Rangt. Svo kolrangt

Samband íslenskra sveitarfélaga skilaði síðasta haust umsögn um fjárlagafrumvarp ársins 2016. Í því segir m.a. að sambandið vilji að af hálfu ríkisins verði lögð áhersla á að „draga úr bóta- og skattsvikum“ sem er auðvitað alveg rétt ábending hjá sambandinu.
Formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga heitir Halldór Halldórsson. Hann er oddviti sjálfstæðismanna í borgarstjórn. Einn borgarfulltrúa sjálfstæðisflokksins hefur viðurkennt að geyma fjármuni sína í skattskjóli á Panama. Formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga gerir ekki athugasemdir við það. Segir að það sé einkamál borgarfulltrúans hvar hann geymir peningana sína.
Þetta er rangt. Kolrangt.

Það er ekki einkamál borgarfulltrúans, fjármálaráðherransforsætisráðherrans ,innanríkisráðherrans, gjaldkerans, framkvæmdastjórans eða nokkurs annars sem kýs að lauma peningunum sínum úr landi í erlend skattaskjól. Það snertir okkur öll og kemur niður á lífsgæðum okkar allra þegar fólk með vísvitandi hætti kemur peningunum sínum undan og það grefur undan efnahagslegu sjálfstæði landsins, þ.m.t. sveitarfélaga.

Ætli stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga sé sammála afstöðu formannsins til skattaskjóls landa?
Eða er áhugi þeirra takmarkaður við meint bótasvik öryrkja og skattsvik almennings sem ekki á aurana sína geymda í Tortólum þessa heims?
Því á ég bágt með að trúa.