Fréttir

Sóknarfjárlög

Fyrr í vikunni lauk alþingi fyrri umræðu fjárlaga. Þessi fjárlög eru sóknarfjárlög, fjárlög þar sem sótt er fram á öllum sviðum. Aukningin milli ára er 4,6 prósent.

Fyrr í vikunni lauk alþingi fyrri umræðu fjárlaga. Þessi fjárlög eru sóknarfjárlög, fjárlög þar sem sótt er fram á öllum sviðum. Aukningin milli ára er 4,6 prósent. Við erum að sækja fram í innviðum öllum, við erum að bæta þjónustu, styrkja menntakerfið, heilbrigðisþjónustuna og velferðarþjónustuna. Þessi sókn er bæði nauðsynleg og tímabær. Leiðarstefið er alls staðar það sama, aukinn jöfnuður, en samfélag sem einkennist af jöfnuði er betra samfélag fyrir alla.Heilbrigðisþjónustan er í brennidepli í fjárlögunum og það er sérstaklega ánægjulegt að fá hlutverk í því að sækja fram í þágu þessa mikilvæga hluta samfélagssáttmálans. Þessi áhersla er skýr og afgerandi í þessu fjárlagafrumvarpi.

Fjárlögin eru því verulegt fagnaðarefni fyrir heilbrigðisþjónustuna. Aukningin í málaflokkinn er um 9,5 milljarður frá yfirstandandi ári og það er bætt í á öllum sviðum þjónustunnar. Nokkur atriði sem þar standa upp úr eru nýbygging Landspítala, sem er löngu tímabær, efling heilsugæslunnar sem fyrsta viðkomustaðar í heilbrigðiskerfinu, fullfjármögnun geðheilbrigðisáætlunar og verulega aukið fjármagn í það að draga úr kostnaðarþátttöku sjúklinga. Að draga úr kostnaðarþátttöku sjúklinga er sérstakt réttlætismál og snýst um það að jafna aðgang að heilbrigðisþjónustu óháð efnahag. Það er ekki bara réttlætismál, það er líka kjaramál og samkvæmt Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni er það eitt mikilvægasta málefni sem við getum tekist á hendur til þess að berjast gegn fátækt í heiminum.

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur fjallar fyrsti kaflinn um heilbrigðismál. Þar þarf að taka til hendinni enda hefur heilbrigðisþjónustan ekki notið raunverulegrar uppbyggingar allt frá hruni. Sækja þarf fram í þágu opinberrar þjónustu bæði til að nýta opinbert fé eins vel og kostur er en ekki síður til þess að leggja megináherslu á jöfnuð og gæði í þróun þjónustunnar. Skapa þarf skýra heilbrigðisstefnu fyrir Ísland með hliðsjón af þörfum allra landsmanna þar sem einstakir þættir þjónustunnar verða skilgreindir betur og samspil þeirra. Sú vinna stendur nú yfir og áætlað er að þingsályktunartillaga um heilbrigðisstefnu verði lögð fram á vorþingi.

Nú er kominn tími til að leggja megináherslu á þennan mikilvæga málaflokk, heilbrigðismálin. Það mun ríkisstjórnin gera og sú áhersla endurspeglast í þessum fjárlögum. Þannig sköpum við betra heilbrigðiskerfi fyrir alla.

Svandís Svavarsdóttir.

Höfundur er heilbrigðisráðherra og greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu.