Ræða Steinunnar

Hæstvirtur forseti, kæru landsmenn!

Mestöll þjóðin var í sigurvímu eftir jafntefli íslenska karla-knattspyrnuliðsins um liðna helgi. Fáir þó eins og hæstvirtur fjármálaráðherra, sem fór þegar í fjölmiðlum að gefa undir fótinn með byggingu risavaxins knattspyrnuvallar upp á 15-20 milljarðar króna.

Þessi höll, myndi mögulega – að sögn hæstvirts ráðherrans – ekki kosta skattgreiðendur neitt, ekki frekar en Hvalfjarðargöngin. Hana mætti nefnilega reisa með töfraformúlunni “eignatryggðri fjármögnun”. En eignatryggð fjármögnun mun vera það sem hét “einkaframkvæmd í opinberum rekstri” áður en það hugtak fékk óorð á sig.

En auðvitað komum við til með að borga fyrir slíka framkvæmd, ef af yrði – á sama hátt og við greiðum enn í hvert sinn sem við ökum undir Hvalfjörð. Einkaframkvæmdadekrið hefur þann eina raunverulega tilgang að gefa milliliðum kost á að hagnast.

Loftkastalar hæstvirts fjármálaráðherra voru mjög í stíl við stefnuræðu hæstvirts forsætisráðherra. Honum verður tíðrætt um bestu fjárlög allra tíma, mestu framlög til velferðarmála allra tíma og að allir verði ríkari, jafnari og hamingjusamari. Hins vegar er skautað fram hjá því á hversu veikum fótum áætlanirnar standi og hversu lítið megi út af bregða til að hagstjórnin fari úr böndunum. Fram hjá þessu víkur hæstvirtur forsætisráðherra sér, á sama tíma og hann sendir verkalýðshreyfingunni lítt duldar hótanir um breytingar á umgjörð kjarasamninga – þrátt fyrir þá staðreynd að hans eigin ríkisstjórn sé einhver mesti dragbítur á heilbrigða kjarasamningagerð í landinu með ítrekuðum lögum sínum á kjaradeilur.

En það er ekki bara þegar kemur að fótboltavöllum sem stjórnarflokkarnir hafa kokgleypt kenningar um ágæti einkarekstrar. Það er nefnilega raunveruleg ástæða til að óttast að ríkisstjórnin hyggi lengra inn á brautir einkarekstrar og verktöku í velferðarmálum, með tilheyrandi sveltistefnu gagnvart opinbera kerfinu. Það mun aðeins leiða til aukinnar mismunar og meiri kostnaðar fyrir samfélg og einstaklinga.

Kannanir staðfesta að meginþorri Íslendinga vill öflugt heilbrigðis- og velferðarkerfi sem er rekið á vegum samfélagsins og fjármagnað með almennum sköttum. Við í Vinstrihreyfingunni – grænu framboði leggjum áherslu á samábyrgð og jöfnuð þegar kemur að skipulagi þessa málaflokks – ekki markaðshyggju.

Virðulegi forseti.

Í ræðu sinni hér áðan sagði hæstvirtur forsætisráðherra að Ísland væri „svo langt frá heimsins vígaslóð“. Ekkert er þó fjær sanni. Ísland hefur á liðnum árum einmitt verið virkur þátttakandi í velflestum stríðum og íhlutunum vestrænna þjóða í Miðausturlöndum. Stundum sem aðildarþjóð í Nató, stundum sem fylgisveinn Bandaríkjastjórnar.

Flest það fólk sem nú hrekst til Evrópu er á flótta undan styrjöldum sem Nató-ríki ýmist stofnuðu til eða hafa kynt undir leynt og ljóst. Öllum má ljóst vera að stríðið í Sýrlandi er skilgetið afkvæmi innrásarinnar í Írak árið 2003. Um stríðin í Afganistan og Líbýu þarf ekki að fjölyrða.

Og jafnvel nú, þegar afleiðingarnar blasa við okkur, eiga hernaðarveldin þá einu lausn að bera fleiri sprek á eldinn. Síðast í sumar stóðu Nató-ríki saman að því að styðja Tyrki í að ganga á milli bols og höfuðs á Kúrdum og flækja þannig styrjöldina enn frekar. Óhjákvæmileg afleiðing þeirrar ákvörðunar verða enn meiri hörmungar. Enn meira ofbeldi. Enn fleira fólk á vergangi.
Virðulegi forseti,

Hæstsvirtur forsætisráðherra hefur sagt að huga þurfi að rótum flóttamannastraumsins. – Þar er ég honum sammála. Á sama tíma og við opnum faðm okkar fyrir fólki á flótta þá skulum við líka ráðast að rótunum. Hættum að kynda undir styrjöldum í fjarlægum löndum og undrast svo hörmungarnar sem af því hljótast.