SMS-styrkir ræddir á Alþingi

Katrín Jakobsdóttir og Bjarkey Gunnarsdóttir tóku þátt í sérstakri umræðu sem Brynhildur Pétursdóttir, þingmaður Bjartrar framtíðar, hóf í dag um úthlutun forsætisráðherra á menningarstyrkjum sem var mjög til umræðu fyrr á þessu ári.

Forsætisráðherra var til svara og gagnrýndi það að verið væri að ræða gömul mál en Katrín gagnrýndi hann á móti fyrir að vera enn í hlutverki stjórnarandstöðu og eyða mun meiri tíma í að ræða um fyrri ríkisstjórn en að standa fyrir sinni eigin ríkisstjórn. „Það virðist hafa verið algjör reiðareksstefna í forsætisráðuneytinu þegar kemur að úthlutun þessara styrkja,“ sagði Katrín. Bjarkey benti á að málið snerist um að forsætisráðuneytið setti ofan í við Ríkisendurskoðun, sem á að vera hinn óháði aðili yfir framkvæmdavaldinu.

Bjarkey og Katrín fóru báðar upp um fundarstjórn forseta að umræðunni lokinni til að gera athugasemd við framkomu forsætisráðherra í umræðinni. Þar sagði Bjarkey meðal annars að forsætisráðherra svaraði fyrirspyrjendum „með hálfgerðum dónaskap“ og bætti við að „hann teldi að málið væri komið í þann farveg að það þyrfti ekki að ræða það neitt frekar.“