Sókn í uppbyggingu hjúkrunarrýma

 

Blásið hefur verið til sóknar í uppbyggingu hjúkrunarrýma. Ný hjúkrunarheimili í Hafnarfirði og á Seltjarnarnesi verða tekin í notkun snemma á næsta ári og framkvæmdir við byggingu hjúkrunarheimilis í Árborg og við Sléttuveg í Reykjavík eru komnar vel á veg. Með þessum framkvæmdum fjölgar hjúkrunarrýmum um tæp 200 innan tveggja ára.

Að auki eru á áætlun og í undirbúningi uppbygging hjúkrunarheimila í Stykkishólmi, á Höfn í Hornafirði, Húsavík, Reykjanesbæ, Mosfellsbæ og á Akureyri sem munu leiða til fjölgunar um 180 hjúkrunarrými á næstu fjórum árum. Í fjármálaáætlun fyrir árin 2019-2023 kemur fram áætlun um enn frekari fjölgun hjúkrunarrýma eða heildarfjölgun um alls 550 hjúkrunarrými á landinu öllu á tímabilinu.

Á næstu vikum mun Landspítalinn taka við rekstri nýs sjúkrahótels sem áætlað er að opni þann 1. mars n.k  Tilkoma sjúkrahótelsins er mikilvæg viðbót við heilbrigðisþjónustu hér á landi ekki síst fyrir þá sem búsettir eru utan höfuðborgarssvæðisins og þurfa að sækja læknisþjónustu af landsbyggðinni. Þá mun Landspítalinn geta gert ráð fyrir sjúkrahótelinu í heildarskipulagi sínu og má ætla að í einhverjum tilfellum geti fólk lokið sjúkralegu sinni á sjúkrahótelinu í stað þess að dvelja inni á deildum spítalans.

Í fréttum undanfarna viku hefur verið fjallað um fráflæðisvanda á Landspítalanum. Hluta þess vanda má rekja til þess að ekki hefur verið hægt að útskrifa fólk af spítalanum vegna skorts á hjúkrunarrýmum. Þá er ljóst að sá mönnunarvandi sem glímt er við í hjúkrun hefur veruleg áhrif enda ekki hægt að nýta öll legurými ef ekki fást hjúkrunarfræðingar og sjúkraliðar til starfa.

Fjölgun hjúkrunarrýma og tilkoma sjúkrahótels mun til skamms tíma hafa áhrif og létta álagi á Landspítalanum. En ég bind ekki síður vonir við að hægt verði að bregðast hratt og örugglega við mönnunarvanda í hjúkrun.  Á vettvangi velferðarráðuneytisins hafa verið skoðaðar tillögur að aðgerðum til að bregðast við stöðunni. Í því samhengi er m.a. horft til starfskjara svo sem launa, vaktafyrirkomulags, starfsumhverfis og starfsþróunarmöguleika til að stuðla að því að starfsfólk í hjúkrun upplifi samhljóm í  ábyrgð og vinnuálagi  annars vegar og launakjörum hins vegar.

Svandís Svavarsdóttir er heilbrigðisráðherra.