Atvinnumál

Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs haldinn í Reykjavík 23.–25. febrúar 2007 vísar til aðgerðaætlunar í byggðamálum og ályktana um málefni sjávarútvegs og landbúnaðar, fjármál sveitarfélaga og annað það sem segir í ályktunum fundarins um aðgerðir á sviði atvinnu- og byggðamála en leggur sérstaka áherslu á eftirfarandi atriði sem brýnustu þættina í aðgerðaáætlun í atvinnumálum komandi mánaða og ára á þessu sviði.

1. Allar áherslur í atvinnumálum séu í samræmi við hugmyndafræði um sjálfbæra þróun.

2. Fjölbreytni verði ætíð höfð að leiðarljósi í allri stefnumótun og þróunarvinnu á sviði atvinnumála.

3. Aukinn kraftur verði lagður í nýsköpun og stuðning við tækni- og þekkingargreinar og hlúð verði sérstaklega að nýjum fyrirtækjum og litlum og meðalstórum fyrirtækjum í uppbyggingu.

4. Sérstök áhersla verði lögð á greinar sem tengjast umhverfistækni, þ.m.t. sjálfbærri þróun í orkumálum, hvers kyns endurvinnslu og endurnýtingu. Horfum til nýrra möguleika og tækifæra á þessu sviði.

5. Vaxtarmöguleikar innan hefðbundinna atvinnugreina verði nýttir markvisst. Einnig verði efld hvers kyns úrvinnsla og fullvinnsla afurða, þjónustuiðnaður og afleidd umsvif sem þessum greinum geta tengst á landsbyggðinni og stuðlað að því með margvíslegum hætti að virðisauki út frá höfuðatvinnugreinum landsbyggðarinnar falli til þar.

6. Gripið verði til markvissra aðgerða og skilyrði til atvinnurekstrar jöfnuð í landinu með sérstakri áherslu á það sem snýr að landsbyggðinni, s.s. jöfnun flutningskostnaðar, orkuverðs, möguleika í fjarskiptum o.s.frv.

7. Ferðaþjónusta og aðrar greinar sem tengjast náttúru, sögu, menningu og ímynd landsins verði sérstaklega styrktar og ferðaþjónustunni sé búin sú umgjörð í stjórnskipun og lögum sem henni ber sem mestu vaxtargrein íslensks atvinnulífs undanfarna áratugi.

8. Hvers konar listsköpun, handverk og smáiðnaður verði efld og stutt við bakið á handverkshópum og einyrkjum með verkstæði eða annars konar starfsemi á því sviði.

9. Greinar sem byggja á náttúrulegum og lífrænum auðlindum verði efldar.

10. Hugað verði sérstaklega að möguleikum Íslands á sviði vatns- og drykkjarvöruiðnaðar og aðilum sem þar hyggja á að markaðssetja vörur og reyna fyrir sér í útflutningi standi til boða öflugur bakstuðningur í formi ráðgjafar og aðstoðar við markaðssetningu og landkynningu í leiðinni.

11. Með markvissum aðgerðum í efnahagsmálum og með því að innleiða stöðugleika verði hagstætt umhverfi til nýsköpunar og þróunar og til reksturs útflutnings- og samkeppnisgreina almennt tryggt. Stóriðjustopp og efnahagslegur stöðugleiki í kjölfarið eru, ásamt raunhæfu gengi á krónunni og lægri vöxtum, lykilatriði í þessu sambandi.

12. Gerð verði sérstök framkvæmdaáætlun um stuðning við frumkvæði kvenna í atvinnumálum.

Efling byggða landsins

Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, haldinn í Reykjavík 23.–25. febrúar 2007, telur að grípa eigi til eftirfarandi aðgerða til efla byggðir landsins:

1. Gert verði stórátak til að bæta fjárhag og aðstöðu sveitarfélaganna til að sinna sínum verkefnum með verulega auknum tekjum og breiðari tekjustofnum. Sveitarfélögin fái a.m.k. 5 milljarða króna í rauntekjuaukningu til að bæta stöðu sína auk fjármuna til að hrinda í framkvæmd umbótaverkefnum á sviði umhverfismála og velferðarmála.

2. Markvissar jöfnunaraðgerðir á aðstöðu og skilyrðum í atvinnulífinu verði liður í nýrri sókn byggðanna. Flutningskostnaður verði jafnaður með endurgreiðslukerfi sem taki bæði til framleiðslustarfsemi og verslunar. Endurskoðum orkuverð þannig að landsmenn allir greiði sanngjarnt verð fyrir orkuna og bætum fjarskipti.

3. Allir þurfa að eiga jöfn tækifæri á að njóta heilbrigðisþjónustu, sækja skóla og hvers kyns almannaþjónustu, óháð búsetu.

4. Bættir möguleikar almennings til menntunar, starfsmenntunar og símenntunar, og bætt aðgengi að framhaldsskóla- og háskólastigi á landsbyggðinni verði sérstakt forgangsverkefni.

5. Gert verði verulegt átak í samgöngumálum, einkum í almennri vegagerð sem ríkisstjórnin hefur vanrækt. Lokið verði við hringveginn innan fjögurra ára, einbreiðar brýr heyri sögunni til á sama tíma og þá verði þeir landshlutar orðnir tengdir við vegakerfið með nútímavegum sem enn eru útundan, einkum Vestfirðir og Norðausturland. Loks verði gert verulegt átak í að byggja upp tengivegi og ferðamannavegi.

6. Breiðbandsvæðingu landsins verði lokið á næstu þremur árum þannig að jafn aðgangur allra landsmanna án tillits til búsetu sé tryggður með sömu gæðum og sama verði.

7. Leitum hagkvæmra leiða til að koma aftur á strandsiglingum og létta þungaflutningum af vegum.

8. Aukið fé verði sett í almennt atvinnuþróunarstarf á landsbyggðinni með eflingu atvinnuþróunarfélaga og fjármagni í staðbundna nýsköpunarsjóði.

9. Hlutdeild landsbyggðarinnar í nýjum störfum í þjónustu og á vegum hins opinbera verði tryggð með lögum.

10. Þjónustukvaðir sem taki til landsins alls verði lagðar á einkarekin þjónustufyrirtæki með markaðsráðandi eða einokunaraðstöðu.

Efnahagsmál, fjármál ríkis og sveitarfélaga og skattar

Eitt mikilvægasta verkefnið íslenskra þjóðmála um þessar mundir er að endurheimta efnahagslegan stöðugleika. Vinstrihreyfingin – grænt framboð hefur á undanförnum þingum flutt tillögu til þingsályktunar um aðgerðir í því skyni þar sem stöðvun frekari stóriðju- og virkjanaframkvæmda um langt árabil er lykilaðgerð sem fylgt yrði eftir með margþættum aðgerðum í samráði við heildarsamtök á vinnumarkaði og helstu hagsmunaaðila. Markmið nauðsynlegra aðgerða er að ná verðbólgu niður fyrir viðmiðunarmörk, draga úr viðskiptahalla og erlendri skuldasöfnun og koma á viðunandi jafnvægi í þjóðarbúskapnum og á vinnumarkaði. Sérstaklega brýnt er að bregðast við geigvænlegum viðskiptahalla og hinni hröðu skuldaaukningu þjóðarbúsins útávið sem af honum leiðir. Heildarskuldir erlendis eru nú komnar yfir 360% af vergri landsframleiðslu og hreinar erlendar skuldir nálægt 170%. Horfur hvað varðar lánshæfi landsins hafa á undanförnum misserum verið að breytast úr stöðugum í neikvæðar. Skuldir helstu máttarstoða íslensk samfélags, annarra en ríkissjóðs, þ.e. heimila, sveitarfélaga og atvinnulífs eru í öllum tilvikum með því mesta sem þekkist meðal þróaðra ríkja.

Vinstrihreyfingin – grænt framboð lítur á það sem eitt mikilvægasta forgangsverkefni nýrrar ríkisstjórnar að endurheimta þann stöðugleika og lága verðbólgu sem náðist með þjóðarsáttinni á sínum tíma en núverandi ríkisstjórn hefur glatað. Yfirlýsing um stóriðjustopp mun þegar hafa jákvæð áhrif á væntingar í þjóðfélaginu. Eftir því sem verðbólga og þensla gengur niður og fasteignamarkaðurinn róast skapast á nýjan leik forsendur fyrir því að ráðast í nauðsynlegar opinberar framkvæmdir, t.d. á sviði samgöngumála. Með batnandi rekstrarskilyrðum og afkomu hins almenna atvinnulífs og hagstæðari skilyrðum til nýsköpunar í atvinnumálum mun kraftur færast í starfsemi á þeim sviðum. Sjávarútvegur, ferðaþjónusta, útflutnings- og samkeppnisgreinar geta þá farið að fjárfesta á nýjan leik. Engin ástæða er því til að óttast samdrátt eða niðursveiflu í hagkerfinu ef rétt er á málum haldið.

Fjármál ríkis og sveitarfélaga

Afkoma ríkissjóðs hefur af eðlilegum ástæðum verið góð undanfarin ár og miklir fjármunir hafa streymt í ríkissjóð, bæði vegna sölu verðmætra eigna og tekna af miklum innflutningi og umsvifum. Þannig hefur ríkissjóður notið beint tekna af viðskiptahallanum og veltuaukningu og þenslu í þjóðfélaginu. Ríkissjóður er því sem betur fer vel í stakk búinn til að leggja sitt af mörkum til að skapa jafnvægi í þjóðarbúskapnum á nýjan leik. Markmið Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs í fjármálum hins opinbera er að hlutur ríkis og sveitarfélaga af þjóðartekjum haldist því sem næst óbreyttur sem hlutfall af landsframleiðslu eins og hann hefur verið að meðaltali á árunum 2005 til 2007. Vinstrihreyfingin – grænt framboð hyggst bæta verulega afkomu sveitarfélaganna og tryggja þeim nettó tekjuauka af stærðargráðunni 5 milljarða króna. . Tekjuskipting ríkis og sveitarfélaga er í engu samræmi við þau verkefni sem sveitarfélögin hafa á sinni könnu, sérstaklega varðandi félagsleg velferðarverkefni, verkefni á sviði skólamála o.fl. sem flutt hafa verið frá ríki til sveitarfélaga. Þetta veldur því að mikill meiri hluti sveitarfélaga getur ekki sinnt þessum  brýnu verkefnum og þurfa því að steypa sér í skuldir vegna nauðsynlegra  fjárfestinga.

Auk þess sem sveitarfélögunum verða, í samstarfi við ríkisvaldið, tryggðar tekjur til að mæta verkefnum á sviði umhverfis- og velferðarmála, svo sem á sviði sorpförgunar- og fráveitumála, til að auka endurvinnslu og til að koma á gjaldfrjálsum leikskóla og grunnskóla.

Landsfundurinn  skorar á alþingi og ríkisstjórn  að rétta nú þegar hlut sveitarfélaganna í landinu þannig að þau geti uppfyllt lögmætar skyldur sínar  við íbúana með nokkrum sóma.

Skattar

Áform Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs í skattamálum eru:

1. Undið verði ofan af þeirri tilfærslu skattbyrðinnar af hærri launum yfir á lág sem átti sér stað á löngu árabili með því að skattleysismörk hafa ekki fylgt þróun verðlags hvað þá launa. Skattleysismörk verði hækkuð í áföngum og skattbyrðunum dreift með sanngjarnari hætti þannig að lægstu launum og tryggingagreiðslum verði hlíft við sköttum og skattbyrði lægri launa létt.

2. Skattlagningu fjármagnstekna verði breytt á þann veg að upp verði tekið frítekjumark fyrir allt að 120 þúsund kr. fjármagnstekjur, en  greidd 14 % af tekjum þar fyrir ofan. Stefnt verði að því að samræma þetta hlutfall skattlagningu af hagnaði fyrirtækja.

3. Þeim sem eingöngu telja fram umtalsverðar fjármagnstekjur en engar launatekjur verði gert að reikna sér endurgjald og greiða þannig til samfélagsins sanngjarnan skerf, sbr. fram komið frumvarp á Alþingi frá þingflokki VG þar um.

4. Tekinn verði upp sérstakur skattaafsláttur fyrir sprotafyrirtæki og ný fyrirtæki í uppbyggingu, sbr. fram komið frumvarp á Alþingi frá þingflokki VG þar um.

5. Stimpilgjöld verði afnumin eftir því sem aðstæður á lánamarkaði og fasteignamarkaði bjóða.

6. Áform um nefskatt til Ríkisútvarpsins verði lögð til hliðar.

7. Skattaeftirlit verði hert og gagnsæi í launa- og skattamálum aukið.

Ísland beiti sér með virkum hætti á vettvangi alþjóðastofnana sem vinna gegn skaðlegri skattasamkeppni og skattaundirboðum.

 

Sjávarútvegur á sjálfbærum grunni

Ályktun stjórnar VG byggð á umræðum um sjávarútveg á Landsfundi

Vinstrihreyfingin – grænt framboð telur óumflýjanlegt og brýnt að grípa strax til tiltekinna ráðstafana í sjávarútvegsmálum og leggja jafnframt grunn að heildarendurskoðun á fyrirkomulagi fiskveiðistjórnunar og mótun heildstæðrar sjávarútvegsstefnu. Mikilvægt er að landsmenn nái að sameinast um farsæl markmið í sjávarútvegsmálum og meginlínur sem þróun greinarinnar fylgi á komandi árum. Gera verður heiðarlega og raunverulega tilraun til sátta um málefni greinarinnar. Vinstrihreyfingin – grænt framboð vill leggja sitt af mörkum til þess að svo geti orðið en til þess verða allir, og ekki síst útgerðin sem fengið hefur aðgang að sameiginlegri auðlind þjóðarinnar í formi veiðiheimilda, að leggja sitt af mörkum. Útvegurinn og sjávarútvegurinn í heild eiga einnig mikið undir því að betri sátt náist um málefni greinarinnar. Því ber að setja tímamörk inn í gildistíma laga um stjórn fiskveiða og stefna að því að ljúka heildarendurskoðun þeirra í síðasta lagi fyrir árslok 2010.

Mikilvægustu markmið þeirrar endurskoðunar eru:

·Auðlindir sjávar verði raunveruleg sameign þjóðarinnar og einstökum byggðarlögum tryggður réttlátur skerfur veiðiheimilda og viðunandi öryggi.

·Sjávarútvegurinn aðlagi sig markmiðum sjálfbærrar þróunar og vinni markvisst að því að bæta umgengni um náttúruna og lífríkið, þ.e. einstaka nytjastofna, vistkerfi hafsbotnsins og hafsbotninn sjálfan.

·Sjávarútvegsstefnan treysti byggð og efli atvinnu í landinu öllu ásamt því að stuðla að aukinni fullvinnslu framleiðslunnar og þar með aukinni verðmætasköpun og hámarksafrakstri auðlindanna innanlands.

·Sjávarútvegsstefnan stuðli að réttlátri og jafnri skiptingu gæðanna ásamt jöfnum og góðum lífskjörum þeirra sem við greinina starfa og veita henni þjónustu. Markmiðið er að afraksturinn af nýtingu sameiginlegra auðlinda dreifist með réttlátum hætti til landsmanna allra.

·Sjávarútvegurinn, ekki síst fiskvinnslan, þróist og verði fær um að bjóða vel launuð og eftirsóknarverð störf og standa sig í samkeppni við aðrar atvinnugreinar hvað launakjör, starfsaðstæður, vinnuumhverfi og aðra slíka þætti snertir. Tryggja þarf að laun og réttindi allra sjómanna, þar á meðal sjómanna á smábátum, séu samkvæmt kjarasamningum, tryggingar séu fullnægjandi og ítrasta öryggis sé ætíð gætt.

·Stuðlað verði að betra jafnvægi og réttlátari leikreglum í samskiptum helstu aðila innan sjávarútvegsins, þ.e. útgerðar og fiskvinnslu, verkafólks og sjómanna, sjávarbyggða og samfélagsins alls.

·Ákvæði gildandi laga sem setja eiga samþjöppun veiðiheimilda skorður verði styrkt. Afnotaréttareðli veiðiheimildanna verði undirstrikað og dregið úr braski með hærri nýtingarkröfu og skorðum við óhóflegum geymslumöguleikum milli ára og skiptimöguleikum milli tegunda.

·Þannig verði staðið að nauðsynlegum kerfisbreytingum og aðgerðum að stöðugleiki og heilbrigt rekstrarumhverfi í greininni verði tryggt og hæfilegur aðlögunartími gefist að breytingum.

Auk þess sem hér er talið upp má nefna að skoða þarf sérstaklega aðstöðumun landvinnslu, sjóvinnslu og útflutnings á óunnum fiski með það fyrir augum að finna leiðir til að jafna ósanngjarnan aðstöðumun, auka alhliða menntun á sviði sjósóknar og fiskvinnslu og stuðla að fullvinnslu alls sjávarfangs. Þá þarf að tryggja nýliðun í greininni og huga sérstaklega að þjálfun verðandi sjómanna.

Tillögur VG um fyrstu aðgerðir í þágu breyttrar sjávarútvegsstefnu:

·Aðgangur innlendrar fiskvinnslu að hráefni verði bættur með reglum um að tiltekinn lágmarkshluti alls afla sem ekki fer beint til vinnslu innanlands hjá sama aðila og veiðarnar stundar gangi yfir viðurkenndan fiskmarkað. Þannig sé fiskvinnslunni innanlands gert kleift að komast að a.m.k. hluta þess hráefnis sem ella færi beint úr landi óunnið og keppa um það

·Undirbúnar verði hvetjandi aðgerðir, svo sem upptaka nýtingarstuðla til að örva veiðar með kyrrstæðum veiðarfærum og orkusparandi veiðiaðferðum með hliðsjón af verndarhagsmunum lífríkis og hafsbotns. Unnin verði sérstök framkvæmdaáætlun um aðgerðir til að stuðla að sjálfbærri þróun sjávarútvegsins

·Til að stemma stigu við leigubraski með veiðiheimildir og til að skapa aukið öryggi og ferstu í viðkomandi sjávarbyggðum gangi 5% þeirra veiðiheimilda sem leigðar eru á hverju fiskveiðiári til ríkisins þegar til endurúthlutunar kemur að ári. Þessar veiðiheimildir myndi sérstakan byggðatengdan óframseljanlegan grunn sem endurráðstafað verði til sjávarbyggða, einkum minni staða sem fyrst og fremst hafa byggt á sjávarútvegi.

·Fiskifræðilegar rannsóknir verði stórefldar. Sérstaklega þarf að kanna hvort einstakir nytjastofnar séu staðbundnari en áður hefur verið talið. Á grundvelli slíkra rannsókna verði skoðað hvort svæðisbinda þarf fiskveiðstjórn og ráðstöfun veiðiheimilda í meira mæli en gert hefur verið. Einnig þarf að efla fræðilegar grunnrannsóknir almennt á lífríki og vistfræði sjávar og áhrifum veiða og veiðiaðferða í samvinnu við innlenda háskóla, alþjóðlegar stofnanir og umhverfissamtök til að hægt sé að meta núverandi ástand og til að marka framtíðarstefnu um verndun og nýtingu auðlindarinnar.

·Undirbúin verði tilraun með að heimila sumarveiðar á minni bátum með handfrjálsum búnaði frá sjávarjörðum og einnig gefist upprennnandi sjómönnum sem öðlast vilja reynslu og þjálfun kostur á hinu sama á grundvelli sérstakra reynsluleyfa. Ætíð verði um staðbundna/svæðisbundna, takmarkaða og óframseljanlega möguleika að ræða og jafnframt sé fyllsta öryggis gætt.

·Mótuð verði og lögfest fyrirfram stefna um hvernig fara skuli með veiðiheimildir þegar unnt er að auka afla kvótasettra tegunda allverulega umfram meðaltalsveiði undangenginna ára. Sérstaklega verði þá skoðað hvernig nýta megi hluta aflaaukningarinnar til að ná fram mikilvægustu markmiðum endurskoðaðrar sjávarútvegsstefnu, svo sem að treysta sjávarbyggðirnar, stuðla að endurnýjun í greininni og þróun í átt til aukinnar sjálfbærni.

Samþykkt flokksstjórnar VG um sjávarútvegsmál á grunvelli umfjöllun landsfundar 23.–25. febrúar 2007.

Að öðru leyti vísast til ályktana um sjávarútvegsmál frá fyrri landsfundum og sjávarútvegsstefnu flokksins frá árinu 2001.

 

Landbúnaðarmál

Vinstrihreyfingin – grænt framboð lítur svo á að kraftmikill landbúnaður sé brýnt samfélags- og umhverfismál. Framtíð þessa atvinnuvegar á Íslandi veltur á því að víðtæk sátt ríki um starfsskilyrði landbúnaðarins og það fjölþætta hlutverk sem hann gegnir í landinu, þar á meðal að framleiða holl matvæli á viðráðanlegu verði, treysta búsetu í dreifbýli, viðhalda umhverfisgæðum, tryggja matvælaöryggi, styðja ferðaþjónustu og aðrar atvinnugreinar.

Vinstrihreyfingin – grænt framboð telur mikilvægt að landbúnaðurinn og öll önnur landnýting þróist í sátt við umhverfið og á grundvelli viðhorfa um sjálfbæra þróun þannig að vistvænir búskaparhættir og góður aðbúnaður búfjár verði ávallt í öndvegi.

Vinstrihreyfingin – grænt framboð lýsir eindregnum vilja til að auðvelda kynslóðaskipti í landbúnaði, m.a. með lánasjóði ungs fólks til jarðakaupa, og hindra að verslun með bújarðir hnekki byggð í sveitum landsins. Brýnt er að endurskoða jarðalög með þetta í huga og tryggja að eignarhaldi á jörðum fylgi bæði réttindi og skyldur gagnvart umhverfi og samfélagi.

Vinstrihreyfingin – grænt framboð vill beita sér fyrir lagasetningu um hámarkshlut einstakra aðila af heildarframleiðslurétti eða –magni innan hverrar búgreinar. Í sauðfjárrækt og mjólkurframleiðslu verði miðað við 1% af heildargreiðslumarki. Jafnframt verði réttur til framleiðslustuðnings bundinn við búsetu á lögbýlum en ekki aðeins eignarhald.

Vinstrihreyfingin – grænt framboð álítur rétt að hefja strax á næsta kjörtímabili vinnu við að undirbúa íslenskan landbúnað fyrir væntanlega alþjóðasamninga um verslun með landbúnaðarafurðir. Markmiðið verði að greinin fái hæfilega langan aðlögunartíma til að mæta samkeppni og sækja fram á erlendum mörkuðum, t.d. með því breyta hluta núverandi framleiðslustyrkja í búsetutengdan stuðning. Í því sambandi verði gætt jafnt að ólíkum búgreinum og þeim tryggð sambærileg starfsskilyrði eftir því sem kostur er.

Vinstrihreyfingin – grænt framboð lýsir vilja sínum til að stuðla að upplýstri og sanngjarnri umræðu um matvælaframleiðslu og matarverð á Íslandi.

Vinstrihreyfingin – grænt framboð vill enn fremur

·efla stuðning við lífrænan búskap, til samræmis við það sem gerist í nágrannalöndum okkar, og styrkja rannsóknir á því sviði

·gera reglur um fullvinnslu afurða þannig úr garði að heimaunnin matvæli verði raunhæfur kostur þeirra bænda sem kjósa að selja sína vöru sjálfir

·stuðla að aukinni þátttöku bænda í landgræðslu, skjólbeltarækt og skógrækt

·að eftirlits- og leyfisgjöld í landbúnaði verði lækkuð þannig að þau endurspegli raunverulegan kostnað vegna slíkrar starfsemi í þeim mæli sem hennar er þörf

·tryggja fullnægjandi merkingar á afurðum og aðföngum, innlendum jafnt sem innfluttum, m.t.t. notkunar erfðabreyttra lífvera við framleiðsluna

·að allar landbúnaðarafurðir verði upprunamerktar, bæði íslenskar og innfluttar

·búa ylrækt og garðyrkju á Íslandi sanngjörn starfsskilyrði og efla sérstaklega starfsmenntun í þessum fræðum

·endurskoða löggjöf um dýravernd á heildstæðan hátt

 

Stórsókn í ferðaþjónustu

Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs leggur til að hafin verði stórsókn til áframhaldandi uppbyggingar ferðaþjónustu í landinu. Í þeirri vinnu verði lögð höfuðáhersla á að styðja frumkvæði heimamanna á hverjum stað ásamt því að efla og treysta grunnstoðir ferðaþjónustunnar.

Ferðaþjónustan er sú atvinnugrein sem vaxið hefur hraðast hér á landi undanfarin ár og skilað þjóðarbúinu gríðarlegum efnahagslegum ávinningi. Ferðaþjónustan skapar fjölbreytt störf um land allt og að sama skapi hefur hún í för með sér fjölbreyttari og arðbærari þjónustu og aukna afþreyingarmöguleika fyrir heimamenn. Félagsleg áhrif ferðaþjónustu eru lítt könnuð og miklu skiptir að efla rannsóknir í þessari atvinnugrein. Þó má ætla að þau geti verið veruleg og í flestum tilfellum jákvæð ef horft er til hinna dreifðu byggða.

Miklu skiptir að efla nýsköpun og þróun í ferðaþjónustu. Leggja þarf áherslu á fjölbreytta vaxtarsprota ferðaþjónustunnar og má þar nefna nýja möguleika í náttúruskoðun, heilsutengda ferðaþjónustu og menningartengda ferðaþjónustu. Þá eru miklir möguleikar á að efla vetrarferðamennsku hér á landi og treysta samspil náttúruskoðunar, menningarferða og borgarlífs.

Vinstrihreyfingin – grænt framboð vill tryggja ferðaþjónustunni sambærilega stöðu í lögum og stjórnskipun og öðrum atvinnugreinum og lítur á hana sem vænlegan kost í framtíðar atvinnuuppbyggingu.