Sameiginlegar tillögur stjórnarandstöðunnar til breytinga á fjárlagafrumvarpinu

Fyrir aðra umræðu fjárlaga hefur stjórnarandstaðan sameinast um eftirfarandi breytingartillögur á fjárlagafrumvarpinu. Tillögurnar miða að því að sníða helstu vankantana af fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar og breytingartillögum stjórnarmeirihlutans og eru fjármagnaðar að fullu.

Í þessum tillögum er ekki gert ráð fyrir að teknar séu til baka ýmsar ákvarðanir stjórnarmeirihlutans um útgjöld og tekjur, svo sem fokdýr skuldaniðurfærsla, lækkun veiðigjalds, afnám auðlegðarskatts og nú síðast lækkun sykurskatts sem samtals nema nærri 50 milljörðum króna á ári. Breytingar á þeim ákvörðunum í heild eða hluta getur þannig skapað gríðarlegt viðbótarsvigrúm í ríkisrekstrinum.

Velferðarmál

Greiðslur sjúklinga hækki ekki

Stjórnarmeirihlutinn mun að óbreyttu hækka greiðslur almennings fyrir heilbrigðisþjónustu um 1.900 milljónir á ári. Lagt er til að þessar hækkanir verði allar dregnar til baka.

Sókn í velferðarmálum

Framlög til viðhalds bygginga Landspítala og til að vinna á biðlistum vegna verkfalls og sérstakt framlag til BUGL. Aukin framlög til lífeyrisþega.

 

Mennta- og menningarmál

Framhaldsskólinn verði opinn fyrir alla

Stjórnarmeirihlutinn mun að óbreyttu loka aðgangi fólks yfir 25 ára aldri að framhaldsskólum. Þessi aðgangstakmörkun er dregin til baka í tillögunum.

Sátt um RÚV og íslenska menningu

Útvarpsgjald verði óbreytt og renni óskert til RÚV í samræmi við tillögu stjórnar RÚV. Aukin framlög í verkefnasjóði skapandi greina og bókasafnssjóð rithöfunda. Framlag til Landssambands æskulýðsfélaga og framlag til að fylgja eftir þingsályktun um stafræna íslensku.

Háskólar fái úrlausn

Opinberir háskólar fái stuðning til að efla samstarf og samvinnu og Listaháskólinn húsnæðisframlag

 

Atvinnumál og innviðir samfélagsins

Stöndum vörð um réttindi á vinnumarkaði

Fallið verði frá styttingu bótatíma atvinnuleitenda úr þremur í 2 ½ ár og aukið fé verði veitt í þjónustu við atvinnuleitendur. Ríkið greiði áfram umsamin framlög til að jafna örorkubyrði lífeyrissjóða.

Uppbygging innviða

Stóraukin framlög í sóknaráætlun, nýframkvæmdir í vegamálum, hafnamálum og í framkvæmdasjóð ferðamannastaða. Framlög verði veitt á ný veitt í Græna hagkerfið.

 

Ýmis réttlætis- og mannréttindamál

Hætt verði við að fella niður framlag til ríkissaksóknara og lögreglu vegna þjónustu við þolendur kynferðisofbeldis. Aukið framlag til Útlendingastofnunar til að vinna á biðlistum og stytta málshraða við meðferð hælisumsókna. Framlag til þingsályktunar um upplýsinga- og tjáningarfrelsi (IMMI).

 

Fjármögnun tillagnanna

Á móti auknum útgjöldum er gert ráð fyrir auknum tekjum vegna hækkun veiðigjalda til samræmis við fyrri áform og efldra skattrannsókna, m.a. með tafarlausum kaupum á upplýsingum úr skattaskjólum og auknu framlagi til skattrannsóknarstjóra.

 

Sækja PDF