Skóflustunga að þjóðarsjúkrahúsi

Skóflustunga var tekin að nýju þjóðarsjúkrahúsi við Hringbraut á laugardag. Ráðherrar ásamt fulltrúum félaga, hagsmunasamtaka og stofnana tóku fyrstu skóflustungu að nýjum meðferðarkjarna. Áætlað er að hann verði tekinn í notkun árið 2024. Þetta er stærsta byggingin í Hringbrautarverkefninu og gegnir lykilhlutverki í starfseminni. Kjarninn er hugsaður út frá starfsemi bráða- og háskólasjúkrahúss. Húsnæðið verður tengt öðrum starfseiningum Landspítala með tengigöngum og tengibrúm. Meðferðarkjarninn verður á sex hæðum auk tveggja hæða kjallara. Við athöfnina sagði Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra:  ,,Uppbygging heilbrigðisþjónustunnar er eitt af forgangsmálum ríkisstjórnarinnar. Dagurinn í dag markar tímamót í heildaruppbyggingu nýs Landspítala við Hringbraut. Nýtt sjúkrahús mun gerbylta allri aðstöðu fyrir heilbrigðisþjónustuna í heild sinni, ekki síst fyrir sjúklinga, starfsmenn og aðstandendur.“