Samgöngur í uppnámi

Samgöngur á Vestfjörðum eru víða enn óásættanlegar eins og vondur og óuppbyggður vegur við Árneshrepp á Ströndum sýnir og vegir í Barðastrandasýslu og á milli sunnan og norðanverðra Vestfjarða bera glöggt vitni um. Þarna er ekki eingöngu um að ræða byggðamál heldur líka öryggismál fyrir þennan landshluta sem hefur verið í mikilli varnarbaráttu lengi en sókn í atvinnumálum hefur vakið upp vonir um betri tíð og gott vegakerfi er grundvöllur þess að það gangi eftir.

Fjárlög næsta árs eru mikil vonbrigði hvað varðar framlög til samgöngumála. Gert var ráð fyrir 23 milljörðum í samgöngumál í samgönguáætlun en það verða einungis um 20 milljarðar lagðir í þennan málaflokk. 850 mlkr sem áttu að vera nýtt fé í nýframkvæmdir munu fara í viðhald vega vegna þess hve þörfin er mikil þar og ekki var gert ráð fyrir auknu fé í þann þátt. Áfram verður dregið úr styrkjum við innanlandsflugið og erfitt getur reynst að halda úti sama þjónustustigi á ríkisstyrktum leiðum eins og á Bíldudal og á Gjögri. Það vantar um 700 mlkr til þess að fjármagna vetrarþjónustu.

Það kom fram í máli innanríkisráðherra í umræðum um fjárlög á dögunum að þau verkefni sem ekki eru orðin samningsbundin séu í óvissu og þar eru vegaframkvæmdir eins og áframhaldandi uppbygging á þjóðvegi 60 um Gufudalssveit og Dýrafjarðargöngin í óvissu þar sem fjármögnun er ekki tryggð. Seinkað verður útboði á Dýrafjarðargöngum til ársins 2017 en fyrri ríkisstjórn hafði flýtt þeim framkvæmdum og átti þeim að ljúka 2018 sem og uppbyggingu heilsársvegar um Barðastrandasýslu til Vesturbyggðar. Nú sýnist mér að ekki bara staðsetning veglínu næsta áfanga á þjóðvegi 60 í Barðastrandasýslu sé í uppnámi heldur líka öll fjármögnun verksins.

Framkvæmdum á Vestfjarðarvegi 60 á milli Þverár í Kjálkafirði og Eiðis í Vattarfirði fer að ljúka en þetta var umfangsmesta framkvæmd Vegagerðarinnar á síðasta kjörtímabili fyrir utan jarðgöng á milli 3 til 4 milljarðar. Sú samfella sem gert var ráð fyrir í samgönguáætlun að yrði í framkvæmdum á þessu svæði er nú í uppnámi þar sem enn er ekki komin niðurstaða í hvaða leið skuli valin eftir að leiðinni yfir Hjallháls og Ódrjúgsháls var hafnað og samráðsnefnd með heimamönnum valdi að farin skyldi láglendisleið sem uppfyllti nútímakröfur og tryggði öryggi vegfarenda.

Vegagerðin lét hanna nýja veglínu um Teigsskóg sem Skipulagsstofnun hefur nú hafnað með þeim rökum að ekki sé um nýja veglínu að ræða og hefur Vegagerðin ákveðið að kæra þann úrskurð til úrskurðarnefndar umhverfis og auðlindamála. Stjórn Fjórðungssambands Vestfirðinga hefur ályktað um að það sé algjörlega óásættanlegt að tefja málið með því að kæra það og beinir því til stjórnvalda að ljúka án frekari tafa undirbúningi og ákvarðanartöku,svo hægt sé að hefja lagningu nýs láglendisvegar um Gufudalssveit. Vegagerðin hefur undanfarið reynt til þrautar að koma vegi um Teigsskóg í gegnum skipulagsferli en Skipulagsstofnun hafnaði á sínum tíma veglínu í gegnum skóginn vegna umhverfisáhrifa.

Ég virði þau sjónarmið sem komið hafa fram um náttúruverndargildi Teigsskógs en ég tel nýja útfærslu sem þýðir 1% rask á gróðurlendi vera ásættanlega niðurstöðu í ljósi brýnna hagsmuna svæðisins. Það er mat Vegagerðarinnar að vegur út norðanverðan Þorskafjörð í gegnum Teigsskóg og þverun Djúpafjarðar og Gufufjarðar sé öruggasti vegurinn til að tengja saman Reykhólasveit og Gufudalssveit. Næsti kostur, svokölluð i. leið, væri 3. milljörðum dýrari. Möguleikar eins og þverun Þorskafjarðar milli Staðar á Reykjanesi og Melaness hafa einnig verið skoðaðir og einnig göng undir Hálsana og fleiri vegastæði en þetta eru allt dýrari kostir.

Það hefur komið fram í máli ráðherra að verið sé að skoða 3 möguleika þ.e. endurupptöku málsins og þessa kæruleið og síðan sérlög um veginn. Ég tel það óásættanlegt fyrir þetta svæði að fara með málið í þann farveg sem beinir því í kæruferli og lagþrætur sem gæti farið allt upp í Hæstarétt og gæti þýtt að ekkert gerðist í vegaframkvæmdum á þessu svæði næstu 5 til 6 árin. En allir þessir þrír valkostir ráðherra geta þýtt það hvort sem mönnum líkar það betur eða verr. Þrautaganga sunnanverðra Vestfjarða í baráttunni fyrir bættum vegasamgöngum er orðin allt of löng og ábyrgð ríkisvaldsins síðustu 2 áratugi er mikil í þeim efnum.

Nú verða allir að leggjast á eitt um það að koma veglínustæði á þessu svæði á hreint og tryggja framkvæmdafé til verksins. Þetta svæði má ekki búa við það að ekki verði fundin önnur leið strax ef Teigskógarleiðin er ófær vegna þess að það tæki mörg ár að fá niðurstöðu um hana. Menn verða því að sjálfsögðu að velja næsta kost þó hann sé dýrari því það verður að vera samfella í framkvæmdum annars missum við fjármagn burt af svæðinu í annað. Þetta svæði er að byggjast upp og tíminn er peningar og það verður að setja verðmiða á hvað það kostar samfélagið að framkvæmdir dragist von úr viti það gæti reynst samfélaginu dýrt og 3. milljarðar eru ekki stór tala í því samhengi.

Ábyrgð Alþingis er því mikil og auka þarf við fjármagn í samgöngumál í fjárlagafrumvarpi næsta árs og lágmark er að standa við samgönguáætlun í þeim efnum. Vestfirðir eru skilgreindir sem ein af brothættustu byggðum landsins og öruggar samgöngur og fjarskipti er grundvöllur þess að byggðin geti nýtt þau tækifæri og þá vaxtarmöguleika sem heimamenn vinna með.
Því samkeppnishæfni svæðisins ræðst af góðum samgöngum.