,

Samráð um kjaramál.

Ríkisstjórnin hefur fundað tíu sinnum með forystu verkalýðshreyfingarinnar, fulltrúum atvinnurekenda og fleirum síðan í desember sl. Við höfum nú birt á vefsíðu Stjórnarráðsins dagskrá allra fundanna auk allra þeirra gagna sem lögð voru fram til kynningar og umfjöllunar. Það er mín skoðun að almenningur eigi rétt á því að fylgjast með samtali stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins á hverjum tíma. Viðfangsefnin hafa verið fjölmörg enda mörg mál sem þessir aðilar hafa sameiginlega hagsmuni af að ræða.

Fyrsti samráðsfundurinn var haldinn í desember 2017, enda var það eitt af forgangsmálum mínum sem forsætisráðherra að slá nýjan tón í samskiptunum og sýna strax að þessi ríkisstjórn hafi skýran vilja til að hlusta eftir óskum og áhyggjum bæði verkalýðshreyfingarinnar og fulltrúa atvinnurekenda og bregðast við þeim eins og helst er unnt. Þetta höfum við sýnt, því nú þegar er nokkrum verkefnum lokið sem leitt hafa af samtali stjórnvalda og aðilanna, og mörg önnur í fullri vinnslu.

Við höfum hlustað eftir þeirri kröfu um félagslegar umbætur sem ASÍ setti á oddinn og hækkað atvinnuleysisbætur um 19%, úr 227.417 kr. á mánuði í 270.000 kr. á mánuði. Að sama skapi hækkuðum við greiðslur úr ábyrgðasjóði launa verulega, en þær greiðslur höfðu ekki fylgt kaupgjaldi og höfðu verið langt undir meðaltekjum í lengri tíma líkt og verkalýðshreyfingin benti á. Þann 1. júlí sl. hækkuðu hámarksgreiðslur úr sjóðnum um 64%, úr 385.000 krónum í 633.000 krónur á mánuði. Hámarksábyrgð sjóðsins vegna tryggingar á greiðslu orlofs hækkaði sömuleiðis úr 617.000 krónum í 1.014.000 krónur.

Við skipuðum líka sameiginlegan starfshóp stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins um kjararáð. Niðurstaða hópsins var að leggja ætti kjararáð niður og það hefur nú verið gert. Í forsætisráðuneytinu er enn fremur í smíðum frumvarp um breytingar á fyrirkomulagi kjara æðstu embættismanna ríkisins til að tryggja að þau séu í takt við almenna launaþróun í landinu. Það frumvarp verður lagt fram á þessu haustþingi.

Verkefnin sem unnið er að má finna hér og ég hvet ykkur til að kynna ykkur efnið nánar hér : samráð.

Sem dæmi má nefna að nú stendur yfir endurskoðun á skatta- og bótakerfum í samráði við aðila vinnumarkaðarins, með það að markmiði að draga úr skattbyrði tekjulægri hópa. Niðurstöður þeirrar vinnu eru væntanlegar á haustmánuðum.

Kjaramál verða fyrirferðarmikil á komandi vetri og ríkisstjórnin hefur bæði með orðum og gjörðum sýnt vilja sinn til að greiða fyrir gerð kjarasamninga með aðgerðum í þágu félagslegs stöðugleika. Enn fremur hafa í okkar ríkisstjórnartíð tvær kjaradeilur endað í verkfallsaðgerðum. Í hvorugt skiptið var gripið til lagasetningar á verkföllin eins og algengt hefur verið undanfarin ár, heldur voru deilurnar leystar í sátt. Þetta er til marks um þær áherslur sem ríkisstjórnin hefur lagt og mun leggja í áframhaldandi samtölum við aðila vinnumarkaðarins.