Sækja PDF

Uppbygging á grunni jafnaðar og sjálfbærni

Eitt stærsta verkefni næstu áratuga er að snúa af braut kapítalisma og blindrar hagvaxtarhyggju sem birtist í taumlausri neyslu, ójöfnuði og skammtímahugsun í efnahags- og atvinnumálum þjóðarinnar. Núverandi þróun samfélagsins mun leiða til enn meiri óstöðugleika, misréttis og draga úr öryggi fyrir fleiri og stærri hópa. Samþjöppun auðs og eigna á fárra hendur er ekki aðeins óréttlát í sjálfu sér heldur dregur hún úr sjálfbærum vexti og útilokar stóran hluta almennings frá samfélagsþátttöku. Róttækra breytinga er þörf í umhverfis- og loftslagsmálum heimsins þar sem óheft markaðsöfl stýra óheillavænlegri þróun. Framtíðin þarf að byggjast á jöfnum tækifærum öllum til handa, virðingu fyrir náttúrunni og gróskunni sem þrífst í fjölbreytninni en ekki stórum heildarlausnum. Þörf er á nýrri nálgun sem byggist á sjálfbærni, samvinnu, jöfnuði og félagslegu réttlæti.

I. Örugg atvinna, jöfn tækifæri

Róttækra breytinga er þörf á launakerfi landsmanna til að efla réttindi og kjör launafólks. Hækka þarf lægstu laun verulega og stemma stigu við ofurlaunum og kaupaukagreiðslum. Nýta þarf komandi breytingar í atvinnuháttum og tölvu- og upplýsingatækni til að dagvinnulaun standi undantekningarlaust undir framfærslu sem og til að vinna að styttingu vinnuvikunnar án kjaraskerðinga. Þeim sem ekki eru launþegar þarf að tryggja framfærslu án skilyrða. Brýnt er að tryggja réttindi ungs fólks sem er að fóta sig á vinnumarkaði og huga sérstaklega að þeim sístækkandi hópi sem þiggur óregluleg laun fyrir vinnu sína. Launamuni kynjanna þarf að útrýma nú þegar og jafna kjör milli stétta, sér í lagi þar sem eitt kyn er í miklum meirihluta.

Auka á möguleika á menntun og þróun í starfi og gera átak í að útrýma svartri vinnu enda sviptir hún launafólk því öryggi og þeim réttindum sem stéttarfélögin veita. Rétt er að búa einnig í haginn fyrir stofnun lýðræðislegra fyrirtækja og fjármálastofnana sem eru í eigu og undir stjórn starfsmannanna sem þar vinna og veita þeim beina hlutdeild í arðinum af eigin vinnu. Vinstri græn standa með stéttarfélögunum í baráttunni fyrir réttindum og bættum kjörum launafólks.

Skattkerfið ber að nýta bæði til tekjuöflunar fyrir sameiginlega uppbyggingu og til kjarajöfnunar. Standa þarf vörð um þrepaskipt tekjuskattskerfi og færa skattbyrðina af lægri launum yfir á hærri. Hækka þarf hlutfall fjármagnstekjuskatts til samræmis við almennan tekjuskatt og tryggja þannig sanngjarnt skattkerfi óháð því hvers eðlis tekjurnar eru. Þeim sem hafa tekjur af nýtingu auðlinda, þar á meðal orkuauðlinda og sjávarauðlindarinnar, ber að sjálfsögðu að greiða fyrir það sanngjarnt gjald til þjóðarinnar, eiganda auðlindanna. Þessar auðlindir eru fjöregg okkar og þær þarf að vernda, viðhalda þeim og skila í betra ástandi til komandi kynslóða. Þá þarf að jafna stöðu sveitarfélaga til að sinna lögbundinni þjónustu með mannsæmandi hætti og tryggja þeim eðlilegt hlutfall skatttekna, meðal annars með því að leggja aukið fé til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga.

II. Uppbygging innviða: Fjárfesting í framtíðinni

Ljóst er að atvinnuhættir iðnríkja séu óðum að breytast með sjálfvirknivæðingu og vaxandi vægi upplýsingatækni. Ísland er þar engin undantekning. Á næstu árum og áratugum mun ráðast hvort Ísland skipar sér í flokk þjóða sem nýta framfarir í tölvu-, upplýsinga- og tæknigeiranum til að hefja uppbyggingu á nýjum grunni kvenfrelsis, jafnaðar, sjálfbærni, breytts gildismats og frjálsrar búsetu. Dæmi um breytta atvinnuhætti hérlendis er vöxtur ferðaþjónustu um allt land. Örum vexti hennar og annarra nýrra atvinnuhátta þarf að stýra, meðal annars til að dreifa álagi um landið. Þróun ferðaþjónustunnar þarf að byggja á þekkingu á greininni og metnaði heimafólks. Hlúa þarf að og styrkja ferðaþjónustu í sessi á forsendum íbúa hvers staðar í sátt við náttúru, atvinnuhætti og menningu þar. Mikilvægt er að enginn sé skilinn útundan í þeirri þróun heldur séu þau tækifæri sem eru til staðar nýtt til að veita öllum möguleika á tryggri atvinnu og greiðan aðgang að nauðsynlegri þjónustu óháð búsetu.

Til að nýta þau tækifæri sem eru til staðar í atvinnu- og efnahagsmálum Íslands þarf að hraða markvissa uppbyggingu innviða sem mynda undirstöðu breyttra atvinnuhátta, búsetu- og samfélagsþróunar. Þekking og fjölbreytni eru undirstaða nýrrar framtíðar. Lykilatriði í uppbyggingu innviða næstu árin er efling menntakerfisins með fjölbreyttu námsvali, verklegu ekki síður en bóklegu. Þetta námsval þarf að vera öllum aðgengilegt, t.a.m. óháð tekjum foreldra og búsetu. Einnig er rétt að styðja við bakið á skapandi greinum með eflingu rannsóknar- og tækniþróunarsjóða og leggja áherslu á græna uppbyggingu. Uppbygging á innviðum ferðaþjónustunnar er löngu tímabær og nauðsynleg til að taka á móti þeim vaxandi fjölda ferðamanna sem hingað koma. Slíkri uppbyggingu þarf að stýra og þeim sem hafa arð af náttúru landsins ber að greiða fyrir nýtinguna hvort sem viðkomandi staðir eða svæði eru í höndum einkaaðila eða opinberra, en jafnframt tryggja að aðgangur almennings sé óskertur á grundvelli almannaréttar. Arðurinn af náttúruperlum þarf að standa undir uppbyggingu og vernd þeirra.

III. Lífsgæði óháð búsetu

Meginmarkmið byggðastefnu næstu ára á að vera að fólk njóti sambærilegrar þjónustu óháð búsetu. Hún þarf að byggjast á jöfnum tækifærum kynjanna í nánu samstarfi við fólk í heimabyggð. Hana þarf að sníða fyrir sveitarfélög og/eða samtök þeirra en ekki stórar einfaldar verksmiðjulausnir. Jafna þarf tækifæri einstaklinga og fyrirtækja til verðmætasköpunar og atvinnuuppbyggingar á landsbyggðinni með bættum samgöngum, nýjum samfélagslegum úrræðum á húsnæðismarkaði, jöfnun orku- og flutningskostnaðar, bættum tækifærum til menntunar og starfsþjálfunar og síðast en ekki síst háhraðanettengingum um allt land. Gera þarf fólki af öllum kynjum kleift að sinna störfum sínum í ríkara mæli óháð staðsetningu, meðal annars með aukinni nýtingu tölvutækni, og auðvelda stofnun og umsýslu lítilla fyrirtækja.

Stefna um búsetumynstur til framtíðar á að byggjast á skilgreindum vaxtarsvæðum og miða að markvissri uppbyggingu landsbyggðarinnar á þeim. Um leið skal unnið áfram á grundvelli sértækra aðgerða með íbúum þeirra svæða sem brothættust eru í byggðalegu tilliti, t.d. þar sem konum fækkar mest. Skoða skal kosti þess að fara að fordæmi Norðmanna og breyta hluta námslána í styrki hjá þeim sem snúa aftur í heimabyggð, auka verulega byggðafestingu veiðiheimilda og tryggja örugga heilbrigðisþjónustu. Þá skal framvegis samþætta sérstaka aðgerðaáætlun um eflingu brothættra byggða áherslum hins opinbera í byggðamálum.

Kominn er tími á að endurskoða skipulag landbúnaðarins með það að markmiði að auðvelda nýliðun, nýsköpun og fjölbreytni sem og að tryggja jöfnuð í greininni. Rétt er að byggða- eða svæðistengja hluta landbúnaðarstyrkja eins og gert er í löndum sem við berum okkur saman við, efla menntun í greininni og styðja við bakið á lífrænni ræktun. Að sama skapi er brýnt að hefja róttæka endurskoðun á fiskveiðistjórnunarkerfinu til að tryggja stöðugleika í atvinnu á landsbyggðinni. Byggðatengja þarf stærri hluta fiskveiðiheimilda, bæta aðgengi að útflutningsgáttum, stuðla að aukinni nýliðun í greininni og verja veiðigjöldum til uppbyggingar í sjávarbyggðum landsins. Tryggja þarf með óyggjandi hætti að þjóðin fari með óskorað eignarhald á öllum auðlindum til lands og sjávar, meðal annars fiskveiðitegundum sem eru nýjar við strendur Íslands, og nota tækifærið sem það hefur í för með sér til að auka sanngirni í fiskveiðistjórnun Íslands.