Ríkisfjármál og hagstjórn á tímum stjórnarmyndunar
Það má kalla öfugsnúið að þurfa að ræða um þrönga stöðu í ríkisfjármálum á því herrans ári 2016, árinu þar sem stefnir í sögulegan metafgang hjá ríkissjóði, bókhaldslegan þ.e.a.s., um eða yfir 400 milljarða með bókfærslu stöðugleikaframlaganna. Að því við bættu að Ísland er væntanlega á hápunkti hagsveiflunnar, með 6 ára samfelldan hagvöxt að baki.
En ekki er allt sem sýnist. Hinir stöðugu tekjustofnar ríkisins hafa verið veiktir um 50-60 milljarða sl. 3 ár (að meðtöldum breytingum á tekjuskatti og tollum sem væntanlegar eru um næstu áramót). Það veldur því að raunverulegur rekstur ríkisins er rétt við núllið og hagsveifluleiðrétt er ríkið rekið með halla. Í því sambandi má vísa í greinargóða umfjöllun í nýjustu Peningamálum Seðlabanka Íslands og fjármálaráðherra verður að þenja sig við þá Seðlabankamenn vilji hann mótmæla því sem þar stendur.
Hefði þó ekki væri nema góðum helmingi þessara tekna verið haldið inni væri staðan allt önnur og betri. Hefði annarra tekna verið aflað að einhverju leyti í stað þeirra sem hurfu með skattkerfisbreytingum á síðasta kjörtímabili, sem ríkið tapaði nær undantekningarlaust á, væri staðan betri. Afkoman nú byggist í of miklum mæli á óvenju háum arðgreiðslum, tekjum af spenntum vinnumarkaði og vaxandi eyðslu/veltu í hagkerfinu. Slíkar tekjur gufa hratt upp ef á móti blæs. Verið er að gera sömu „örlaga-mistökin“ og gerð voru á þensluárunum fyrir hrun. Hinn stöðugi tekjugrunnur ríkisins er veiktur og það leyfa menn sér í skjóli hverfulla froðutekna af þenslunni. Þetta háttalag er ósjálfbært og óstöðugt þegar horft er til lengri tíma. Hagstjórnarlega er þetta ráðslag jafn galið nú og það reyndist þá (sbr. niðurstöðu Rannsóknarnefndar Alþingis). Skattalækkanir við svona aðstæður eru; sprek á bálið, olía á eldinn.
Skiljanlega spyrja margir, sbr. það sem að ofan sagði um metafgang hjá ríkissjóði vegna stöðugleikaframlaga, er þá ekki allt fullt af peningum? En svarið er, og sem betur fer, að full samstaða er um að nota slíka einskiptis búhnykki, sem reyndar eru að minnstum hluta fé sem laust er til ráðstöfunar nú þegar, til niðurgreiðslu skulda. Þessum fjármunum er því ekki blandað saman við rekstur ríkisins á líðandi stund og sama myndi gilda kæmi til meiriháttar eignasölu hjá ríkinu. Sá freistnivandi hefur verið aftengdur í ágætri pólitískri sátt að menn fleyti sér á líðandi stund með slíkum einskiptis- eða óreglulegum tekjum og geymi allar skuldirnar handa börnunum okkar til að borga. En óháð þessu er Ísland ríkt land og hér er nægur auður, að vísu allt of samþjappaður á fárra hendur, til að gera miklu betur í heilbrigðismálum, menntamálum o.s.frv. En til að þessi staða nýtist landsmönnum þurfa þeir sem stýra fjármálum ríkisins að hafa vilja og áræði til að sækja fé þangað sem það er að hafa.
Um viðskilnaðinn og„gatið“ í ríkisfjármálaáætlun
Fjármálaráðherra, Bjarni Benediktsson, hefur tekið óstinnt upp og mótmælt tali um þrengri stöðu ríkisfjármála en haldið var þegar kemur að því að setja saman fjárlög næsta árs. Upplýsingarnar um þetta koma þó beint frá fjármálaráðuneytinu sjálfu sem góðfúslega mætti til fundar við viðræðuhóp um efnahagsmál, ríkisfjármál o.fl. í nefndum stjórnarmyndunarviðræðum. Löng hefð er fyrir því að stjórnarráðið aðstoði flokka með umboð til stjórnarmyndunar, enda sjálfsagt mál. Viðræðuhópurinn aflaði reyndar upplýsinga víðar, svo sem frá Vegagerðinni um samgönguáætlun, og fékk nokkuð skýra mynd af stöðunni sem er meira en virðist hafa verið gert í fyrri viðræðum Sjálfstæðisflokks með Viðreisn og Bjartri framtíð.
Niðurstaðan er eftirfarandi:
Þrátt fyrir að tekjur eru nú, á grundvelli nýrrar hagspár og reynslutalna úr ríkisbókhaldinu fyrstu níu mánuðina, áætlaðar verða 16 milljörðum meiri á árinu 2017 en áður var talið (ekki 10 eins og fjármálaráðherra hefur talað um) vantar umtalsvert upp á, nálægt 20 milljörðum, að ýmsar útgjaldaákvarðanir fráfarandi ríkisstjórnar séu fjármagnaðar þannig að hennar eigin ríkisfjármálaáætlun haldi. Áætlunin byggir á því að afgangur af rekstri ríkissjóðs sé a.m.k. 1% af vergri landsframleiðslu, VLF, eða um 26,5 milljarðar. Þessi vandi stafar af því að;
– í fyrsta lagi er búið að lögfesta útgjaldaaukningu í almannatryggingakerfinu upp á 11 milljarða.
-í öðru lagi vantar 13,2 milljarða inn í fjárlög næsta árs til þess að nýsamþykkt samgönguáætlun, að viðbættri fjárþörf í fjarskiptamál og vegna Samgöngustofu, sé fullfjármögnuð.
-í þriðja lagi vantar a.m.k. 1,5 milljarða til að hægt verði að standa við áform um að „þak“ á heilbrigðiskostnaði einstaklinga samkvæmt nýjum lögum verði ekki hærra en 50 þúsund krónur á ári.
-í fjórða lagi vanta 1 milljarð til að fjármagna ákvarðanir fráfarandi ríkisstjórnar sem tengjast nýsköpun.