Ræða Kolbeins Óttarssonar Proppé: fátæktarrasisminn stórhætturlegur

Ræða Kolbeins í umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra, 13. september 2017.

Virðulegi forseti. Góðir Íslendingar. Þetta hefur mig alltaf langað til að segja, ég verð að játa það, en mig langar að eyða þeim tíma sem ég á hér eftir í að ræða aðeins um kannski ekki skemmtilegasta mál í heimi — og þó. Mig langar að ræða um ábyrgð. Hér hefur aðeins verið komið inn á ábyrgð en mig langar að tala um ábyrgð áfram og brýna okkur hér öll til dáða.

Ég tel að við lifum á dálítið hættulegum tímum. Við lifum á tímum þar sem staðleysa veður uppi. Fólk getur sagt hvaða tölulegu staðreyndir eða ekki staðreyndir sem eru kallaðar staðreyndir. Við lifum á tímum þar sem útlendingaandúð skýtur æ oftar upp kollinum og er farin að fléttast inn í stjórnmál. Ég held að það sé ábyrgð okkar allra sem hér stöndum, eða sitjum jafnvel eins og þið gerið þótt ég standi, að taka höndum saman í þessu máli.

Fátæktarrasismi hefur það verið kallað þegar hælisleitendum og innflytjendum annars vegar er stillt upp gegn þeim sem hafa það verst í samfélaginu, öldruðum, öryrkjum og fátækum. Þetta er stórhættuleg stefna og þróun sem við höfum séð víða um lönd. Við Íslendingar erum ekkert öðruvísi en annað fólk. Þetta mun bara vaxa hér.

En þetta er sérstaklega hættulegt og við eigum að taka þetta sérstaklega til okkar af því að ástæðan fyrir því að það er frjór jarðvegur fyrir þessari stefnu er sú að aldraðir, öryrkjar og fátækir búa ekki við nógu góð kjör. Og það er á ábyrgð okkar hérna inni að laga það. Ég get talað um það og þusað í pontu eins og ég vil, eins og ég hef nú gaman af að gera, en ég er ekki stjórnarliði, ég get ekki með atkvæði mínu haft áhrif á það hver verður samþykkt fjárlaga, hver verður samþykkt útgjalda í málaflokka. Ég ber ekki ábyrgð á því með mínu atkvæði, en það gerið þið, hvert og eitt ykkar, í stjórnarliðinu. Þið berið ábyrgð á orðum, athöfnum og frumvörpum ráðherranna sem lögð eru fram.

Ég er einfaldur maður, ég hef alltaf trúað á að maður eigi bara að standa við það sem maður segir. Maður á ekki að lofa einu fyrir kosningar og koma svo fram eftir kosningar og tala á annan hátt. Við í Vinstri grænum höfum talað fyrir sömu stefnu og við gerðum í kosningabaráttunni og ætli vinsælasta orð kosningabaráttunnar hafi ekki verið innviðauppbygging. Ég heyrði það svo oft að ég var hálfpartinn farinn að fá leiða á því enda er það pínulítið hlutlaust orð og getur þýtt hvað sem er — eins og hefur komið í ljós eftir kosningar. Öll þessi innviðauppbygging sem allir ætluðu sér að fara í fyrir kosningar var allt í einu horfin eftir kosningar.

Hér hefur verið farið yfir hagstjórnarmál, yfir það hvernig tekjugrunnar hafa verið veiktir, hvernig við nýtum ekki það svigrúm sem þó hefur myndast í ríkisfjármálum til að gera vel við þá sem verst standa heldur eru tekjugrunnar veiktir og ekki einu sinni verið að búa í haginn fyrir það þegar og ef í harðbakkann slær. Mig langar að segja að þetta eru ekki sanngjörn stjórnmál. Fólk á að geta treyst því sem við segjum fyrir kosningar, að við stöndum við það eftir kosningar.

Ég vona að hvert og eitt ykkar hér í stjórnarliðinu deili þeirri einföldu heimssýn minni að maður eigi að standa við það sem maður segir, að maður eigi að huga mest að þeim sem verst standa í samfélaginu. Það fáum við að sjá í atkvæðagreiðslum um fjárlög, það fáum við að sjá í atkvæðagreiðslum um fleiri frumvörp hér á næstunni. — Góðar stundir.