Siðareglur og hagsmunaskráning enn haft til hliðsjónar í stjórnarráðinu

Svandís Svavarsdóttir, þingmaður Vinstri grænna, spurði forsætisráðherra um siðareglur og hagsmunaskráningu ráðherra í óundirbúnum fyrirspurnartíma í dag. „Fréttir undanfarna daga leiða hugann að mikilvægi siðareglna,“ sagði Svandís og rifjaði upp að í tengslum við lekamálið hafi forsætisráðherra verið spurður um siðareglur ráðherra og gefið til kynna að siðareglur frá fyrri ríkisstjórn ættu enn við.

Í svari sínu staðfesti forsætisráðherra að siðareglur fyrri ríkisstjórnar hafi verið „hafðar til hliðsjónar“ í tíð nýrrar ríkisstjórnar og kynntar nýjum ráðherrum. Svandís spurði aftur út í þetta atriði í seinni ræðu sinni: „Það kom fram í svari forsætisráðherra að farið hafi verið yfir siðareglurnar með núverandi ríkisstjórn og þess vegna vil ég spyrja sérstaklega í ljósi stöðu og tíðinda dagsins: Var þá sérstaklega farið yfir reglur um hagsmunaskráningu ráðherra?“ spurði Svandís og bætti við að „svo virðist að verulega vanhöld hafi verið á hagsmunarskráningu ráðherra.“ Forsætisráðherra tók ekki undir þetta og fullyrti að farið hafi verið eftir reglum um hagsmunaskráningu ráðherra og sagði að ekki sé fjallað um „hverjir séu leigusalar“ í siðareglunum.

Í ljósi þessa er rétt að taka fram að í umræddum siðareglum segir orðrétt: „Ráðherra upplýsir um fjárhagsleg hagsmunatengsl eða önnur slíkt tensla sem valdið geta hagsmunaárekstrum.“