum ef til vill ekki réttlæti og ranglæti fyrir okkur í daglegu tali hér á þinginu en þó efast ég ekki um að þeir sem halda út á veg stjórnmálanna geri það einmitt af því að þeir vilja veg réttlætisins sem mestan. En er það alltaf réttlæti sem ræður för hér á Alþingi? Er það ævinlega réttlæti sem ræður för þegar stofnanir samfélagsins eru að störfum? Er réttlæti ávallt haft að leiðarljósi þegar lög eru sett, fjármunum er úthlutað, ákvarðanir eru teknar?

Að þessu hljótum við að spyrja okkur þegar við tökum ákvarðanir ríkisstjórnarinnar þennan fyrsta vetur til skoðunar á eldhúsdegi og setjum í samhengi við þær pólitísku áskoranir sem við stöndum frammi fyrir á 21. öldinni.

Var það réttlætið sem réð för þegar ákveðið var að lækka veiðigjöld á útgerðina um átta og hálfan milljarð á ársgrundvelli? Var það réttlæti sem réð för þegar ákveðið var að lækka gjöld á áfengi og tóbak en hækka komugjöld á heilsugæslu? Var það réttlæti sem réð för þegar ákveðið var að hækka álögur á námsmenn í háskólum sem runnu beint til þess að niðurgreiða niðurskurð á háskólana? Er það réttlæti sem ræður för þegar ríkisstjórnin ákveður að framlengja ekki auðlegðarskatt sem lagður var á stóreignafólk þessa lands þegar reisa þurfti samfélagið við eftir efnahagshrun? Er það réttlæti sem ræður för þegar við tökum á móti hælisleitendum og innflytjendum og sendum suma til baka og stíum þar jafnvel í sundur fjölskyldum? Eru þetta réttlátar aðgerðir sem skila réttlátara samfélagi? Nei –ríkisstjórnin hefur ekki staðist réttlætisprófið.

En nú kynni einhver að svara því til að réttlæti sé aðeins ein breyta. Þegar komi til dæmis að því hvernig eigi að fjármagna samfélagið og um hvað það samfélag eigi að snúast séu margir aðrir þættir sem þurfi að taka tillit til, tæknileg úrlausnarefni sem lúti ekki endilega réttlætisrökum heldur skynsemis- eða hagkvæmnisrökum. En er það svo? Nei, þar er svar mitt aftur nei. Það er ekki tæknileg spurning hvernig við ákveðum að fjármagna samfélagið heldur siðferðileg og pólitísk. Hvernig leitað er til ólíkra hópa samfélagsins þegar kemur að fjármögnun þess og þá þarf að velta því upp hvort rétt sé að leita þá aftur til tekjulægri hópanna – sem ekki fengu neina skattalækkun hjá þessari ríkisstjórn – eða leggja fremur byrðar á breiðu bökin; stórútgerðir sem fá að nýta sameiginlegar auðlindir okkar og greiddu sér út tugmilljarða í arð til að halda upp á það þegar ríkisstjórnin lækkaði veiðigjöldin hið fyrra sinni, eða þau heimili í landinu sem eiga mestar eignirnar. Er það ekki fremur réttlátt að deila byrðunum þannig að við sem deilum kjörum hér á þessari eyju gerum það í raun; byggjum saman upp samfélag?

Og dæmin eru því miður fleiri en svo að ég geti rætt þau öll hér. Eða er það réttlát hugmyndafræði sem býr að baki skuldaniðurfærslu ríkisstjórnarinnar – leifunum af því heimsmetsloforði sem Framsóknarflokkurinn var kjörinn út á fyrir rúmu ári? Er það réttlátt að í svokallaðri „almennri aðgerð“ fyrir heimilin í landinu sé þriðjungur heimila; þ.e. fjölskyldur á leigumarkaði; fólkið sem aldrei hefur verið haft með þegar talað er um „heimilin“, undanskilinn? Er það réttlátt að sama stóreignafólk og horfir fram á að fá létt af sér auðlegðarskatti fái líka niðurfelld verðtryggð íbúðalán sem eykur auð þeirra enn frekar? Fram hefur komið að 230 íslenskar fjölskyldur sem eiga rétt á lækkun húsnæðislána eiga að meðaltali 177 milljónir í hreinni eign. Heildareignir þeirra umfram skuldir eru rúmir 44 milljarðar króna. Er það réttlátt að styrkja það sama fólk til að greiða fyrir húsnæði sitt á sama tíma og ungt fólk sér ekki fram á að geta nokkurn tíma komið sér eigin þaki yfir höfuðið? Nei, ég fæ ekki séð hvernig það eigi að vera réttlátt.

Góðir landsmenn

Réttlæti er mikilvægt í sjálfu sér en það er líka mikilvægt samfélagslegt markmið til að búa öllum sem best samfélag. Það er ranglátt ef aðgangur fólks að heilbrigðisþjónustu eða menntun ræðst af efnahag svo dæmi sé tekið. Þar af leiðir að jöfnuður, efnahagslegur og samfélagslegur, hlýtur að vera eitt einkenni réttláts samfélags.

Við Vinstri græn höfum lagt á það áherslu að forgangsraða fjármunum í að styrkja innviðina. Þar teljum við val ríkisstjórnarinnar – að dreifa umtalsverðum fjármunum í að fella niður skuldir óháð tekjum og eignastöðu fólks en hækka á sama tíma komugjöld á heilsugæslustöðvar og gjöld á stúdenta – ekki vera þann kost sem skilar mestum jöfnuði eða réttlátastri niðurstöðu. Við teljum líka skynsamlegra að styrkja innviðina, reisa nýjan Landspítala; styrkja menntakerfið, bæta kjör, hefja niðurgreiðslu skulda til framtíðar. Við teljum líka eðlilegt að styðja við þá sem verst fóru út úr hruninu hvað varðar verðtryggð íbúðalán. Það hefur verið sýnt fram á það að það er sá hópur sem tók íbúðalán á árunum 2005 til 2008, einkum þeir sem keyptu fyrstu eign á þessum tíma. Það væri eðlilegt að skoða slíkar aðgerðir með réttlætissjónarmið að leiðarljósi. Á sama tíma þarf að styðja betur við leigumarkaðinn en þar glittir nú í hugmyndir af hálfu stjórnvalda sem mér finnst jákvætt skref og fagna því að þar hefur að einhverju leyti verið tekið undir hugmyndir sem við Vinstri-græn höfum talað fyrir lengi.

Réttlátt samfélag er fyrir alla. Ef við viljum slíkt samfélag hlýtur það að vera kappsmál okkar allra að tryggja jöfnuð sem er ekki aðeins réttlætismál heldur líka einkenni skynsamlegs samfélags en um allan heim hafa menn áhyggjur af vaxandi ójöfnuði, hann er nú talinn helsta ógn við frið og stöðugleika í heiminum. Rannsóknir sýna að ójöfnuður er ógn við samfélagslega samheldni – og þau lönd þar sem mestur jöfnuður hefur ríkt í sögulegu samhengi eru þau sem hefur vegnað best á öðrum sviðum, efnahagslega og félagslega, þ.e. Norðurlönd.

Til að tryggja jöfnuð er hægt að beita ýmsum úrræðum. Þar er skattlagning á fjármagn mjög mikilvæg – til þess að hún beri árangur þarf að tryggja aukið gagnsæi. Þar verður æ ríkari krafa um aukna alþjóðlega samvinnu, til að tryggja að stjórnvöld hafi nauðsynlegt aðgengi að réttum upplýsingum þannig að unnt sé að skattleggja fjármagnið með réttlátum hætti. Þess vegna vakna hjá mér spurningar þegar kemur fram í fréttum að íslenskum stjórnvöldum standi til boða að kaupa í samstarfi við önnur ríki upplýsingar um fjármagn sem Íslendingar komu fyrir í skattaskjólum fyrir hrun. Hví hafa íslensk stjórnvöld ekki gripið það tækifæri – eins og gert hefur verið t.d. í Þýskalandi og fleiri ríkjum – er ekki þörf á slíkum upplýsingum ef við ætlum að tryggja réttláta skattbyrði en láta ekki auðmönnum það eftir að ákvarða sína eigin skattprósentu?

Menntun er líka gríðarlega mikilvæg til að tryggja jöfnuð og það er brýnt viðfangsefni að tryggja aðgengi allra til dæmis að framhalds- og háskólamenntun til þess að jafna tækifærin.

Og réttlátt samfélag snýst ekki aðeins um jöfnuð þeirra sem hér búa nú um stundir. Það snýst líka um jöfnuð kynslóðanna; að við búum þannig í haginn fyrir komandi kynslóðir að þær njóti sömu tækifæra og við sem hér erum nú. Því miður sést ekki enn á verkum þessarar ríkisstjórnar að hún skilji að umhverfismálin eru eitt stærsta viðfangsefni samtímans. Þar skiptir máli að Ísland taki ábyrga afstöðu og setji sér raunhæf markmið um hvernig eigi að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Ég vonast til að allir flokkar geti náð saman um að við breytum stjórnarskrá okkar á þann veg að við setjum þar inn meginreglur umhverfisréttar, að við tryggjum fjölbreytni lands og lífs og skilgreinum auðlindanýtingu þannig að hún miðist við hagsmuni komandi kynslóða.

Nú í vor ganga landsmenn enn og aftur til kosninga; að þessu sinni í sveitarstjórnum. Þar eru viðfangsefnin þau sömu í raun og hér á þinginu. Þar skiptir máli að auka jöfnuð og það er hægt að gera með því að létta gjöldum af fólki – til að mynda af grunnþjónustu við barnafjölskyldur sem er eitt af höfuðatriðum í málflutningi okkar Vinstri grænna fyrir þessar kosningar en þannig stuðlum við í senn að jöfnum rétti allra barna auk þess sem við bætum verulega hag barnafjölskyldna. Þar skiptir líka máli að sveitarfélögin taki hraustlega á umhverfismálum og setji sér í senn markmið til að draga úr loftslagsbreytingum og viðbragðsáætlanir um hvernig megi bregðast við þeim.

Góðir landsmenn

Í allri stjórnmálaumræðu er mikilvægt að réttlætissjónarmið séu höfð að leiðarljósi; að kjörnir fulltrúar geti tekið sem bestar og réttlátastar ákvarðanir í þágu allra landsmanna. Margir telja að nýir tímar kalli á ný pólitísk hugtök; orðin hægri og vinstri séu orðin merkingarlaus í hugum almennings sem sé þreyttur á svokölluðum hefðbundnum stjórnmálum. Miðað við áskoranir nýrrar aldar tel ég að réttlæti, jöfnuður og sjálfbærni hafi aldrei verið mikilvægari markmið; einmitt til að tryggja samfélag fyrir alla; og það tel ég vera hlutverk og skyldu okkar vinstrimanna í samtímanum. Í mínum huga er réttlæti ekki pólitísk klisja sem dó á síðustu öld. Réttlæti er eina leiðin til að lifa af á nýrri öld.