Ræða varaformanns á flokksráðsfundi

Minnihlutastjórn Vinstri grænna og Samfylkingar, sem mynduð var í ársbyrjun 2009, var varin vantrausti af framsóknarflokknum eins og allir muna. Framsóknarmenn höfðu þá nýlega valið nýjan formann eftir  nokkuð ör formannsskipti árin þar á undan. Nýi formaðurinn, sem þá sat utan þings og var ungur nýliði í stjórnmálum, virtist bæði kraftmikill og áhugasamur og tilbúinn verka. Verkefnin á þessum tíma voru ærin eins og flestir muna og auðvelt að finna kröftum ungra eldhuga farveg ef því var að skipta.

Formanninum unga og framsóknarflokknum stóð þá til boða bein og/eða óbein aðild að minnihlutastjórninni og þar með að leggjast á árarnar í þeim lífróðri sem róinn var fyrir íslenskt samfélag á þessum tíma.

En hann baðst undan því. Hann vildi ekki að framsóknarflokkurinn kæmi að þeim ákvörðunum sem þurfti að taka í kjölfar Hrunsins. Hann baðst svo sjálfur að lokum undan því að vera upplýstur um gang einstakra mála eins og hann gerði þó kröfu um í fyrstu. Hann virtist, ólíkt mörgum öðrum, gera sér þá grein fyrir  hversu erfiðleikarnir voru miklir og hvað lítið það yrði til vinsælda vaxið að takast á við þá. Því bakkaði hann út og leitaði skjóls.

Í stuttu máli baðst hann undan ábyrgð og hrökklaðist undan þegar honum stóð til boða að láta á sjálfan sig og framsóknarflokkinn reyna.

Það má fullyrða að fá dæmi eru ef nokkur um jafn óábyrga afstöðu stjórnmálamanns og í þessu tilfelli. Í þeirri stöðu sem Ísland og íslenskt samfélag var í ársbyrjun 2009 verður það að teljast meiriháttar pólitískur ræfilsskapur að skjóta sér undan ábyrgð með þeim hætti sem formaður framsóknarflokksins gerði í ársbyrjun 2009.

Nú situr framsóknarformaðurinn ungi í forsætisráðuneytinu sem leiðtogi í ríkisstjórn hægriflokkanna tveggja ef hægt er að tala um tvo flokka í þessu sambandi, svo líkir sem þeir eru að innræti.

Helstu verkefni og markmið ríkisstjórnar framsóknarflokksins eru að afmá öll þau spor sem vinstristjórnin setti á íslenskt samfélag kjörtímabilið eftir Hrun.

Það sjáum við í minnkandi vægi umhverfismála, breytingum á skattkerfinu, niðurskurði í velferðarmálum og almennu viðhorfi til samborgaranna, sérstaklega þó opinberra starfsmanna. Þar hafa framsóknarmenn gengið lengra en sjálfstæðismenn hafi látið sig dreyma um, jafnvel í sínum villtustu draumum. Hafi þó báðir flokkar jafna skömm fyrir.

Ríkisstjórn hægriflokkanna undir forystu framsóknarflokksins er mögulega versta ríkisstjórn sem setið hefur á Íslandi. Ríkisstjórnin og þinglið hennar hefur notfært sér erfiða fjárhagsstöðu ríkisins til að keyra harðlínustefnu í efnahagsmálum og velferðar- og menntamálum. Í skjóli erfiðleikanna hafa stjórnvöld skorið niður langt umfram þörf til samneyslunnar á sama tíma og tekjum frá efnameiri einstaklingum, auðmönnum og fyrirtækjum er hafnað. Samanlagt munu skattbreytingar ríkisstjórnarflokkanna leiða til tekjutaps ríkissjóðs upp á um 100 mia.kr. á kjórtímabilinu, hið minnsta.

Á sama tíma á að greiða úr ríkissjóði um tugi milljarða króna inn á verðtryggð útlán fjármálastofnana í gegnum sk. leiðréttingu. Þannig munu fjármálastofnanir fá allt sitt greitt upp í topp, vexti, dráttarvexti, vanskil og söfnunarreikinga úr ríkissjóði á meðan blóðugum niðurskurði er beitt í velferðar -og menntamálum. Fjármálastofnanir fá jafnvel í gegnum þessa stóru millifærslu greidd útlán sem þau höfðu áður fallist á að afskrifa, beint úr ríkissjóði. Enda mala þessir aðilar við fætur húsbænda sinna, saddir og sælir.

Áhrif efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar hafa heldur ekki látið á sér standa. Einkaneysla eykst langt umfram spár og verðmæti útflutnings stendur ekki undir innflutningi. Við vitum öll að það er ekki verst setti hópur samfélagsins sem eykur neyslu sína nú eða gengur á gjaldeyrisforða landsins. Það er annar hópur. Það er markhópur hægristjórnarinnar, hópurinn sem fær stærsta hluta millifærslunnar úr ríkissjóði og mest þó þeir sem tróna á toppi tekju- og eignalistans, þeir sem fá auðlegðarskattinn felldan niður upp á marga milljarða króna.

Á sama tíma á svo að hækka matarreikninginn hjá almenningi ásamt öðru sem fólk þarf til að geta átt eðlilegt líf.

Allar aðgerðir ríkisstjórnar framsóknar og sjálfstæðisflokks miða því fyrst og síðast að því að auka velsæld þeirra sem best standa.

Það eina sem almenningi er ætlað, fjölskyldunum í landinu, eru mótvægisaðgerðir, t.d. með því að lækka gjöld af sjónvörpum, ísskápum og Lexusum.

Reyndar er það merkilegt hvað mikið af aðgerðum ríkisstjórnarinnar kallar á miklar og stundum nær óskiljanlegar mótvægisaðgerðir. Það er eins og allt sem þau geri hafi svo neikvæð áhrif að það þurfi mótefni við því rétt eins og um einhvers konar sjálfsofnæmi sé að ræða.

Auðvitað á þessi ríkisstjórn að fara frá. Hún er rúin öllu trausti. Allar hennar aðgerðir eru dæmdar til að mistakast og fá háðulega og vonda útreið svo til allra umsagnaraðila, almennings og fjölmiðla – utan Morgunblaðsins að sjálfsögðu.

En hefur þá allt verið unnið fyrir gýg? Hefur þeim þá tekist að gera að engu það sem áður hafði áunnist? Auðvitað ekki.

Það góða er að nú hafa verið dregnar skýrari línur á milli vinstri og hægri í íslenskum stjórnmálum. Kjósendum hefur verið boðið upp á val um leiðir.

Það  vekur einnig athygli að allt það versta sem hægriflokkarnir hafa séð í verkum vinstristjórnarinnar er meira og minna verkefni og áherslur okkar Vinstri grænna.

Í því sambandi nægir að benda á umhverfismálin sem í dag snúast nær eingöngu um að afturkalla allt það sem við stóðum fyrir. Skattamálin, sem ég hef áður nefnt, og síðast en ekki síst menntamál sem eru komin í algjört uppnám.

Glórulausar fyrirætlanir ríkisstjórnarinnar um styttingu náms á framhaldsskólastigi og takmörkun á aðgengi að námi er mesta aðför sem gerð hefur verið að skólakerfinu á Íslandi. Í einu vetfangi  á að fækka nemendum á framhaldsskólastigi um fjórðung og takmarka aðgang annarra að námi. Þetta mun ekki gerast án pólitískra átaka enda um gríðarlega samfélagslega breytingu að ræða langt inn í framtíðina.

Ég vakti athygli á því í umræðum um frumvarp til laga um opinber fjármál sem unnið var á síðasta kjörtímabili og núverandi fjármálaráðherra hefur lagt fram á Alþingi að þar er áfram gert ráð fyrir því að innleiða kynjaða hagstjórn við fjárlagagerðina. Það er verkefni sem við lögðum upp með fyrir fimm árum og hefur vaxið með hverju árinu. Það er rétt að hrósa fjármálaráðherra sjálfstæðisflokksins fyrir að halda áfram með þetta verkefni, enda er árangurinn af því farinn að koma í ljós, þó margir hafi orðið til þess að hæðast að þessu í upphafi.

Enda verður nú að segjast eins og er að það er þó þrátt fyrir allt af og til hægt að halda uppi málefnalegri rökræðu við formann sjálfstæðiflokksins á meðan það virðist ekki vera nokkur lífsins vegur við aðra.

Þessi mikla sveifla á milli þess sem við í vinstristjórninni lögðum áherslu á og þess sem hægrimenn keyra nú áfram, á að gefa okkur vígstöðu til að takast á við hægri öflin um leiðir og sömuleiðis færi á að rökræða við kjósendur, almenning í landinu, um hvers konar samfélagsgerð við viljum skapa.

Hulda Þórsisdóttir, lektor í stjórnsýslufræðum, flutti athyglisvert erindi um vinstri og hægri stjórnmál á flokksráðsfundi okkar sl. sumar. Erindi hennar byggðist á íslenskri kosningarannsókn um afstöðu kjósenda til flokka og flokkanna til þeirra sjálfra, ef svo má segja.

Í stórum dráttum var niðurstaða þessarar rannsóknar sú að átakalínur vinstri og hægri í íslenskum stjórnmálum hverfast um umhverfismál, einkarekstur og efnahagslegan jöfnuð. Það var í því síðastnefnda, þ.e. efnahagslegum jöfnuði sem Vinstri græn skoruðu hæst allra flokka og sjálfstæðisflokkurinn naut minnst trausts. Þetta kom mörgum á óvart en má að mínu mati að stórum hluta rekja til árangurs sem náðist í efnahagsmálum á síðasta kjörtímabili þar sem við gegndum lykilhlutverki. Þrátt fyrir erfiðleika og lífskjaraskerðingu í kjölfar Hrunsins áttuðu flestir sig á því að aðgerðir okkar voru til þess ætlaðar að auka jöfnuð og færa þyngri byrðar á herðar þeirra sem gátu borið þær af hinum sem veikari voru.

Það vakti marga einnig til umhugsunar að samkvæmt þessari sömu rannsókn höfðu Vinstri græn tapað stöðu sinni í umhverfismálum yfir til Bjartrar framtíðar sem þó hefur ekki verið sérstaklega áberandi í þeim málaflokki á stuttum líftíma sínum heldur siglt lygnan sjó.

Ég nefni þetta tvennt hér úr erindi Huldu sem dæmi um að skilin á milli vinstri og hægri eru enn skýr þótt margir vilji halda öðru fram en einnig að trúverðugleiki flokka í einstökum málum getur sveiflast til eftir því hvernig á málum er haldið. Skiljanlega.

Ég er þeirrar skoðunar að við í Vinstri grænum verðum stöðugt að leita nýrra leiða við að hafa áhrif á samfélagið og jafnvel að breyta um áherslur varðandi afstöðu okkar til einstakra mála í þeim tilgangi að hafa áhrif. Þá er ég ekki endilega að tala um pólitíska afstöðu, enda höfum við haft góðan málstað fram að færa, heldur varðandi aðferðafræði við að vinna málum okkar fylgis.

Það er stundum sagt að við vinstrimenn séum prinsippfastari en fólk á hinum væng stjórnmálanna. Því lendum við oft í því að einstök afmörkuð mál, stór sem smá, yfirtaka önnur og skyggja á heildarmyndina. Það má vel vera eitthvað til í því. Við höfum tekist á um nokkur slík mál á síðustu árum og varpað með því skugga á heildarmyndina, stóru myndina um samfélagsgerðina sem við viljum öll á endanum ná fram. Við höfum einnig átt í erfiðleikum með að koma málum okkar á framfæri, tengja þau saman í eina órofa heild –þó færi til þess séu svo sannarlega fyrir hendi eins og fram kom hjá Huldu Þórisdóttur.

Þetta þurfum við að taka til skoðunar.

Á morgun verður haldið málþing um olíuleit og vinnslu í lögsögu Íslands. Vinstri græn tóku ríkan þátt í mótun leikreglna og samningagerðar um olíuleit á sk. Drekasvæði sem aðili að ríkisstjórn á síðasta kjörtímabili. Með því náðum við að setja mark okkar á þá undirbúningsvinnu sem annars hefði kannski ekki orðið. Með sama hætti var undir okkar forystu í ríkisstjórn gert samkomulag um byggingu iðjuvers við Húsavík þar sem horfið var frá stefnu fyrri stjórnvalda um byggingu risaálvers með óheyrilegum kostnaði fyrir ríkissjóð í formi ríkisframlaga og lágs orkuverðs.

Í báðum þessum tilfellum er í grunninn um að ræða mál sem hafa mætt talsverðri andstöðu innan flokksins á liðnum árum, annars vegar olíuleit og hins vegar bygging iðjuvera.

Hér verðum við, eins og í öllum öðrum málum, annars vegar að móta afstöfðu okkar og stefnu og hins vegar hvernig við getum haft sem mest áhrif á framgang mála og endanlega niðurstöðu.

Ágætu félagar.

Það eru næg verkefni fyrir okkur á pólitíska sviðinu nú sem endranær eins og ég hef nefnt. Það er því mikilvægt að við þéttum hópinn eins vel og við getum og verðum virk í starfi flokksins um land allt. Það er að öllu leyti skiljanlegt að almenningur sé fráhverfur stjórnmálum eins og fram hefur komið í kosningaþátttöku sem og í félagsstarfi allra flokka. Það má hins vegar ekki leiða til þess að stjórnmálin verði eingöngu vettvangur stjórnmálamanna, þingmanna eða sveitarstjórnarmanna. Það er því mikilvægt að við virkjum okkur sjálf og tökum aðra með okkur í því markmiði að efla flokksstarfið og þátttöku í pólitískri umræðu. Það verður eitt af okkar stærstu verkefnum næstu misserin. Stjórnmál mega ekki bara fyrir þá sem lifa og hrærast í þeim frá degi til dags heldur fyrst og fremst og miklu frekar eiga stjórnmálin að vera vettvangur okkar allra, hvaða störfum sem við gegnum og hvar sem við erum stödd á lífsleiðinni.