Ríkisstjórn í afneitun?

Steingrímur J. Sigfússon

Steingrímur J. Sigfússon vakti athygli á sinnuleysi ríkisstjórnarinnar varðandi verkfallsaðgerðir lækna undir liðnum ,,störf þingsins” á Alþingi í dag.

,,Í verkfallinu er ný hrina aðgerða að hefjast og vandræðin þar af leiðandi að aukast og tjónið þar með. Áhyggjur þeirra sem gerst þekkja til vaxa dag frá degi. Það er alveg ljóst að nú verður frestað rannsóknum og aðgerðum og ýmiss konar meðhöndlun í svo stórum stíl að biðlistar munu verða óviðráðanlega langir og kerfið er svo lestað fyrir að jafnvel þótt semdist á morgun eru möguleikarnir til að vinna þetta upp afar takmarkaðir í undirmönnuðu kerfi sem er undir miklu álagi.”

Steingrímur velti því fyrir sér hvar forustumenn ríkisstjórnarinnar væru: ,,Ég velti því fyrir mér hvort það sé einhver afneitun í gangi hjá forustumönnum ríkisstjórnarinnar, samanber það hvernig hæstvirtur fjármála- og efnahagsráðherra, og ekki síður hæstvirtur forsætisráðherra hafa talað í þessum efnum og reynt að henda boltanum í allar aðrar áttir en til síns sjálfs hvað það varðar að aðrir eigi að bera ábyrgð á því að ekki semst við lækna.”

,,Að lokum er það auðvitað þannig að íslenska ríkið verður sem launagreiðandi að vera samkeppnisfært og geta boðið þannig kjör að þessi verðmæti starfshópur fáist til að starfa á Íslandi, svo einfalt er það mál.” sagði Steingrímur J. Sigfússon.