Spilavíti „Víti til varnaðar“

Fyrir Alþingi liggur frumvarp um að lögleiða spilavíti eða spilahallir sem er fínna orð yfir sama hlut. Við Vinstri græn leggjumst alfarið gegn því máli og teljum það auka ennfrekar á þann gífurlega vanda sem spilafíkn er og vinna gegn lýðheilsusjónarmiðum. Flutningsmenn frumvarpsins eru þingmenn úr röðum Framsóknarflokks,Sjálfstæðisflokks og úr Bjartri framtíð.

Að mínu mati eru margar ástæður fyrir því að við Íslendingar eigum ekki að fara að feta þá slóð að bjóða upp á lögleg Spilavíti. Viljum við verða Las Vegas eða Mónakó norðursins? Nei, ég vil ekki sjá Ísland þróast í þá áttina. Við höfum komist ágætlega af án slíkrar starfsemi hingað til og ég tel að samfélagsleg og lýðheilsuleg rök séu sterk gegn því að við lögleiðum slíka starfsemi. Það kom fram í máli 1. flutningsmanns, hv. þm. Willums Þórs Þórssonar, að þetta væri góð viðbót við afþreyingu fyrir ferðamenn. Við vitum að í könnunum sem hafa verið gerðar hefur sýnt sig að ferðamenn koma fyrst og fremst til Íslands vegna náttúrunnar, yfir 80% ferðamanna koma hingað vegna náttúru landsins. Mér finnst engin ástæða til að við Íslendingar eltumst við það að vera með á boðstólnum spilavíti til að trekkja að eða lokka hingað þess konar ferðamenn eða að bjóða upp á slíkt til hliðar við ráðstefnuhald. Ýmis önnur starfsemi þrífst oftar en ekki í kringum spilavíti erlendis, vændi, jafnvel mansal ,eiturlyfjasala og ýmiss konar glæpastarfsemi sem virðist oftar en ekki verða eins konar hliðarbúgrein spilavíta, þótt auðvitað séu til undantekningar á því eins og öðru.
Þúsundir Íslendinga glíma við alvarlega spilafíkn.
Í frumvarpinu er talað um að 21 árs og eldri verði heimilaður aðgangur að fyrirhuguðum spilavítum. Við þekkjum vel þann vanda sem margir spilafíklar glíma við í dag og við verðum að horfa til hagsmuna þess fólks sem orðið hefur spilafíkninni að bráð og sorglegar afleiðingarnar fyrir fjölskyldur þeirra en í mörgum tilfellum hafa þær misst allar sínar eigur. Spilafíkn er alvarlegt þjóðfélagsmein og ætla má að um 12 þús. Íslendingar eigi við einhvers konar sjúklega spilafíkn að glíma. Rannsóknir hafa sýnt frammá að í áhættu hóp séu ungir karlmenn og til SÁÁ leita stöðugt fleiri sem glíma við alvarlega spilafíkn sem leitt hefur m.a. til fíkniefnavanda og aukinnar glæpastarfsemi. Á undanförnum árum hafa fjárhættuspil á netinu á erlendum síðum verið að aukast mikið og ólöglegir pókerklúbbar hafa verið upprættir. Við höfum lögleitt starfsemi spilakassa ,flokkahappdrætti.lottó og getraunir sem félagasamtök hafa notið hagnaðar af. Mikilvægt er að endurskoða og styrkja það lagaumhverfi sem er í dag um þessa starfsemi og herða hana frekar en að auka enn við vandann með því að lögleiða Spilavíti. Á síðasta kjörtímabili lagði Ögmundur Jónasson þá Innanríkisráðherra fram frumvarp sem reisa átti skorður við spilastarfsemi í landinu og átti einnig að takmarka aðgengi að netspilun á erlendum síðum. Frumvarpið náði ekki að fá afgreiðslu en ég tel þörf á sterkari lagaumgjörð ásamt því að lögreglan verði efld í því að uppræta ólöglega spilastarfsemi og einnig þarf að taka fastar á þeim vanda sem spilafíklar eiga við að etja í dag og að fjölga meðferðarúrræðum.
Sérstaða Íslands getur verið eftirsóknarverð.
Við Íslendingar erum oft feimin við að vera öðruvísi en aðrir. Vísað er til þess að Spilavíti séu leyfð t.d. í Danmörku og Svíþjóð og að vítt og breitt um heiminn þyki þetta eðlilegur hlutur. En er ekki allt í lagi að við séum ekki nákvæmlega eins og allir aðrir í efnum eins og þessum ef við teljum ekki að þetta geri Ísland eftirsóknarverðara eða mannlífið betra, heldur auki frekar á þann vanda sem fyrir er varðandi spilafíkn?
Þeir sem tala fyrir lögleiðingu spilavíta telja að betra sé að fá þessa starfsemi uppá yfirborðið og ekki eigi að vera með neina forræðishyggju og að frelsið eigi að vera haft að leiðarljósið. En frelsi eins getur verið helsi annars og horfa verður til samfélags,siðferðilegra og lýðheilsulegra sjónarmiða í þessu samhengi sem og öðrum. Ríkisstjórnin hefur það í stjórnarsáttmálanum, að vinna að aukinni lýðheilsu í landinu og ég get ekki séð að lögleiðing spilavíta sé skref í þá átt heldur þveröfugt. Við höfum getað komist ágætlega af án Spilavíta hingað til og þurfum á annarskonar uppbyggingu innviða og afþreyingar í landinu vegna fjölgunar ferðamanna til landsins.