Réttlátara samfélag!

Í dag, á baráttudegi verkalýðsins, gengu landsmenn fylktu liði til að berjast fyrir bættum kjörum og réttindum. Þessi dagur virtist um tíma hafa misst gildi sitt og vera túlkaður sem almennur frídagur, en hefur öðlast á ný þá merkingu sem honum var ætluð; að vera dagur þar sem launafólk sýnir samstöðu í baráttu fyrir réttlátara samfélagi.

Eftir hrun og kreppu þurfti íslenskur almenningur að taka á sig miklar byrðar. Sjö mögur ár tóku við þar sem allir voru reiðubúnir að leggja sitt af mörkum. Nú þegar spáð er góðum horfum og hagvexti er eðlilegt að væntingar almennings í landinu vakni, ekki síst þegar fólk sér stjórnendur og auðmenn þiggja launahækkanir og skattaívilnanir. Stjórnvöld hafa sýnt skýra forgangsröð í þágu auðmanna: fyrsta verk ríkisstjórnarinnar var að lækka veiðigjöld um milljarða króna og beint í kjölfarið greiddu eigendur útgerðarfyrirtækja út ríkulegan arð. Næsta verk var að afnema auðlegðarskattinn sem lagðist á þá sem mestar eignir áttu. Með slíkum skattstofni væri hægt að reisa meginbyggingu nýs Landspítala á fimm árum sem væri mikilvægt skref til að tryggja góða heilbrigðisþjónustu fyrir landsmenn alla til framtíðar. Einnig hefði komið til greina að lækka skatta á þá tekjuminnstu.

Ríkisstjórnin valdi hins vegar að endurnýja ekki auðlegðarskattinn og lækka skatta í milliþrepi en hækkaði í staðinn skatt á matvæli; aðgerð sem kemur verst niður á lægst launuðu hópunum sem eyða hlutfallslega meiru í matvæli en efnameiri hópar. Hún valdi líka að auka hlut almennings í kostnaði við heilbrigðisþjónustu með því að hækka komugjöld á heilsugæslu og reyndi að leggja á spítalaskatt, þ.e. innlagnargjald á sjúkrahús, en var á endanum hrakin til baka með það ráðabrugg. Og sama ríkisstjórn valdi að loka dyrum framhaldsskólanna fyrir efnaminni nemendum eldri en 25 ára sem vilja sækja í bóklegt nám. Sama ríkisstjórn valdi að stytta atvinnuleysistryggingatímabilið og sama ríkisstjórn fyrirhugar nú að setja lög sem skilyrða fjárhagsaðstoð sveitarfélaga.

Allt eru þetta pólitískar ákvarðanir sem hafa áhrif á kjör almennings í landinu. Það er ekki hægt að setja upp sakleysissvip eins og ríkisstjórnin hefur gert og gefa í skyn að kjarasamningar séu ekki á borði stjórnvalda. Stjórnvöld eru auðvitað ekki beinn aðili að samningum á hinum almenna markaði en með aðgerðum sínum hafa þau svo sannarlega áhrif á lífskjör almennings og þar með kröfur almennra launamanna. Ef fólkið í landinu þarf að greiða meira fyrir heilbrigðisþjónustu og menntun, borga meira fyrir matarkörfuna vegna skattahækkana stjórnvalda, og þar að auki að horfa upp á skattabreytingar sem fyrst og fremst gagnast hinum efnameiri, þá er auðvitað ekki von á öðru en að fólkið í landinu geri skýrar kröfur um breytingar. Þannig hafa aðgerðir þessarar ríkisstjórnar í raun skapað þær kaupkröfur sem almenningur setur nú fram. Þegar ríkið er beinn aðili máls, eins og í kjaradeilu háskólamanna, er auðvitað ekki hægt að láta eins og þetta komi stjórnvöldum ekki við – en þar geta stjórnvöld líka beitt sér með óbeinum hætti til dæmis með breytingum á Lánasjóði íslenskra námsmanna.

Fjármálaráðherra spyr sig hvort jöfnuður sé orðinn of mikill. Aðgerðir núverandi ríkisstjórnar hafa flestar miðast að því að auka ójöfnuð. En fyrir hinn venjulega launamann er vandinn fremur sá að allt of margir Íslendingar ná ekki endum saman á sama tíma og stjórnvöld hafa verið önnum kafin við að bæta hag hinna efnameiri. Aukinn jöfnuður er áhyggjuefni á stjórnarheimilinu en samt einkenni þeirra samfélaga sem best vegnar enda mikilvægur þáttur í að byggja réttlátt samfélag fyrir alla.

Til hamingju með daginn, göngum saman fyrir réttlátara samfélagi.