Ræða Rósu Bjarkar Brynjólfsdóttur

Ræða Rósu Bjarkar Brynjólfsdóttur í umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra á Alþingi 24. janúar 2017.

Virðulegi forseti, kæru landsmenn.

Helstu áskoranir okkar nú felast í tveimur risastórum verkefnum. Verkefni sem eru tilkomin af mannanna völdum og eru því á hendi mannanna sjálfra að leysa úr. Þetta eru hlýnun loftslags og vaxandi ójöfnuður í heiminum.

Það er ískyggilegt hvernig loftlagsbreytingar og ójöfnuður tengjast órjúfanlegum böndum. Mengandi frumiðnaður í reykspúandi verksmiðjum með heilsuspillandi úrgangi hefur oftast haldist þétt í hendur við láglaunastörf sem verkafólk hefur unnið við óviðunandi starfsaðstæður víða um heim. Allt of margir fjármagnseigendur hafa hagnast á mengandi verksmiðjuframleiðslu á kostnað okkar allra og náttúrunnar.

Við verðum öll að sameinast um að sporna við hlýnandi loftslagi og vaxandi ójöfnuði. En búum við ekki við hreinasta vatnið og bestu loftgæði sem um getur? Kannski, en við þurfum að leggja miklu meira á okkur en við höfum gert undanfarin ár til að sporna við loftslagsbreytingum. Við þurfum að taka Parísarsamkomulagið alvarlega og leggja af stað í raunverulegar aðgerðir sem virka. Enginn er eyland þegar kemur að hlýnun loftlags.

Og hvað með ójöfnuðinn, höfum við það ekki öll bara býsna gott hér með sterka stöðu efnahagsmála líkt og hæstvirtur forsætisráðherra benti á í sinni stefnuræðu?

Nei. Ójöfnuður er staðreynd og fer því miður vaxandi um allan heim. Um það vitnar glæný skýrsla  Oxfam-samtakanna sem sýnir að 8 karlmenn eiga meiri peningaleg auðæfi en helmingur alls mannkyns.

Virðulegi forseti,

Það er engin ástæða til að ætla að ójöfnuður fari ekki vaxandi á Íslandi og sterk teikn eru á lofti um að það hafi gerst undanfarin ár. Um það vitna tölur ríkisskattstjóra sem sýna að ríkasta eina prósentið á Íslandi þénar nálægt helmingi fjármagnstekna og tölur Hagstofunnar frá síðasta ári sýna að ríkasti fimmtungur landsmanna á 87 prósent af öllu eigin fé í landinu.

Og aðgerðir ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins  á borð við Leiðréttinguna juku líka ójöfnuðinn. Nú hefur komið í ljós að þessi risavaxna aðgerð; að gefa 72,2 milljarða úr ríkissjóði til tiltekins hluta þjóðarinnar, kom þeim mest til góða sem áttu mest og þénuðu mest. Þau 20 prósent Íslendinga sem hafa hæstar tekjur fengu samtals 22 milljarða króna úr ríkissjóði. Á sama tíma og fjármagn til heilbrigðismála, menntunar og annarra innviða hefur skort. Það er einfaldlega alröng forgangsröðun.

Virðulegi forseti, kæru landsmenn,

Hinir ríku halda áfram að verða miklu ríkari á Íslandi eins og annars staðar. Hér er um grafalvarlegan hlut að ræða. Það er engin samfélagslegur sáttmáli til um það að hinir ríku verði ríkari á meðan hin efnaminni sitji eftir og hafi minna á milli handanna. Það hefur ekkert með lýðræði að gera að fjármunum okkar allra sé skammtað til hinna efnameiri. Það hefur heldur  ekkert með lýðræði að gera að samfélag sem býr við gnægð náttúruauðlinda geti ekki skipt arðinum af þeim jafnt. Það er engin samfélagslegur sáttmáli til um að börn efnaminni foreldra búi við skort og hafi takmarkaðri aðgang að gæðum samfélagsins en börn efnameiri foreldra. Það er nefnilega engin sátt til um ójöfnuð. Ójöfnuður hefur víðtæk samfélagsleg áhrif og er ólíðandi út frá öllum siðfræðilegum viðmiðum um réttlátt samfélag.

 

Virðulegi forseti,

Forsætisráðherra er tíðrætt um jafnvægi í stefnuræðu sinni. Það er kannski ekki að undra að forsætisráðherra sækist eftir jafnvægi, þar sem síðustu ríkisstjórnir sem Sjálfstæðisflokkur hefur tekið þátt hafa ekki beint stuðlað að samfélagslegu, stjórnmálalegu eða efnahagslegu jafnvægi. Það var ekkert jafnvægi í að ákveða byggingu Kárahnjúkavirkjunar eða setja Ísland á lista viljugra þjóða vegna innrásarinnar í Írak. Það var ekkert jafnvægi í efnahagshruninu fyrir 8 og hálfu ári eða í Lekamálinu, Orku Energy málinu eða uppljóstrun um Panamaskjölin á síðasta kjörtímabili.

Ein af skilgreiningum orðsins jafnvægi sem forsætisráðherra vill leitast eftir, er að eitthvað sé jafnþungt og kyrrt. Rólegt og stillt.

En íslenskt samfélag á ekki að vera þungt og kyrrt. Íslenskt samfélag er ekki kyrrstöðusamfélag afturhalds og íhalds, heldur á að vera á stöðugri hreyfingu og í framþróun. Það gerum við meðal annars með því að leggja áherslu á menntun og opna faðminn fyrir þeim sem leita til okkar eftir nýjum tækifærum. Ég fagna því að forsætisráðherra ætlar sér að leggja áherslu á þetta tvennt.

Og það er sannarlega ósk okkar flestra að hér ríki ró og friður, en eigum við að vera róleg og stillt? Eigum við að vera róleg og stillt yfir því að arði auðlindanna sé ekki jafnt skipt á milli okkar allra? Eigum við að vera róleg og stillt yfir því að 4-6 þúsund íslensk börn búa við skort og fátækt? Eigum við að vera róleg og stillt yfir því að þurfa að bíða í marga mánuði eftir viðunandi heilbrigðisþjónustu? Eigum við að vera róleg og stillt yfir því að íslenskt stóreignafólk og stjórnmálamenn fari með peningana sína út úr íslensku hagkerfi, úr okkar sameiginlegu sjóðum og feli á aflandseyjum? Það er ekki hægt að segja okkur að hér eigi að vera jafnvægi, að við eigum að vera róleg og stillt á meðan ójöfnuður fer vaxandi í íslensku samfélagi. Það er ekkert jafnvægi fólgið í því.

 

Kæru landsmenn, framsýni hefur ekkert með vaxandi ójöfnuð að gera. Framsýni er að búa í haginn fyrir komandi kynslóðir, að minnka ójöfnuð, að draga með öllum ráðum úr loftlagsbreytingum. Að vinna saman að sátt í samfélaginu þar sem allir geti notið sín og haft sömu tækifæri óháð stétt eða stöðu. Sameinumst um það markmið.