Ræða Steinunnar Þóru

Virðulegi forseti – kæru landsmenn!

Ef antu þeim, sem heftur hlær,
og hristir sín bönd,
og vildi ekki krjúpa og kyssa
kúgarans hönd,
En hugum-stór að hinsta dómi
hlekkina ber;
Þá skal ég eins af öllu hjarta
unna með þér.

Svo segir í Skilmálunum, hinu kunna kvæði skáldsins Þorsteins Erlingssonar, en í þessum mánuði verða hundrað ár liðin frá dauða hans. Þorsteinn var fyrsta skáld jafnaðarstefnunnar á Íslandi. Hann var sósíalisti sem þoldi ekki félagslegt óréttlæti samtíðar sinnar, þar sem réttlaus alþýðan stritaði meðan þeir ríku auðguðust.

Um það leyti sem Þorsteinn lést, var íslenskt verkafólk að hefja skipulagða sókn sína til betri kjara. Árið 1914, meðan valdastéttir Evrópu, árásargjarnir stjórnmálaleiðtogar og gráðugir vopnaframleiðendur hrintu álfunni út í hræðilega heimsstyrjöld, stofnuðu reykvískar verkakonur sitt fyrsta stéttarfélag.

Þá líkt og nú var kröfum almennings um réttlæti og mannsæmandi kjör mætt með úrtölum. Svar auðvaldsins er ætíð það sama: að fátæku fólki gagnist best að bíða og vonast til þess að gróði fyrirtækjanna og fjármagnseigandanna leiði að lokum til þess að einhverjir brauðmolar hrjóti af borðum þeirra.

Sú hugmyndafræði var einmitt ríkjandi víðast hvar í Evrópu eftir efnahagshrunið 2008. Ísland fór hins vegar aðra leið en flestar Evrópuþjóðir við að vinna sig út úr efnahagskreppunni. Ríkisstjórn okkar Vinstri grænna og Samfylkingar beitti markvissum aðgerðum til að verja þá sem hafa hvað lægstar fjárhæðir sér til framfærslu. OECD hefur í þessu sambandi bent á, að á meðan ójöfnuðu jókst umtalsvert í flestum aðildarríkjum þess á árunum eftir hrun, gerðist hið gagnstæða á Íslandi – hér jókst jöfnuðurinn.

Á sama tíma tókst að snúa svo mjög við horfum í efnahagsmálum þjóðarinnar, að ef rétt er á spilunum haldið er bjart framundan á því sviði. Við erum nú í aðstöðu til að leggja grunn að enn betri framtíð, það er að segja – ef forgangsraðað er í þágu velferðar.

Hæstvirtur forsætisráðherra segist í stefnuræðu sinni vilja sjá samfélag þar sem fjölskyldur nái endum saman og öryrkjar og eldri borgarar geti lifað mannsæmandi lífi. Því markmiði náum við ekki með brauðmolakenningu auðvaldsins, þar sem því er trúað að niðurfelling auðlegðarskatts og lækkun gjalda á stöndugustu atvinnugreinar þjóðarinnar muni með einhverjum hætti gagnast þeim tekjulágu. Hækkun á matarskatti, sem hæstvirtur forsætisráðherra kallar því loðna nafni „endurskoðun á uppbyggingu skattkerfisins“ og aukin hlutdeild sjúklinga í lyfjakostnaði leggst svo þyngst á þá sem hafa lægstu tekjurnar.

Virðulegi forseti

Hæstvirtur forsætisráðherra vék að því í framhjáhlaupi að við lifum á tímum óvissu og átaka á alþjóðavettvangi. Það er síst orðum aukið. Sjaldan hefur verið jafn ófriðvænlegt í heiminum og átakasvæðin jafn mörg. Undir þessum styrjöldum róa hagsmunaaðilar, þar á meðal vopnaframleiðendur. Flest stærstu vopnaframleiðsluríki veraldar eru saman komin í einu bandalagi, Nató.

Nató hefur með sífellt árásargjarnari stefnu sinni á liðnum árum komið af stað eða kynt undir hverju stríðinu á fætur öðru. Hörmulegar afleiðingar þessa blasa við. Í Afganistan, í Lýbíu og í Írak.
Þrátt fyrir þetta telur hæstvirt ríkisstjórn ástæðu til að bæta enn frekar í stuðning sinn við Atlantshafsbandalagið og lesa hefur mátt í fjölmiðlum að til standi að stórauka framlag okkar til hernaðarbandalagsins.
Herlaus þjóð hefur aðrar og betri leiðir til að leggja sitt að mörkum á alþjóðavettvangi. Við gætum til dæmis horft til frænda okkar Svíar sem hafa opnað landamæri sín fyrir flóttafólki frá Sýrlandi.

Samkvæmt skýrslu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna er rúm 51 miljón manna á flótta vegna stríðsátaka – og hefur fjöldinn ekki verið svo mikill síðan í síðari heimsstyrjöldinni. Væri orku okkar og fjármunum ekki betur varið í að veita nokkrum hluta þessa hóps skjól hér á landi? Því miður virðist stefna Útlendingastofnunnar hinsvegar einkennast af skeytingarleysi gagnvart fólki í vonlausum aðstæðum.

Kæru landsmenn!

Auðvelt er að ímynda sér að ef Þorsteinn Erlingsson væri meðal okkar í dag, myndu ljóð hans fjalla um málstað flóttafólks og hælisleitenda. Sjálfur sendi hann nöturlegar kveðjur þeim ráðamönnum sem létu ójöfnuð viðgangast, stóðu með auðnum en ekki almenningi:

Því kóngar að síðustu komast í mát,
og keisarar náblæjum falda,
og guðirnir reka sinn brothætta bát
á blindsker í hafdjúpi alda.