Sumarferð VG 19. – 20. ágúst

Kæru félagar!

Nú þegar sumarið á næsta leiti er ekki seinna að vænna en að huga að sumarferð VG. Ferðin verður haldin í tengslum við flokksráðsfund, sem haldinn verður í félagsheimilinu Logalandi í Borgarfirði laugardaginn 19. ágúst.

Að loknum fundi hefst dagskrá sumarferðar. Farið verður í létta göngu um Reykholtsdal undir leiðsögn heimamanna, litið við í jarðaberjaræktun og þorsta svalað með “jarðaberja-mohito“.

Kvöldverður og kvöldvaka;

Kvöldmaturinn verður í höndum Dóru Svavarsdóttur / Culina og fer ekki nokkur maður svangur frá hennar borðum  (matseðill verður birtur síðar).

Þau sem hafa hug á að taka til máls undir borðum þurfa að lúta þeim nýjum reglum sem við höfum sett okkur – að rappa í bundnu máli.

Logaland er frægt fyrir dansiböll og mikla gleði, einkum og sér í lagi á síðustu öld. Sumir muna það vel og er stefnt að gleðiríkri kvöldvöku. Hljómsveitin Félagshyggjupopp, sem sló í gegn í kosningabaráttunni í fyrra, mun halda stutta tónleika enda þeirra vinsælustu slagarar ekki fleiri en tveir eða þrír.

Dagskrá sumarferðar lýkur engan veginn á kvöldvökunni heldur verður henni áframhaldið á sunnudagsmorgninum undir leiðsögn Ingibjargar Daníelsdóttur á Fróðastöðum, en hún er manna fróðust um staðarhætti, útilegumannasögur og náttúru Borgarfjarðar. Stefnt er að því að rútan verði komin til Reykjavíkur síðdegis.

Boðið verður upp á rútuferð til og frá Logalands.

Tveir gistivalmöguleikar verða í boði. Annars vegar á tjaldsvæðinu í Logalandi og á Hótel Reykholti, sjá nánar hér að neðan.

Gisting á tjaldsvæði: 1.500 kr. á mann

Tveggja manna herbergi á Hótel Reykholti: 32.000 kr.

Eins manns herbergi á Hótel Reykholti: 26.900 kr.

Morgunmatur og internetaðgangur eru innifalin á Hótel Reykholti.

Nákvæm dagskrá fundar og sumarferðar er í vinnslu.

Ferðin kostar 5.000 kr. á mann, innifalið í verði: rútuferð, rútusnarl og kvöldverður. Ókeypis fyrir börn 15 ára og yngri.

Skráning í sumarferð