Ræðum oftar og víðar um olíuleit og olíuvinnslu

 

 

 

Menn greinir á um olíuleit og hugsanlega olíuvinnslu á Drekasvæðinu. Hildur Knútsdóttir og Heiðar Guðjónsson (HG) hafa skipst á skoðunum í Fréttablaðinu um málefnið. Nýlegur pistill Heiðars gaf mér tilefni til þessara andsvara enda hef ég ritað nokkrar greinar um málefnið og bókarkafla að auki (Veröld í vanda, Hið ísl. bókmenntafélag 2016). Ég reikna með að orðaskipti milli þeirra haldi eitthvað áfram. Tölusettu og skáletruðu málsgreinarnar eru Heiðars.

1) Lífskjör almennings hafa aldrei batnað jafn hratt og eftir að olíuöldin hófst eftir miðja 19. öld. Ísland er skýrasta dæmið í þeim efnum. Vegna samgöngubyltingar alfarið í krafti olíu hafa lífsskilyrði þar færst frá að vera ein lökustu í Evrópu í fremstu röð.

Samfara lífskjarabyltingu og fjölgun fólks í öllum löndum heims hafa orðið feiknabreytingar á helstu lífsskilyrðum okkar, raunar á öllu umhverfi fólks og á aðgengilegum auðlindum. Skógleysi og jarðvegseyðing á áður skógi vöxnum svæðum, yfirborðsmengun, mikill vatnsskortur í mörgum tugum landa og stækkun eyðimarka eru meðal einkenna þessa tímabils sem HG kallar olíuöld. Óheyrileg loftmengun (sót, lofttegundir, svifryk) einkennir margar stórborgir og höfin súrna. Rannsóknir benda til þess að helstu málmar og verðmæt jarðefni verði að mestu gengin til þurrðar á næstu áratugum og öldum, miðað við svipaða nýtingu og nú og án 80-100% endurnýtingar. Kol, olía og gas eru endanlegar auðlindir sem nú þegar eru ofnýttar. Margt fleira mætti upp telja.

Þó svo að Íslandi sé vel á vegi statt hvað sumt af þessum vandkvæðum varðar, horfum við á heiminn allan þegar metin er áframhaldandi olíuleit og olíuvinnsla á nýjum landsvæðum og á hafsbotni. Við megum ekki vera þröngsýn. Lífskjör almennings skiptast í mörg horn eftir heimshlutum. Olíuöldin hefur ekki fært milljörðum manna umtalsverð bætt lífskjör enda þótt aðrir milljarðar geti hrósað happi. Raunveruleikinn er sá að bil milli ríkra og fátæku milljarðanna breikka en minnka ekki. Farsæld felst héðan af ekki í aukinni notkun jarðefnaeldsneytis, heldur umhverfisbyltingu þar sem sú notkun er dregin saman eins hratt og unnt er. Að því eiga Íslendingar að stuðla með öllum ráðum.

2) Notkun Íslendinga á olíu mun aukast með tíðari flug- og skipaferðum. Þeir flutningar eru hagkvæmir, stytta núverandi leiðir og minnka þannig mengun á heildina litið.

Losun gróðurhúsalofttegunda (GHL) frá íslenskum flugfyrirtækjum eykst hratt á meðan nýir orkugjafar flugvéla fást ekki í nægum mæli. Óvíst er hvort losun og olíunotkun til sjós muni aukast. Nú þegar hefur þar náðst nokkur árangur með því að nota dísilolíu í stað svartolíu. Ef flotinn stækkar verulega eða sjóferðum fjölgar getur öðruvísi farið, en þó ekki endilega. Skipavélar sem brenna alkóhóli (metanóli) eru komnar fram og gætu Íslendingar framleitt mest allt slíkt eldsneyti til sinna þarfa, þegar fram í sækir. Framfarir í fluggeiranum taka lengri tíma en ýmsar tilraunir með íblöndun eldsneytis, sem minnka losun, eru þegar hafnar.

Almennt séð getur fjárhagsleg hagkvæmni flutninga helst batnað með minni notkun eldsneytis vegna betri véla og styttri flutningsleiða, eða með ódýrara eldsneyti. Umhverfisáhrif flutninga eru fyrst og fremst jákvæð ef losun gróðurhúsalofttegunda (GHL) og sótlosun minnkar. Aukin umsvif Íslendinga í flutningum í lofti og á sjó geta hvorki verið rök fyrir fjárhagslegri eða grænni hagkvæmni í orkumálum nema þeir uppfylli fyrrgreind skilyrði.

Vandséð er hvernig ábyrgð okkar á olíuvinnslu gæti komið fram sem áfangi í umhverfismálum, vilji menn horfa á nálægðina við Jan Mayen. Olíuvinnsla við Ísland hefði ekki í för með sér olíuhreinsun í landinu. Innri notkunin væri of lítil í samanburði við rekstrarkostnað og hagkvæmara að koma dýrri Jan Mayen olíu til vinnslu í stöðvar sem fyrir eru utan Íslands. Þannig myndu flutningar á jarðefnaeldsneyti til hreinsistöðva og þaðan svo hingað verða veruleiki dagsins. Nýjar siglinga- eða flugleiðir á norðurslóðum hafa í raun ekkert með olíuvinnslu við Ísland að gera.

3) Olía og gas hafa komið í stað brennslu á viði, kolum, taði og öðru og þannig dregið stórkostlega úr mengun, slysum og sjúkdómum.Hér er ólíkum uppsprettum GHL ruglað saman. Vissulega mengar kolabrennsla meira en brennsla gass og olíu og brennsla gass mengar minnar en brennsla olíu. Með mengun er þá ekki aðeins á við GHL heldur mörg önnur kemísk efni. Hitt eldsneytið sem HG nefnir, þ.e. viður og tað, eru gróður af yfirborði jarðar sem tímgast og vex, tekur upp tiltekið magn koltvísýrings (algengasta GHL) en gefur frá sér súrefni við ljóstillífun. Þegar gróður er brenndur sem eldiviður eða tað skilar hann frá sér koltvísýringnum sem er tekinn upp af öðrum plötnum á ný. Með öðrum orðum: Brennsla viðar eykur ekki GHL í andrúmsloftinu ef skóg- og gróðurlendi er hóflega nýtt og því viðhaldið eða það aukið. Þannig er timburbruni ekki sjálfgefið óumhverfisvænn sem þáttur í náttúrulegri hringrás kolefnis í gróðurríkinu. Öðru máli gegndi ef mest öllu skóglendi væri brennt á tiltölulega skömmum tíma. Nú er raunar meiru eytt af því í sumum löndum en nemur viðbótum í öðrum og viðarbruni getur haft neikvæð áhrif en þó líklega í litlum mæli.

Brennsla olíu og gass, með allri meðfylgjandi losun GHL, í stað eldiviðarnotkunar, bjargar litlu sem engu. Það gæti sjálfbær timburvinnsla hins vegar gert, ásamt stækkandi skóglendi, í bland við notkun eldiviðar. Finna mætti jafnvægi milli hvers kyns viðarnýtingar og nægilegar upptöku koltvísýrings, m.a. með því að byggja úr timbri í stað steinsteypu. Eitt tonn hennar losar tonn af koltvísýringi í öllu framleiðsluferlinu!

Tilvist grasbíta veldur ekki hlýnun jarðar vegna taðsins (eða brennslu þess) heldur getur lofthjúpur jarðar fyrst og fremst hlýnað við neyslu gróðurs. Mikil fjölgun dýra stuðlar að hlýrri lofthjúp vegna metans (öflug GHL) sem fylgir meltingu eftir gróðurátið og er skilað út í umhverfið. Um bruna taðs gilda í grunninn sömu rök og um bruna skógarviðar.

Olía er, ólíkt þessu tvennu, geymd og grafin lífræn afurð. Hún tekur, okkur mönnum hulin, ekki þátt í myndun GHL að neinu marki. Það gerist að sjálfsögðu ef hún er numin og henni brennt. GHL fylgja brunanum í miklu meira magni en sem nemur upptökugetu hafs og gróðurs. Aukningin veldur því að lofthjúpurinn hlýnar hraðar en gerst hefur í hundruð þúsundir ára. Hlýnun af mannavöldum hefur staðið allt of lengi. Hækkun koltvísýrings í lofti úr 325 ppm í 405 ppm á um 60 árum á þar stóran þátt en bæði aukin vatnsgufa og aðrar lofttegundir koma við sögu. Það gera líka gríðarlegar gróðurfarsbreytingar sem minnkað hafa bindigetu gróðurlendis.

Í sjálfu sér má telja tímabundið skref til bóta að brenna frekar olíu og gasi en kolum vegna þess að þau gefa frá sér meira af GHL en hinir orkugjafarnir. En sú röksemd að þar með þurfi að leita uppi meiri olíu en vitað er nú um stenst ekki. Ef á að takast að halda hlýnun loftslags innan þolanlegra marka, samfara notkun jarðefnaeldsneytis um hríð, má aðeins nýta um þriðjung þekktra birgða alls jarðefnaeldsneytis. Af olíu og gasi er nóg til í jörðu á þeim svæðum sem unnn eru um þessar mundir. Sama gildir um kolin. Yfirvöld sums staðar skilja sinn vitjunartíma og hafa byrjað á að færa orkuframleiðslu (sem veldur um 70% aukingar GHL) úr kolum yfir í olíu og gas. Að vísu ætla Bandaríkin að skerast úr leik og valda óbætanlegu tjóni á viðleitni stórþjóðanna, ef fer eins og stjórnvöld Trumps og kó stefna að. Og almennt, svo því sé ekki gleymt: Leirsteinsgas, fengið með splundrun eða “fracking” er í engu verjanleg afurð.

Erfitt er að gera sér grein fyrir hvað HG á við með slysum og sjúkdómum vegna viðar- og taðbrennslu, umfram það sem rekja má til vinnslu og nýtingar olíu, kola og gass. Losun lofttegunda og hættulegra málma og snefilefna við notkun jarðefnaeldsneytis í 100-200 ár hefur vafalítið skilið eftir sig alvarleg spor í flestum löndum, einkum þar sem umhverfisvernd hefur átt erfitt uppdráttar. Umfang þeirra spora þekkir enginn í raun, að því ég best veit, og samanburður við slys og sjúkdóma vegna brennslu gróðurefna ókleifur.

4) Parísarsáttmálinn segir ekki að láta beri olíu- og gaslindir óhreyfðar. Hann hvetur hins vegar til þess að mest mengandi kolefnin (lesist: kol) skuli ekki unnin heldur þau skaðminni (olía og gas).
ur﷽﷽﷽﷽﷽﷽﷽﷽tt jafnur ekki GHL

Hér sést undarlegur málflutningur. Parísarsáttmálinn fjallar hvorki um takmarkanir á vinnslu jarðefnaeldsneytis né hvaða jarðefni skuli unnin og hver ekki. Hann fjallar um skuldbindingar hvað losun GHL varðar. Í því geta falist
margvíslegar aðgerðir enda setur sáttmálinn í hendur ríkja hvernig þau treysta sér til að minnka losun um 40% fyrir árið 2030. Hluti þeirra aðgerða getur falist í að breyta um orkugjafa sem þó losa GHL, hluti í að minnka vinnslu eða kaup olíu, kola eða gass og enn annar hluti í að auka notkun grænna orkugjafa. Um Parísarsáttmálann má alveg eins segja að hann hvetji til samdráttar í allri losun frá jarðefnaeldsneyti, ekki fyrst og fremst til losunar frá olíu og gasi fremur en kolum. Hvað Ísland varðar er minni losun GHL á okkar ábyrgð eftir samþykkt sáttmálans, ekki sala á olíu og gasi til landa sem enn nota kol, elti maður rök HG.

Íslendingar verða að ná sínum markmiðum með því að takmarka og minnka losun frá helstu atvinnugreinum, hefta losun GHL úr illa förnu gróðurlendi og framræstu votlendi og auka þátt grænna orkugjafa. Samtímis eigum við að taka ábyrgð á að fjölga ekki olíu- og gaslindum af því að heimurinn hefur nú þegar aðgang að nægu magni jarðefnaeldsneytis. Sú staðhæfing sérfræðinga og alþjóðastofnana hvílir á því grundvallarmarkmiði að komast hjá 3-5 stiga hækkun meðalhitans með ógnvænlegum og feiknadýrum afleiðingum.

5) Olíu- og gasnotkun hefur tryggt afskekktum svæðum samgöngur, rafmagn og aðra innviði og stórbætt lífskjör almennings alls staðar.


Engum dettur í hug að mótmæla hluta þessarar staðhæfingar. Lífskjör hafa þó ekki batnað alls staðar á afskekktum svæðum. Bætt lífskjör alls staðar hafa borið vondan verðmiða sem mannkyn er að gera sér æ betur grein fyrir, m.a. með Parísarsamkomulaginu. Þessi liðna tíð er ekki meðmæli með því að auka aðgengi, vinnslu og nýtingu olíu og gass þegar minnka verður losun GHL og nægar birgðir í jörðu eru nú þegar þekktar. Við opnum afskekktum svæðum miklu fremur betri framtíð með gjörbreyttri og sjálfbærri orkuframleiðslu. Hlýnun loftslagsins veldur nefnilega sífellt alvarlegri vandræðum á afskekktum slóðum: Ágangi sjávar, jarðraski á sífrerasvæðum, þurrkum á hlýrri slóðum, jarðvegseyðingu, eyðingu vatnsgeyma (jökla, og stöðuvatna), tilflutningi mikilvægra lífvera, oft til óþurftar, og svo framvegis. Við verðum að horfa heildrænt á veröldina og meta áhrif olíu- og gasnotkunar í samhengi við umhverfisáhrifin sem hún veldur.

6) Auðveldara er að bregðast við breytingum á veðri en að reyna að stjórna því. Lífskjarabatinn sem olíuvinnsla hefur fært heiminum eykur líkurnar á uppgötvun nýrra orkugjafa.Mannkyn er ekki að reyna að stjórna veðurfari, heldur streitist við að minnka sinn þátt í hættulegum umhverfisbreytingum. Margir hafa reynt að reikna út kostnað við aðlögun að 2,3,4 og 5 stiga hækkun meðalhitans og öllu því sem fylgir. Niðurstöður benda til þess að ódýrara sé að breyta lífsháttum sem miða að sem minnstri hækkun hitastigsins, auka hvers kyns jöfnuð í heiminum og ná jafnvægi milli náttúrunytja og náttúrverndar  – frekar en að aðlagast sífellt erfiðari umhverfisröskunum eftir því sem meira hlýnar. Öll stóru tryggingarfyrirtæki heims hafa komist að þessari niðurstöðu.

Lífskjarabati er ekki forsenda nýjunga í orkuframleiðslu að neinu marki. Til þeirra er af nægu fé að taka í öllum stærstu eða efnuðustu ríkjum heims. Einfaldasta ráðið í bili er að minnka útgjöld til hermála og greiða með sparnaðaraurum fyrir nýsköpun. Aukin olíu- og gasvinnsla bætir engu við framþróun í orkumálum.

7) Stjórnmálaflokkur Hildar Knútsdóttur, VG, veitti Eykon, Petoro og CNOOC vinnslu- og leitarleyfi á Drekasvæðinu.

Rétt er það en flokkurinn hefur fallið frá stuðningi við leit og vinnslu á Drekasvæðinu, eftir umræður og samþykkt landsfundar. Eins og Norðmenn segja í sínum útivistarferðum: – Det er ingen skam å snu – enginn skömm er að því að snúa við. Fleiri flokkar hafa sömu afstöðu og VG.

8) Olíuvinnsla hér við land yki sjálfbærni Íslendinga til mikilla muna. Öll rök, siðferðileg, umhverfisleg og efnahagsleg mæla með að olía og gas verði unnið við Ísland.

Fráleitt er að nota hugtakið sjálfbærni um vinnslu og notkun olíu og jarðgass. Sú námuvinnsla getur aldrei verið sjálfbær miðað við eina af þremur undirstöðum hugtaksins: Náttúrunytjar sem skila auðlind jafn góðri eða betri til komandi kynslóða. Olíuvinnsla er ekki fremur sjálfbær í þessum skilningi hugtaksins en gröftur í malarnámi í Ingólfsfjalli. Þar er bara af tekið en engu við bætt. Olíubrennslan sjálf er líka fyllilega ósjálfbær aðgerð í umhverfistilliti.

Við verðum að stunda ósjálfbærar náttúrunytjar í undantekningartilvikum, svo sem við nám lausra jarðefna til mannvirkjagerðar. En köllum þá hegðun okkar réttum heitum. HG virðist rugla saman sjálfbærni aðgerða Íslendinga og því að vera sjálfum okkur nóg um eitthvað. HG telur eflaust að Íslendingar geti verið sjálfum sér nógir með olíu og gas, í stað innfluttra efna. Rétt eins og við sleppum því að flytja inn blávatn í stórum stíl. Já, íslensk olía gæti aflað okkur fjár og við gætum nýtt íslensk olíuefni sem búið væri að meðhöndla erlendis. En losun GHL frá olíuefnunum væri sú sama hvaðan svo sem olían er ættuð. Hvorki vinnsla á Drekasvæðinu né brennsla efnanna eykur sjálfbærni okkar umsvifa, þvert á móti. Segja mætti sem svo að við værum þá óháðari olíuveldum heimsins en nú gerist – en allur ferill orkugjafans væri engu að síður ósjálfbær á öllum stigum vegna neikvæðra umhverfisáhrifa. Við verðum að endingu að muna að sá sem vinnur og selur olíu ber hluta ábyrgðar á losun og annarri efnamengun sem verður við notkun vörunnar – eins þótt hann brenni henni ekki sjálfur.

Orðum HG um þrenns konar rök fyrir olíuvinnslu við Jan Mayen, sem hann flaggar undir lok síns máls (sjá lið 8 hér að framan), læt ég lesendum eftir að íhuga.

 

Ari Trausti Guðmundsson

Greinin birtist fyrst í Kjarnanum.