Ræða Steingríms J. Sigfússonar: lýðveldismet í leti?

Ræða Steingríms í umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra, 13. september 2017.

Frú forseti. Góðir landsmenn. Nú hallar ágætu sumri og land og þjóð kemur að flestu leyti vel undan því, með einni augljósri undantekningu þó: Ríkisstjórnin mætir hvorki samstillt né í góðu skapi til leiks og hefur henni þó tekist að slá tvö Íslandsmet í sumar, ekki heimsmet að vísu, eins og ónefndur fyrrverandi forsætisráðherra var gjarnan að slá, en Íslandsmet. Hið fyrra er í óvinsældum. Aldrei hefur ríkisstjórn á fyrstu mánuðum ævi sinnar mælst með jafn lítið traust, verið jafn óvinsæl. Í sumar tókst ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar — og Bjartrar framtíðar, er það ekki? — meira að segja að slá út viðrinið Donald Trump í óvinsældum. Ríkisstjórn Íslands naut minna trausts en Donald Trump.

Hitt Íslandsmetið er í ódugnaði, verkleysi. Ríkisstjórnin hélt ekki fund í yfir 40 daga. Í heilar sex vikur var enginn fundur. Lýðveldismet í leti, er það? Vantaði þó ekki viðfangsefnin. Í allt vor og sumar hefur ríkisstjórnin t.d. velt á undan sér grafalvarlegum aðsteðjandi vanda sauðfjárbænda sem er auðvitað miklu meira en einangraður vandi sauðfjárbænda og afurðastöðva. Það er grafalvarlegt byggðavandamál, vandamál sveitarfélaga og heilla landshluta sem og félags- og kjaramál. Eða ætla stjórnvöld aðgerðalaust að horfa á eina tekjulægstu stétt landsins taka á sig tugprósentakjaraskerðingu í haust ofan í kjaraskerðinguna í fyrrahaust?

Þetta mál er stóralvarlegt. Og hvar var ekki bara landbúnaðarráðherra í sumar, hvar var sveitarstjórnarmálaráðherrann? Hvar var félagsmálaráðherrann? Hvar var byggðamálaráðherra og hvar var forsætisráðherra í þessu máli? Til hvers að ljósleiðaravæða dreifbýlið ef menn ætla á sama tíma að horfa á sveitirnar tæmast af öðrum ástæðum?

Ríkisstjórnin hefur upp á ekkert annað að bjóða en að reyna að lokka menn til þess að bregða búi — hætta, fara — í staðinn fyrir að reyna að semja við þá um að draga úr framleiðslu tímabundið gegn því að þeir búi áfram þannig að byggðaröskuninni sé afstýrt. Stefnuleysi og úrræðaleysi er í málefnum ferðaþjónustunnar og sjávarútvegsmálum þar sem einhver stórfurðuleg sáttanefnd er að störfum og formaður hennar er farinn að leita að sökudólgum til að afsaka það að ekkert komi út úr vinnunni svo að segja áður en starfið hefst. Og nú liggur á borðum okkar þingmanna fjárlagafrumvarp sem er nákvæmlega jafn ömurlegt og ríkisfjármálaáætlunin frá síðasta vori sem það byggir á, áframhaldandi hægri sveltistefna. Loforðin um stórfellda innspýtingu í innviði og velferðarmál eru endanlega gleymd og grafin með þessu fjárlagafrumvarpi.

Árið 2013 mættust tekjur og gjöld ríkisins í einum punkti í fyrsta sinn um árabil, sem sagt tókst með viðamiklum, erfiðum en árangursríkum aðgerðum að ná jöfnuði í ríkisfjármálunum strax á árinu 2013, á fimmta ári eftir hrun. Þá voru tekjur og gjöld ríkisins sem mættust þarna á sama stað 32% af vergri landsframleiðslu. Hægri stefnan sem náði völdunum hefur lækkað þessi hlutföll á hverju einasta ári síðan. Útgjöld ríkisins á árinu 2018 eiga að verða rétt liðlega 28,5%, 3,5 prósentustigum minni en þau voru 2013. Þetta eru 95 milljarðar kr. miðað við áætlun um landsframleiðslu ársins 2018.

Við gætum sem sagt haft t.d. 45 milljarða kr. í velferðarmálin og innviðafjárfestingar og rekið ríkissjóð með nærri 100 milljarða kr. afgangi ef ríkissjóður hefði bara haldið sjó, ekkert aukið hlutdeild sína. Það væri ábyrgt, það væri góð hagstjórn. En hægri stefnan er nákvæmlega sömu afdrifaríku hagstjórnarmistökin og voru fordæmd í þessu riti hér, skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis árið 2010, þar sem sama stefna á árunum fyrir hrun fékk falleinkunn.

Og nú er forsætisráðherra farinn að óttast hrun. Nema hvað? Því skyldi ekki formaður Sjálfstæðisflokksins óttast annað hrun? Hann fer fyrir flokki með reynslu. [Hlátur í þingsal.] Þeir þekkja afleiðingarnar af eigin stefnu. Ég spái því ekki að hér verði hrun í bráð og allra síst því að bankakerfið falli, en hætturnar sem þessi beiting ríkisfjármálanna ber með sér er sú sama. Og það er varað við því á bls. 95 í þessu plaggi, fjárlagafrumvarpinu sjálfu. Það er ótrúlegur samhljómur með því sem höfundar greinargerðar fjárlagafrumvarpsins að þessu leyti á árinu 2017 og höfundar rannsóknarskýrslu Alþingis komust að um sama hlut, orsakir og afleiðingar fyrra hrunsins og hætturnar sem sama stefna aftur ber með sér.

Þetta er svo sorglegt, þetta er svo ástæðulaust, þetta er svo vont fyrir samfélagið. Við erum að glata svo góðum árum og svo miklum tækifærum til að byggja almennilega upp á Íslandi í staðinn fyrir þessa hörmung. Og nú stendur sami fyrirvaralausi, andvaralausi góðærisvaðallinn upp úr þessum mönnum. Ja, það fór ekki vel að hlusta steinþegjandi á slíkt á árunum fyrir hrunið hið fyrra.

Við þurfum að losna við þessa ríkisstjórn. Hún er liðónýt og vonandi tekst það í vetur. — Góðar stundir.