Ræða: Steinunn Þóra Árnadóttir

Kæru landsmenn,

Það líður senn að lokum þessa þings og þar með lokum fyrsta þingvetrar ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur. Þá er rétt að líta yfir það sem áorkast hefur – en einnig til þeirra verkefna sem ekki er lokið og enn er verið að vinna að. Því þannig er það með samfélag – vinnan við það að móta það er alltaf í gangi og er aldrei lokið.

Gott samfélag er fyrir alla. Öll eigum við að geta notið okkar, bæði með því að leggja okkar af mörkum til samfélagsins og fá þann stuðning sem við þurfum á að halda.

Eitt fyrsta verk ríkisstjórnarinnar var að hækka frítekjumark ellilífeyrisþega vegna atvinnutekna, í takti við áherslur og kröfur eldri borgara. Það er þó vitað að það geta ekki allir í þeim hópi bætt kjör sín með aukinni atvinnuþátttöku. Því er í fullum gangi vinna sem miðar að úrbótum til að bæta kjör þeirra sem verst eru settir.

 

Virðulegi forseti,

Eftir tæpan mánuð tekur gildi ný gjaldskrá til að draga úr greiðsluþátttöku aldraðra og öryrkja vegna tannlæknaþjónustu. Eftir því hefur lengi verið beðið. Eins hefur heimilisuppbót örorkulífeyrisþega verið hækkuð en vitað er að lífeyrisþegar sem búa einir búa við hvað kröppust kjör. Hafið er samstarf um breytingar á uppbyggingu almannatryggingakerfisins og þegar búið að gera ráð fyrir að frá og með árinu 2019 verði 6 milljörðum árlega varið til viðbótar inn í kerfið til að bæta kjör örorkulífeyrisþega. Við heildarendurskoðun á tekjuskattskerfinu, sem ljúka skal á þessu ári, verður svo sérstaklega hugað að samspili skattkerfis og bótakerfa.

Ólíkir hópar eru í ólíkri stöðu og því eru ekki til neinar töfralausnir sem gagnast öllum. Þetta verðum við að hafa í huga þegar öryggisnetið sem velferðarkerfið okkar er, er tekið til endurskoðunar og bætt. Í þessu sambandi er ábyrgð atvinnulífsins einnig mikil. Ekki er nóg að byggja upp öflug mennta- og endurhæfingarkerfi ef vinnumarkaðurinn er ekki til í að horfast í augu við mismunandi færni, bakgrunn og aðstæður fólks. Fyrirtækin í landinu, almenningur og hið opinbera verða að taka höndum saman og breyta viðhorfum okkar sem samfélags til atvinnuþátttöku fólks með skerta starfsgetu.

 

Þegar þingveturinn er gerður upp er ekki hægt að sleppa því að nefna lögfestingu notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar sem einnar tegundar þjónustu við fatlað fólk, ásamt breytingum á lögum um félagsþjónustu. Við vinnslu þessara mála sýndi Alþingi sínar bestu hliðar þar sem fólk úr ólíkum flokkum lagði sig fram um að ná breiðri sátt með hag þeirra sem þjónustuna nýta að leiðarljósi.

 

 

Góðir tilheyrendur

Kjör þeirra sem verst standa hljóta ætíð að vera lykilviðfangsefni okkar sem störfum í stjórnmálum. En við verðum ekki síður að horfa til mála sem varða heimsbyggðina alla og framtíð afkomenda okkar – umhverfismálanna.

Framlög til umhverfismála hafa verið aukin um 35% frá því að ríkisstjórnin tók við. Fjármögnuð áætlun um uppbyggingu innviða á ferðamannastöðum – og þá einkum á friðlýstum svæðum – hefur verið kynnt og unnið er að stofnun Miðhálendisþjóðgarðs.

Við sem samfélag og mannkyn stöndum frammi fyrir áskorunum varðandi björgun hnignandi vistkerfa og sívaxandi plastmengunar. Stærsta viðfangsefnið er þó baráttan gegn hlýnun jarðar. Miklar vonir eru bundnar við nýtt Loftslagsráð sem hefur störf í þessum mánuði. Stóraukin landgræðsla og endurheimt votlendis kunna að vera mikilvægir þættir í þeirri baráttu, en þó er ljóst að stórfelld orkuskipti úr jarðefnaeldsneyti í endurnýjanlega orkugjafa er lykilatriði. Orkustefna fyrir Ísland til 20 -30 ára sem nú er unnið að, ásamt orkuskiptum i höfnum landsins eru þar gríðarlega mikilvæg.

Áhrif hnattrænnar hlýnunar raskar þegar lífi milljóna. Og eins og svo oft vill henda í kapítalísku samfélagi eru fórnarlömbin helst úr röðum þeirra fátæku, þeirra landslausu, kvenna og barna. Þetta er barátta sem við megum ekki tapa og ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur og við í Vinstri – grænum ætlum að leggja okkar af mörkum.

 

Góðar stundir!