Ræða Svandísar á eldhúsdegi

Góðir landsmenn.

Í apríl voru forystumenn ríkisstjórnarflokkanna staðnir að því að hafa átt peninga í skattaskjólum.

Þeir földu peningana sína fyrir kjósendum á Íslandi þegar þeir þurftu á atkvæðunum að halda en kjósendur þurftu traust.

Þeir voru meðal þeirra sem földu peningana sína fyrir skattkerfinu á Íslandi þannig að skattkerfið vissi ekki um peningana þeirra.

Þeir földu peningana sína fyrir velferðarkerfinu á Íslandi, líka þegar hrunið var og velferðarkerfið sárvantaði hvern einasta eyri.

Þeir földu peningana sína og það komst upp. Þeir gagnrýna nú aðallega þá sem flettu ofan af þeim, þau iðrast ekki. Þeir hafa ekki beðist afsökunar, heldur kenna þeim um sem afhjúpuðu spillinguna.

Þess vegna er eldhúsdagurinn núna í september. Vegna þess að þjóðinni ofbauð þegar spillingin vall fram – yfir samfélagið allt. Þess vegna á að fara að kjósa.

Vinstrihreyfingin – grænt framboð vill samfélag gegn spillingu, samfélag sem byggist á heiðarleika og jöfnuði. Samfélag sem hafnar misrétti. Eitt af okkar þingmálum í vetur er að taka á spillingunni, rannsaka skattaskjólin og finna raunverulegar leiðir til að loka fyrir skattaskjólin. Það verður að taka á þessum málum þannig að sjúkrahúsin á Íslandi, heilsugæslustöðvarnar, skólarnir, vegirnir, börnin, aldraðir, öryrkjar, fái að vita um þá peninga sem liggja í skattaskjólum svo hægt sé að skattleggja þá eins og allan almenning, svo það sé hægt að nota þessa peninga á Íslandi.

Því þessir peningar hafa orðið til á Íslandi í íslensku samfélagi, með viðskiptum á Íslandi, með því að kaupa og selja hvers kyns vörur og þjónustu. Þessir peningar eiga að skila sér til samfélagsins.

Herra forseti.

Í þessum ræðustól höfum við staðið þingmenn stjórnarandstöðunnar í þúsundum tilvika til að tala fyrir góðum málum, til að gera góð mál betri, einnig mál frá stjórnarflokkunum. Til að gera ótæk mál skárri og sum jafnvel góð. Því við gerum ekki mun á málum eftir því hver flutningsmaðurinn er heldur inntaki málanna sjálfra.

Við beittum okkur saman, þingmenn stjórnar og stjórnarandstöðu, fyrir því að setja ný útlendingalög. Við lukum saman lagasetningu um millidómsstig og um náttúruvernd. Þannig á alþingi að vinna og þannig getur alþingi unnið þegar stjórnarandstaðan er ábyrg.

En við höfum líka staðið hér og talað gegn málum – gegn vondum málum – við höfum markvisst tafið og jafnvel stöðvað mál stjórnarflokkanna. Þannig eru þingsköpin sem betur fer.

Allt þetta kjörtímabil hefur þingflokkur Vinstri grænna tekið þátt í að skapa samstöðu allra stjórnarandstöðuflokkanna. Það hefur mjög oft skilað árangri. Það sýnir að þessir flokkar geta unnið vel saman þegar mikið liggur við. Þessir flokkar eiga að stefna að því að vinna saman að afloknum kosningum og ná samstöðu um nýja stefnu og bætt vinnubrögð. Samstöðu um félagshyggju, heiðarleika og jöfnuð. Fyrir slíkri samstöðu munum við Vinstri græn beita okkur hér eftir sem hingað til.

Málefnaáherslur okkar Vinstri grænna í kosningabaráttunni snúast um aukinn jöfnuð og baráttu fyrir heiðarlegu samfélagi. Við munum leggja áherslu á kjör aldraðra og öryrkja, aukið fé til opinberrar heilbrigðisþjónustu og afnám sjúklingagjalda og að heilbrigðisþjónustan sé í félagslegri eigu. Við lítum á heilbrigðisþjónustu sem mannréttindi. Við erum á móti því að einkaaðilar græði á veikindum fólks. Við viljum sinna fólki en ekki græða á því. Við viljum ekki tvöfalt kerfi.

Við munum leggja aukna áherslu á menntamál og málefni ungs fólks. Í skólunum er framtíðin, börnin okkar og unga fólkið. Framhaldsskólakerfið hefur verið  vanrækt af þessari ríkisstjórn, verkmenntaskólarnir eru að stöðvast vegna peningaleysis, þriggja ára kerfi var sturtað yfir framhaldsskólana án samráðs. Nú á að breyta námslánakerfinu með styrkjum til allra, líka þeirra ríku, með því að hækka vexti á námslánum, líka til þeirra sem ekki eru ríkir. Allt skólakerfið á skilið betri stjórnvöld.

Við viljum kalla saman þjóðfund um atvinnustefnu, – þar sem verði kallað til samstöðu um sjávarútveginn, landbúnaðinn, ferðamennskuna, um nýja stefnu í sjálfbærri sátt við náttúru og auðlindir.

Við leggjum líka áherslu á að fjármunirnir af ferðamennskunni skili sér til sveitarfélaganna, til höfuðborgarsvæðisins, og í vegina sem eru orðnir hættulegir, – slysin fleiri en nokkru sinni fyrr.

Við viljum sækja fjármuni til þeirra sem eiga fjármuni, ríku útgerðanna og við munum beita okkur fyrir því að sækja peningana í Panama-skjólin og efna til víðtækra aðgerða gegn skattsvikum. Ríkisjóður og sveitarfélög tapa tugum milljarða á ári á skattsvikum, peningum sem dygðu til að reka bæði Háskóla Íslands og Háskólasjúkrahúsið.

Við viljum bæta stjórnarskrána með því að opna fyrir aukið vald fólksins og með ákvæði um að náttúruauðlindir verði þjóðareign. Við viljum ljúka ferlinu sem hófst á síðasta kjörtímabili með heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar.

Við munum beita okkur gegn skattasvikum, gegn Panamapólitíkinni. En við munum líka beita okkur gegn kynþáttahatri, andúð á útlendingum og hatursorðræðu. Við viljum bæta Alþingi þannig að málefnaleg vinna einkenni okkar mikilvægu störf í þágu alls almennings.

Þjóðin getur treyst okkur í umhverfismálum. Loftslagsmálin eru mikilvægustu umhverfismál samtímans. Stjórnmál framtíðarinnar munu snúast um afleiðingar ofhlýnunar jarðarinnar. Við munum sinna loftslagsmálum af alvöru og náttúruvernd í þágu komandi kynslóða og náttúrunnar sjálfrar. Miðhálendisþjóðgarður verður forgangsmál.

Kosningabaráttan er að hefjast. Vinstri græn leggja fram góða framboðslista. Í ljós hefur komið að konur leiða listana í þremur kjördæmum af fimm. Einmitt núna er verið að samþykkja framboðslistann í sjötta og síðasta kjördæminu. Einnig þar verður kona í forystu. Það er ekki af því að við séum betri en aðrir flokkar heldur vegna þess að við erum femínískur flokkur og leggjum áherslu á kynjasjónarmið í öllum málum. Breytingarnar þurfa að ná til okkar sjálfra. Stjórnmálaflokkarnir verða að byrja í eigin ranni eigi rödd þeirra að vera trúverðug í jafnréttismálum.

Góðir landsmenn.

Við erum að fara í kosningabaráttu. Vinstrihreyfingin – grænt framboð þarf að koma sterk út úr kosningunum. Þjóðin þarf á því að halda og þarf einmitt nú að geta valið félagshyggju, heiðarleika og jöfnuð. Þannig viljum við vera og vanda okkur við það.

Góðar stundir.