RÚV fái óskert útvarpsgjald

Katrín Jakobsdóttir hefur lagt fram frumvarp á Alþingi um að útvarpsgjald renni óskert til Ríkisútvarpsins eins og gert var ráð fyrir í lögum sem sett voru í tíð hennar sem menntamálaráðherra. Meðflutningsmenn á frumvarpinu eru Árni Páll Árnason, Guðmundur Steingrímsson og Birgitta Jónsdóttir.

Eins og fram hefur komið í fréttum hefur útvarpsstjóri bent á að bág rekstrarstaða RÚV á rætur að rekja til þess að útvarpsgjaldið sem ætti að renna til RÚV hefur á undanförnum árum ekki farið óskipt til stofnunarinnar. Auk þess hefur núverandi ríkisstjórn áform um að lækka útvarpsgjaldið í áföngum og ljóst að Ríkisútvarpið hefur ekki burði til að standa undir slíkum niðurskurði ef það á að sinna lögbundnu hlutverki sínu sem almannaútvarp.

Í greinargerð frumvarpsins er einnig bent á að mikilvægt sé fyrir almannafjölmiðil eins og Ríkisútvarpið að vera fjárhagslega óháður hinu pólitíska og efnahagslega valdi. Þar segir meðal annars: „Verði sjálfstæði Ríkisútvarpsins ekki tryggt er vegið að getu þess til að sinna hlutverki sínu sem fjölmiðlaþjónusta í almannaþágu sem á að vera fær um að veita nauðsynlegt aðhald stjórnvöldum á hverjum tíma, vera vettvangur skoðanaskipta, vera í aðstöðu til að geta sett á dagskrá málefni sem stjórnvöldum eða öðrum aðilum mislíkar.“ Með því að tryggja í lögum að útvarpsgjaldið skuli renna óskipt til RÚV sé þannig stuðlað að því að stofnunin geti sinnt sínu lýðræðislega hlutverki af fullum krafti.