Ræða Katrínar Jakobsdóttur

Virðulegi forseti, kæru landsmenn!

Það reynir mjög á þanþol merkingarinnar að fylgjast með ríkisstjórn Íslands í leik og starfi. Það vill nefnilega brenna við að hæstvirtir ráðherrar segi eitt og geri annað. Nánast eins og búið hafi verið til nýtt tungumál þar sem allt merkir annað en menn eiga von á.

Þannig hefur hæstvirtur fjármálaráðherra nú kynnt fjárlagafrumvarp þar sem gerðar eru breytingar til að „einfalda“ skattkerfið. Gott og vel. Tvö virðisaukaskattsþrep verða… tvö virðisaukaskattsþrep. Ef ég hef reiknað þetta rétt er þetta fækkun um núll skattþrep. Eða felst einföldunin í að tólf sé einfaldari tala en sjö?

En það er fleira sem vekur furðu. Meðal ýmissa tíðinda fjárlagafrumvarpsins er hækkun á matarskatti. Hæstvirtur forsætisráðherra kallaði slíka hækkun „aðför að lágtekjufólki“ árið 2011. Núna leggur hæstvirtur fjármálaráðherra þetta til, væntanlega með stuðningi hæstvirts forsætisráðherra. Þannig að … nú er aðförin kannski ekki lengur aðför en kannski skýrist þetta meðan við fylgjumst með merku leikriti stjórnarflokkanna þar sem þeir togast á um áformin. Hver veit nema ástæða þess að virðisaukaskattsþrepið er 12% í glærukynningu ráðherrans en 11% í frumvarpinu sjálfu sé sú að það er búið ákveða málamiðlunina milli stjórnarflokkanna og semja leikritið sem á að leika fyrir forviða Íslendinga fram í nóvember? Ég bíð spennt.

Og fleiri þversagnir eru í frumvarpinu. Hæstvirtur menntamálaráðherra ferðast nú um landið og segir að það sé nauðsynlegt að fleiri geti lesið sér til gagns. Og ég er svo hjartanlega sammála honum um það. En samt styður hæstvirtur menntamálaráðherra þá aðgerð sem lögð er til í fjárlagafrumvarpinu að hækka skatt á bækur. Væntanlega af því að hann telur að tungumál sem aðeins rúmlega 300 þúsund manns hafa að móðurmáli þurfi engan stuðning. Eða eiga dýrari bækur að efla lestrarkunnáttu? Eða merkir þetta líka eitthvað annað en það gerir í venjulegri íslensku?

Og enn má telja. Hæstvirtur heilbrigðisráðherra er áhugamaður um lýðheilsu og forvarnir og telur það forgangsverkefni að sporna gegn offitu ef marka má ræður hans þegar hann tók við. Samt styður hann hærra matvælaverð með hækkun virðisaukaskatts þar sem fyrst og fremst er vegið að innlendri matvælaframleiðslu og styður um leið að sykurskattur falli niður. Eru lýðheilsumarkmið ráðherra þau að fólk fái sér bara gúmmíbangsa í staðinn fyrir grænmeti? Minnir þetta nokkuð á kökur í staðinn fyrir brauð?

Og hvernig fór með heimilin sem átti að verja en á núna að rukka meira fyrir matinn, fyrir heita vatnið, fyrir rafmagnið? Og bjóða ómarkvissa skuldaniðurfellingu í staðinn fyrir að efla vaxtabótakerfið? Er ríkisstjórnin kannski bara að ríkisstjórn sumra heimila?

Þegar maður hlustar á ráðherra ríkisstjórnarinnar líður manni dálítið eins og góða dátanum Svejk en þá merku bók las ég aftur nú á dögunum í tilefni þess að hundrað ár eru liðin frá upphafi Fyrri heimsstyrjaldar, þar sem átta milljónir manna féllu í átökum sem fæstir skildu raunverulega um hvað snerust og enginn hefur getað rökstutt síðan að hafi verið nauðsynleg.

Svejk var í rauninni aðeins venjulegur maður sem dróst inn í hildarleik sem honum kom ekkert við, varð hermaður í þágu annarra — og brást við því á sinn einstaka hátt. Hann var ýmist stimplaður hálfviti eða útsmoginn liðhlaupi en vissi sjálfur að hann var leiksoppur valdakerfis sem var sama um hann, hinn venjulega mann. Jaroslav Hasek bjó til þennan skondna mann sem með írónískri fjarlægð sallar niður hjartalaust og heimskulegt valdakerfið og síðan þá hafa lesendur samsamað sig honum og gera enn. Okkur líður nefnilega oft öllum eins og Svejk þegar við stöndum andspænis kerfi sem stundum virðist hafa þann eina tilgang að viðhalda sjálfu sér. Þá líður hinum venjulega manni iðulega eins og hálfvita eða utangarðsmanni þegar það er í raun valdakerfið sem er truflað en hann í góðu lagi.

Stundum virðist hinn venjulegi maður mega sín lítils en samt getur hann haft áhrif rétt eins og Góði dátinn Svejk er áhrifamikil bók, áhrifamikil vegna þess að venjulegu manneskjurnar eru þrátt fyrir allt margar og ekki allar tilbúnar til að gefa sig ríkjandi hugmyndum á vald og verða leiksoppar valdhafanna. Svejk breytti viðhorfum okkar til styrjalda og orsaka þeirra – vonandi nóg til að menn hugsi sig tvisvar um síðan.

Góðir landsmenn.

Það er ekki langt síðan Ísland var í miklum háska en sem betur fer tókst að koma ríkissjóði á réttan kjöl, það tókst án þess að ganga harðast fram gegn þeim verst settu í samfélaginu sem auðvitað urðu fyrir kjaraskerðingu eins og allir aðrir og voru þó síst öfundsverðir af sínum kjörum fyrir. Þessi kreppa reyndi mjög á lágtekjufólk, öryrkja, aldraða og fleiri hópa en það var reynt að draga úr skaðanum með breytingum á skattkerfinu og í gegnum velferðarkerfið og afleiðingin varð sú að Ísland, eitt fárra landa, kemur út úr kreppu þannig að jöfnuður hefur aukist umtalsvert. Þetta hefur verið staðfest af alþjóðastofnunum og þetta er ekki tilviljun heldur beintengt aðgerðum síðustu ríkisstjórnar. Sumum er illa við þann jöfnuð, nota orðið sem skammaryrði. Ég gleðst yfir því sem þó tókst að gera á þessum erfiðu tímum því jöfnuður er mikilvægur og afleiðingar ójöfnuðar geta verið skelfilegar og birtast meðal annars í auknum átökum, verri lýðheilsu, verri menntun og fleiru sem dregur úr kraftinn úr samfélaginu öllu.

En hvert stefnir í þessum efnum? Hver er sýn okkar stjórnmálamanna á íslenskt samfélag, ekki aðeins þennan vetur heldur næstu ár og áratugi? Í dag ræðum við ekki aðeins málefni dagsins heldur stefnuna til næstu aldar og hvaða viðmið þarf að setja til að byggja hér réttlátt samfélag þar sem hver og einn getur notið sín. Þar á Ísland mörg tækifæri en það er ekki sama hvernig þau verða nýtt.

Því miður tel ég breytingar ríkisstjórnarinnar á skattkerfinu dæmi um skammtímahugsun. Rétt eins og svokölluð skuldaleiðrétting sem hæstvirtur forsætisráðherra nefndi er dæmi um skammtímahugsun sem mun ekki hafa í för með sér langtímabata fyrir kjör almennings í landinu. Skammtímahugsun var allsráðandi á Íslandi fyrir hrun og kannski er það einkenni stjórnmála um heim allan að það er freistandi fyrir okkur öll að hugsa í kjörtímabilum en ekki í áratugum.

Viðfangsefni okkar nú kalla hins vegar á langtímahugsun. Um allan heim sjáum við fyrstu áhrif loftslagsbreytinga sem munu hafa veruleg áhrif á líf okkar allra. Við þær verður vitaskuld ekki glímt með skammtímalausnum eða kosningaloforðum. En ef hugsað er til næstu aldar, þá er lítið deilt um að það þarf að taka þessi mál föstum tökum. Áður en verstu hörmungarnar skella á. Ég hefði viljað heyra hæstvirtan forsætisráðherra ræða – eða í það minnsta nefna – loftslagsmálin hér í sinni ræðu og kynna okkur fyrir sýn sinni um hvernig við getum í anda sjálfbærni lagt okkar af mörkum, dregið úr losun og undirbúið okkur undir þær breytingar sem munu verða.

Góðir landsmenn

Það var stefna okkar Vinstrigrænna fyrir síðustu kosningar að mikilvægt væri að hefja á nýjan leik uppbyggingu innviða eftir kreppu undanfarinna ára. Við leggjum það til á þessu þingi að fulltrúar allra flokka komi saman og móti raunsæja stefnu um það hvernig við viljum byggja upp þessa innviði; þar á ég við heilbrigðisþjónustuna, félagslega kerfið, framhaldsskóla, háskóla, nýjan Landspítala, og hefjum þannig örugga og skynsamlega sókn á nýjan leik til að styrkja samfélagið, allt það sem við öll eigum saman.

Í nýju fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar eru áherslurnar aðrar. Miðað við langtímaáætlun ríkisstjórnarinnar í ríkisfjármálum er gert ráð fyrir að hlutfall samneyslunnar af vergri landsframleiðslu verði komið niður í 24,5% árið 2018 sem er fjarri því sem gerist annars staðar á Norðurlöndunum þar sem þetta hlutfall er nærri 30%. Þetta er ekki hægt að útskýra einungis með hagvexti fyrir utan að hækkandi hlutfall eldri borgara hlýtur að kalla á hærri útgjöld til velferðarkerfisins nema skorið sé niður í þjónustunni. Og einhver skýring hlýtur að vera á því að greiðsluþátttaka sjúklinga og námsmanna er meiri hér en annars staðar á Norðurlöndum. Við færumst því miður fjær norrænu velferðarsamfélagi í átt að samfélagi þar sem hver og einn hugsar um sig.

Í áætlunum ríkisstjórnarinnar er lítið svigrúm til að byggja upp velferðina og greiða niður himinháar skuldir ríkissjóðs. Tekjustofnar eru veiktir, sem birtist meðal annars í því að ríkisstjórnin fellir niður auðlegðarskatt með tíu milljarða tekjumissi fyrir samfélagið, lækkar veiðigjöldin enn meira á næsta ári eftir að hafa stórlækkað þau í fjárlögum ársins í ár. Til að greiða niður skuldir er ætlunin að selja ríkiseignir en þær er aðeins hægt að selja einu sinni hverja og duga því skammt. Og væntanlega verður dæmið þannig dregið upp – af því að svigrúmið er ekkert þegar tekjustofnarnir hafa verið veiktir- að ef mikilvæg fyrirtæki almennings verði ekki seld verði ekki hægt að byggja nýjan spítala. Til dæmis eina Landsvirkjun fyrir einn spítala. En góðir landsmenn, við höfum heyrt þetta áður. Við munum alveg að það átti að selja Símann til að byggja nýjan spítala. Og hvað gerðist? Síminn var seldur. Enginn nýr spítali. Og hefur símareikningurinn lækkað eða þjónustan batnað? Ég held ekki. Við látum vonandi ekki ginna okkur með sömu brellunni aftur, almenningur mun standa gegn sölu á Landsvirkjun og öðrum mikilvægum opinberum félögum.

Góðir landsmenn.

Á sama tíma og ríkisstjórnin lækkar skatta og gjöld á þá sem best standa stendur hún fyrir skattahækkunum á mat og menningu. Að vísu á að lækka skatta á sykur og vörugjöld á innfluttum matvælum. En er þetta ekki þveröfugt við skynsemina og rökhyggjuna sem hæstvirtum forsætisráðherra er svo tamt að taka sér í munn? Er ekki eðlilegra, úr því að við erum á annað borð að skattleggja matvæli, að skattleggja þau matvæli hærra sem hafa lítið sem ekkert næringargildi? Og er það skynsamlegt að lækka verð á sælgæti en fresta um leið uppbyggingu heilbrigðisþjónustunnar sem væntanlega er ætlað að fást við afleiðingarnar af þessu neyslumynstri í framtíðinni? Þetta er í senn óskynsamlegt og eykur ójöfnuð, það er stundum engu líkara en öllum skattabreytingum þessarar ríkisstjórnar sé ætlað að auka ójöfnuð. Og það er hættulegt.

Franski hagfræðingurinn Thomas Piketty hefur einmitt sýnt fram á að ein helsta skýringin á auknum ójöfnuði sé sú að hinir örfáu sem mestan auð eiga taki stærstan hluta hagvaxtar til sín. Okkar hlutverk er að tryggja að vöxturinn nýtist öllum, öllum þeim manneskjum sem hafa byggt upp þetta samfélag saman.

Viðfangsefnin eru stór, góðir landsmenn.
Við búum í heimi þar sem fleiri eru á flótta undan ófriði og átökum en hafa verið allt frá lokum síðari heimsstyrjaldar. Alþjóðastofnanir meta það svo að ójöfnuður; aukið bil milli ríkra og fátækra, sé ein helsta orsök átaka þannig að jöfnuður er ekki aðeins svarið við mörgum vandamálum innanlands heldur einnig á alþjóðavísu. Skattalækkanir sem þýða að ekki er hægt að byggja upp velferðarkerfið eru ekki kjarabót fyrir almenning heldur kjaraskerðing því þær standa í vegi fyrir því að allir geti sótt sér menntun og heilbrigðisþjónustu án tillits til efnahags. Í því felst engin kjarabót fyrir venjulegt fólk.

Góðir landsmenn.
Lengi má fela eigin stefnu með nýsköpun í orðanotkun en undir niðri glittir í gamla stefnu, þá dólgafrjálshyggju sem Sjálfstæðisflokkurinn heldur fast í þó að hún hafi beðið skipbrot fyrir örfáum árum. Ekki síst þess vegna er mikilvægt að almenningur í landinu veiti valdhöfum aðhald og við á vinstri væng stjórnmálanna megum ekki láta okkar eftir liggja. Baráttan snýst um heildarhagsmuni í stað sérhagsmuna og okkar erindi er að tryggja jöfnuð, sjálfbærni og uppbyggingu, fyrir okkur öll.