Sókn fyrir samfélagið

 

Ný fjármálaáætlun sem ríkisstjórnin kynnti á miðvikudag snýst um sókn fyrir íslenskt samfélag. Hún fylgir þannig eftir þeim sáttmála um samfélagslega uppbyggingu sem ríkisstjórnarsamstarf Vinstri grænna, Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks er grundvallað á, rétt eins og fjárlög ársins 2018 gerðu.

Fjármálaáætlunin byggir á sterkri stöðu ríkissjóðs og efnahagsmála almennt sem er afrakstur þeirrar miklu og góðu vinnu sem staðið hefur yfir allt frá hruni. Fyrir síðustu kosningar og við myndun ríkisstjórnarinnar lögðum við áherslu á að hvorki væri hægt að bíða lengur með að tryggja almenningi hlutdeild í þeirri hagsæld sem hér hefur ríkt né að bíða lengur með uppbyggingu samfélagslegra innviða. Í áætluninni sést hvernig við hyggjumst nýta svigrúmið sem hefur skapast vegna velgengni og vinnu undanfarinna ára til að auka velsæld fólksins í landinu.

Við erum komin yfir mesta þensluskeiðið og hagvöxtur hefur gefið eftir hraðar en spár gerðu ráð fyrir. Í þessari þróun er fólgið tækifæri fyrir ríkisstjórnina til að koma með kröftuga innspýtingu í samfélagslega mikilvæg verkefni, hvort heldur á sviði heilbrigðis-, menntamála eða samgangna, og veita hagkerfinu nauðsynlega viðspyrnu. Að ráðast í slík verkefni og uppbyggingu er ekki eingöngu réttlætismál heldur er hún líka mikilvæg efnahagslega til að stuðla að áframhaldandi hagsæld í landinu.

Með því að auka útgjöld til samfélagsþjónustu og innviðauppbyggingar sköpum við viðspyrnu í hagkerfinu, en á sama tíma er mikilvægt að skapa aðstæður fyrir frekari vöxt. Við þurfum að tryggja þekkingarhagkerfinu slíkar aðstæður. Þess vegna ætlum við að afnema þakið á endurgreiðslu kostnaðar fyrirtækja við rannsóknir og þróun eins og kallað hefur verið eftir. Þá höldum við líka áfram að auka framlög til menntamála, ekki síst háskólastigsins.

Útgjöld til heilbrigðismála munu aukast um 40 milljarða króna á næstu fimm árum miðað við fjárlög yfirstandandi árs. Þetta þýðir að við getum lækkað greiðsluþátttöku sjúklinga þannig að hlutdeild þeirra hérlendis verði sambærileg því sem gerist á Norðurlöndunum. Forgangsraðað verður í þágu geðheilbrigðismála og heilsugæslunnar um land allt.

Fyrirhugaðar eru breytingar á örorkulífeyriskerfinu sem vinna á í samráði við forsvarsmenn heildarsamtaka örorkulífeyrisþega. Framlög til velferðarmála jukust um 11,7 milljarða í síðustu fjárlögum en ætlunin er að auka framlög til þessa málaflokks um aðra 28 milljarða á tímabilinu, sem er langt umfram lýðfræðilega þróun. Sú aukning mun ekki síst nýtast til að bæta kjör örorkulífeyrisþega.

Við ætlum að vinna að því með verkalýðshreyfingunni að draga úr skattbyrði lágtekjuhópa. Sá efnahagslegi stöðugleiki sem við sækjumst eftir og viljum stuðla að með skynsamlegri efnahagsstjórn og innspýtingu ríkisfjármuna í hagkerfið stendur nefnilega ekki einn og sér – hann fer hönd í hönd við félagslegan stöðugleika sem hávært ákall er um í samfélaginu. Það er forgangsverkefni þessarar ríkisstjórnar að stuðla að félagslegum stöðugleika í samstarfi við aðila vinnumarkaðarins og þegar horft er til þess hvernig við forgangsröðum fjármunum.

Fjármálaáætlun gerir ráð fyrir því að ríkið nýti fjármagn úr fjármálakerfinu í innviðaframkvæmdir. Miklum hluta þessara fjármuna verður varið í uppbyggingu í vegakerfinu á næstu árum en þar eru brýn verkefni framundan um land allt. Í áætluninni er sérstaklega kveðið á um að á árinu verði farið í viðræður við sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu um þátttöku ríkisins í borgarlínuverkefninu.

Samgönguframkvæmdir eru þó ekki einu fjárfestingarnar sem eru framundan. Framkvæmdir við nýjan Landspítala halda áfram á árinu með uppbyggingu meðferðarkjarna. Margboðað Hús íslenskunnar mun rísa á kjörtímabilinu, fjárfest verður í nýjum þyrlum fyrir Landhelgisgæsluna og ráðist verður í framkvæmdir til að hlúa að og vernda ýmsar náttúruperlur í umsjá ríkisins. Þá eykur ríkisstjórnin framlög til umhverfismála um 35% sem endurspeglar þann einbeitta vilja hennar að ná raunverulegum árangri í umhverfis- og náttúruvernd.

Sáttmáli ríkisstjórnarinnar snýst um þau mikilvægu verkefni sem þarf að ráðast í til að bæta lífskjör og auka velsæld í landinu. Ný fjármálaáætlun tryggir að ráðist verður í þessi verkefni og mun þannig skila sterkara samfélagi og betri lífskjörum fyrir almenning á Íslandi.

Katrín Jakobsdóttir, 

Grein forsætisráðherra birtist fyrst í Morgunblaðinu.