Samferða inn í nútímann

 

Fjölskyldur og fulltrúar stúlknanna sem Róbert Downey braut á hafa risið upp gegn úreltum lagabókstaf og fráleitri framkvæmd er varðar uppreist æru og endurheimt lögmannsréttinda með dómi. Alþingi hefur látið málið til sín taka, fyrst stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd og svo allsherjar- og menntamálanefnd. Á miðvikudaginn mætti Bergur Þór Ingólfsson, faðir eins þolanda Róberts, fyrir þingnefnd á opnum fundi, í beinni útsendingu og nú liggur fyrir að óhjákvæmilegt er að lögunum verður breytt og að þau verða færð til nútímans. Frumvarp ráðherrans hefur ekki sést enn en Alþingi mun taka það til umfjöllunar og ef marka má andann á fundunum á miðvikudaginn mun takast um það þverpólitísk sátt að bæta þessa löggjöf í þágu barna, í þágu brotaþola.

Vélræn framkvæmd án viðmiða
En það er ekki nóg að bæta löggjöfina því ljóst er að framkvæmdinni hefur verið verulega ábótavant. Í almennum hegningarlögum segir að forseti geti veitt mönnum uppreist æru ef formleg skilyrði séu uppfyllt og auk þess „færi umsækjandi sönnur, sem gildar séu metnar, á það, að hegðun hans hafi verið góð umræddan tíma“. Framkvæmdin hefur síðan orðið sú að kallað hefur verið eftir umsögnum a.m.k. tveggja „valinkunnra manna“ – en um það segir ekkert í lögunum sjálfum. Engin svör hafa komið fram við því hvenær framkvæmdin varð svo vélræn og hvernig það gerðist. Svo virðist sem nóg sé að þessar umsagnir séu mjög almenns eðlis og feli í sér almennt orðalag um að viðkomandi sé „góður gaur“. Svo virðist einnig sem engin viðmið séu til í ráðuneytinu um það hvaða upplýsingar eigi að koma fram í umsögninni og hvaða efnisatriði teljist fullnægjandi. Ennfremur kom fram hjá ráðherranum að sjaldnast fari einu sinni fram könnun á því hvort það sem fram kemur í umsögnum standist skoðun – ráðuneytið líti einfaldlega á innkomin gögn sem sönn og rétt. Þannig er í raun farið fram hjá skýrri áherslu löggjafans því vandséð er að það samræmist laganna bókstaf þar sem kveðið er á um að umsækjandi færi sönnur á að hegðun hans hafi verið góð og að þær séu metnar gildar, væntanlega af ráðuneytinu og ráðherra sem ber stjórnskipulega ábyrgð á þeirri niðurstöðu sem úr verður.

Vegum og metum
Á fundinum í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd á miðvikudag lagði ég á það áherslu að ráðuneytið yrði að fara í saumana á framkvæmdinni langt aftur í tímann, að minnsta kosti allt aftur til þess tíma þegar sérstök fullnustumatsnefnd fór með þessi mál og gerði tillögu til ráðherra. Nefndin fjallaði um beiðnir um reynslulausn, náðun og uppreist æru. Í grein sinni í Helgarpóstinum 1984 segir Jónatan Þórmundsson meðal annars, en hann var formaður nefndarinnar: „/. . ./ Skylt er að leggja allar umsóknir varðandi náðun, reynslulausn og uppreist æru fyrir nefndina, enda þótt ráðherra sé ekki bundinn af áliti nefndarinnar.“ Og síðar: „/. . ./ öllum meginreglum og framkvæmdarvenjum verður að beita af sanngirni, sveigjanleika og hófsemi vegna hinna ólíku atvika og einstaklingseinkenna, sem fram koma í málum fyrir nefndinni (heilsufar, heimilishagir, hegðun að undanförnu, skilorðsrof o.s.frv.). Árekstrar hljóta oft að verða á milli mismunandi sjónarmiða og ástæðna. Persónulegir hagir, sem í einu máli duga til náðunar, hrökkva kannski ekki til í öðru máli, er varðar mun alvarlegra brot. /. . ./ Sífellt þarf að vega og meta ólíka, matskennda og lítt mælanlega þætti, sem ekki fá samrýmst. Þá er engin formúla til, sem gefur öruggt svar við því, hvað sé rétt og hvað sé röng úrlausn. Þetta eru vandmeðfarin mál, enda fjallað um einhver helgustu verðmæti mannsins, sjálft frelsið.“ Af orðum Jónatans má skilja að á þeim tíma taldi nefndin mikilvægt að vega og meta af sanngirni og sveigjanleika og fráleitt að halda því fram að á þessum tíma hafi fullnustumatsnefndin nálgast þetta vandmeðfarna verkefni með vélrænum hætti.

Skilningsleysi
Að mínu mati hefur ráðuneytið misst sjónar á sínu hlutverki í því að framkvæma vilja löggjafans í þessu efni og verður að grafast fyrir um það hvernig og hvenær þessi breyting varð. Einnig og ekki síður er alvarlegt að ákveðins skilningsleysis gætir í því hvernig kynferðisbrot eru meðhöndluð í þessu tilliti og sérstaklega þau sem framin eru gagnvart börnum. Þessi brotaflokkur er óneitanlega afar sérstakur og um það hefur skapast bæði þekking og skilningur í samfélagsumræðunni ekki síst fyrir tilstilli grasrótarhópa og aktívista. Druslugangan hefur skipt miklu máli og femínísk barátta og aðgerðir um allt samfélag ekki síst á síðustu árum. Því miður er það af afar takmörkuðu leyti sem framkvæmd dómstóla, saksóknar og lögreglu endurspeglar þennan aukna skilning og er þar verulegra úrbóta þörf.

Í sátt við brotaþolann og samfélagið
Því miður ber ráðuneytið líka ábyrgð í því að skapa tortryggni í kringum málið með leyndarhyggju – að ekki sé minnst á formann stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar sem fjallað hefur um málið í fjölmiðlum af léttúð og alvöruleysi. Slíkt sæmir ekki formanni eftirlitsnefndar þingsins. Aðrir þingmenn meirihlutans í nefndinni hljóta að vera hugsi yfir því að hafa lotið hans leiðsögn í þessu máli í ljósi þess hvernig umræðan hefur síðan þróast.

Sá einstaklingur sem hefur brotið af sér svo alvarlega að svívirðilegt teljist að almanna áliti hlýtur að þurfa að leita sátta við samfélagið og brotaþolann með heiðvirðum hætti, í dagsbirtu og af einlægni. Þessu er engan veginn fyrir að fara í máli Róberts Downey, hann hefur aldrei viðurkennt sín brot eða látið í ljósi iðrun af nokkru tagi.

Af þessum sökum hefur það verið viðrað með réttmætum hætti að réttara sé að Alþingi sjálft sammælist um nauðsynlegar lagabreytingar í frumvarpi frekar en að ráðuneytið sem hefur staðið fyrir óásættanlegri framkvæmd geri það sjálft. Nú hefur frumvarpið ekki enn litið dagsins ljós frá ráðherra en ástæða til að ætla að þar sé ekki öllum þáttum til haga haldið eins og til að mynda sérstöku ákvæði um að frysta framkvæmdina þar til lagabreytingin hefur gengið um garð en fulltrúi Vinstri grænna í allsherjar- og menntamálanefnd vakti máls á því. Einnig er óljóst hvort tillaga ráðherra muni tryggja að barnaníðingur geti ekki endurheimt lögmannsréttindi, sem hlýtur að vera grundvallarkrafa og niðurstaða Alþingis.