Rætt um tónlistarmenntun á Alþingi

Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna og fyrrverandi menntamálaráðherra, hóf í dag sérstaka umræðu um málefni tónlistarmenntunar.

Katrín hóf mál sitt á því að vísa til verkfalls tónlistarkennara og slæmrar fjárhagsstöðu margra tónlistarskóla. „Þegar kemur að stöðu skólanna þá er gjarnan vitnað til samkomulags sem gert var milli ríkis og sveitarfélaga vorið 2011 þar sem ríkið ákvað eftir langar viðræður að koma að eflingu tónlistarnáms með því að taka þátt í að styrkja tónlistarnám á framhaldsstigi.“ Benti Katrín á að með samkomulaginu hafi komið til 250 milljón króna aukaframlag ríkisins til tónlistarskólanna en að því hafi fylgt loforð um að lagt yrði fram nýtt frumvarp til laga um tónlistarmenntun í framhaldinu. „Fyrstu drögin að þessu frumvarpi var skilað vorið 2013,“ sagði Katrín og spurði ráðherra að lokum: „Hvar stendur vinna við frumvarp til laga um tónlistarnám?“

Eftir að Katrín hafði ítrekað spurningu sína í seinni ræðu sinni sagðist Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra gera sér væntingar um að frumvarp til nýrra laga um tónlistarmenntun kæmi fram á vorþingi. Katrín spurði einnig um hvort efni samkomulagsins um tónlistarmenntun hafi verið endurskoðað en því svaraði menntamálaráðherra neitandi og sagðist Illugi sammála þeirri nálgun fyrri ráðherra um að gerður sé greinarmunur á tónlistarnámi á framhaldsstigi og öðru tónlistarnámi í ljósi þess að nemendur á framhaldsstigi sé að undirbúa starfsferil í tónlist.