Aðgerðaáætlun VG gegn fátækt frá 2007

Misrétti hefur aukist í íslensku samfélagi á undanförnum árum. Á sama tíma og margir hafa auðgast verulega og enn aðrir búa við góð lífskjör er vaxandi hópur settur hjá. Fátækt á ekki að líða í íslensku samfélagi og leggur Vinstrihreyfingin – grænt framboð höfuðáherslu á að bæta og jafna kjörin og útrýma fátækt. Auka þarf ráðstöfunartekjur hinna tekjulægstu og taka til gagngerrar endurskoðunar samspil almannatrygginga, lífeyrissjóða og skatta. Það er hlutverk velferðar-samfélagsins að tryggja jöfnuð. Þess vegna leggur Vinstrihreyfingin grænt framboð áherslu á gjaldfrjálsa velferðarþjónustu, aðgengilega landsmönnum öllum. Á undanförnum árum hefur gjaldtaka í menntakerfinu og í heilbrigðisþjónustu verið aukin jafnt og þétt og nú er svo komið að tekjulítið fólk á þess ekki kost að nýta sér sjálfsagða grunnþjónustu. Þá hefur verið dregið úr félagslegri aðstoð á mörgum sviðum og hefur það einnig aukið ójöfnuð í þjóðfélaginu.

Heilbrigðisþjónusta

Þetta á ekki síst við um heilbrigðisþjónustuna. Gjaldtaka í heilbrigðiskerfinu hefur stóraukist á undanförnum árum og áratugum.

Árið 1980 var kostnaðarþátttaka sjúklinga í heilbrigðisþjónustunni 1,8%, 1990 var hún 13,4% en árið 2005 greiddu sjúklingar beint úr
buddunni 17,5% af heilbrigðisútgjöldum þjóðarinnar. Á því ári námu
sjúklingagjöldin 16,8 milljörðum króna og voru 5,5 milljörðum hærri en
á árinu 1980 á sama verðlagi miðað við sama hlutfall. Læknar og annað
heilbrigðisstarfsfólk telur gjaldtöku í heilbrigðiskerfinu hafa í för
með sér að efnalítið fólk veigri sér við að leita læknis og að
lyfjakostnaður sé því ofviða.

Tannlækningar

Samkvæmt ábendingum Landlæknisembættisins er það í tannlækningum sem fátæktin segir fyrst til sín. Aldraðir, tekjulítið fólk og öryrkjar hafa iðulega ekki efni á tannlæknaþjónustu.

Um 8500 börn á aldrinum 3-17 ára höfðu ekki farið til tannlæknis í þrjú ár árið 2005. 10 til 20 af hundraði grunnskólabarna fara á mis við forvarnarstarf í tannheilsu og síðan einnig tannviðgerðir. Tannheilsa barna er verri hér á landi en á hinum Norðurlöndunum og 12 ára íslensk börn eru með helmingi fleiri skemmdir en börn í Svíþjóð og Danmörku. Þau börn sem illa eru stödd fjárhagslega og félagslega fá minnstar tannlækningar, hafa verri tennur og versta tannheilsu meðal barna. Skólatannlækningar voru lagðar af árið 1998 „af samkeppnisástæðum“. Versnandi tannheilsu á meðal barna má rekja til þessa en einnig til þess að ríkið niðurgreiðir ekki tannlæknaþjónustu á sama hátt og þjónustu annarra lækna. Enginn samningur er í gildi milli TR og
tannlækna og greiðir TR nú 75% af tannlæknareikningum skv. gjaldskrá frá 2004, sem er langt frá raunverulegum gjaldskrám læknanna. Niðurgreiðsla er því í reynd aðeins 60% í stað 75% og sjúklingarnir greiða mismuninn.

Við þetta bætist að fólk í dreifbýli þarf að greiða mun hærri kostnað vegna tannviðgerða og  tannréttinga, sem krefjast mikilla ferðalaga til þéttbýlissvæða.

Húsnæði

Árið 1999 var húsnæðislöggjöfinni breytt og félagslegir þættir hennar nánast þurrkaðir út. Eftir stendur Íbúðalánasjóður sem vissulega þjónar því mikilvæga hlutverki að lána til allra landsmanna óháð búsetu. Þrátt fyrir tilvist hans, sem og stuðning við leigjendur og kaupendur húsnæðis í formi vaxtabóta og húsaleigubóta, er útilokað fyrir tekjulítið fólk að eignast húsnæði og illgerlegt að leigja íbúðarhúsnæði, einkum á höfuðborgar-svæðinu. Tekjulítið fólk á ekki annarra kosta völ en að leita á rándýran og ótraustan leigumarkað. Húsnæðiskostnaður (húsnæði, rafmagn og hiti í vísitölu neysluverðs) hefur hækkað mun meira en laun. Þannig má nefna að frá árinu 2002 hefur húsnæðisliðurinn hækkað um tæp 60% en launavísitala um tæp 40%.

Húsaleigubætur hafa ekki hækkað í samræmi við aukinn húsnæðiskostnað að raungildi og hlutfallslega hefur dregið úr kostnaði ríkissjóðs. Á tímabili greiddi Jöfnunarsjóður sveitarfélaga með tilstyrk ríkissjóð 50%-58% af útgreiddum húsalegubótum. Það hlutfall er nú komið í 40-45%. Það er erfiðara nú en fyrir tólf árum að vera tekjulítill og standa straum af kostnaði vegna húsnæðis. Tekjulítið fólk er af þessum sökum stöðugt á hrakhólum.

Menntun og fræðsla

Um 20% af heildarútgjöldum til fræðslumála er nú borið uppi af heimilum í landinu og nam sú fjárhæð tæpum 17 milljörðum króna árið 2005 og fer vaxandi. Þrátt fyrir stuðning vegna náms barna og unglinga, á lágtekju- og millitekjufólk í dreifbýli ekki kost á því að mennta börn sín til jafns við þéttbýlisbúa. Þetta á einkum við um aðgengi að framhaldsnámi og búa íbúar fjölmargra byggðarlaga á landsbyggðinni við gríðarlegan aðstöðumun, hreint misrétti í reynd, hvað varðar aðgengi að framhaldsnámi. Kannanir sýna að tilkostnaður við að senda ungling í framhaldsskóla á heimavíst nemur 600–700 þúsund krónum á ári. Ef um dvöl námsmanns af landsbyggðinni í Reykjavík er að ræða, nemur þessi kostnaður 1100 þúsund króna á ári. Er þá ótalinn ýmiss annar kostnaður.

Barnafjölskyldur

Barnafjölskyldur fá minni stuðning nú, þrátt fyrir fyrirheit um hið gagnstæða. Barnabætur hafa verið skertar í tíð þessarar ríkistjórnar. Lækkunin nemur samtals rúmum 10 milljörðum króna á árabilinu 1995–2004 á verðlagi ársins 2005. Þá hefur tilkostnaður við listnám, íþróttir og tómstundir barna aukist til muna á undanförnum árum og er brýnt að jafna stöðu barna og unglinga til að stunda innihaldsríkar tómstundir óháð efnahag foreldra þeirra.

Lægstu tekjurnar og innflytjendur

Tekjur lægsta tekjuhópsins í samfélaginu eru langt undir framfærslukostnaði. Um er að ræða öryrkja, hluta aldraðra og lægst launaða fólkið, og því hlýtur umtalsverð hækkun lægstu launa að vera forgangsverkefni í kjarasamningum á komandi árum. Samkvæmt könnun sem Capacent Gallup gerði í desember 2006 fyrir Landssambands eldri borgara, Reykjavíkurborg, Félagsmálaráðuneytið og Öldrunarráð Íslands, kom fram yfir 64% í þessum hópi voru með undir 110 þúsund krónum í ráðstöfunartekjur á mánuði.

Veruleg hætta er á að innflytjendur í lægstu tekjuhópunum verði fátækt að bráð. Það á ekki síst við um konur í láglaunastörfum.

Úrbætur

Í Alþingiskosningunum 12. maí verður kosið um framtíð velferðarþjóðfélags á Íslandi. Í ljós hefur komið að meginþorri Íslendingu vill öflugt velferðarkerfi rekið á vegum samfélagsins og fjármagnað með almennum sköttum. Áherslur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs eru því í takt við áherslur þjóðarinnar.

VG áformar ekki að auka almennar skattaálögur frá því sem verið hefur á undanförnum árum. Hins vegar er nauðsynlegt að endurskoða dreifingu skattbyrðarinnar. Endurskoða þarf hvernig sameiginlegum fjármunum þjóðarinnar er  ráðstafað. VG vill sýna ráðdeild og forgangsraða í þágu velferðar fyrir alla.

-Því miður er erfiðara að vera tekjulítill og sjúkur nú en þegar Sjálfstæðisflokkur og Framsóknar- flokkur hófu samstarf árið 1995.
-Það er erfiðara að vera tekjulítill og húsnæðislaus en það var árið 1995.
-Það er erfiðara að vera tekjulítill og með börn á framfæri en það var árið 1995.
-VG mun einbeita sér að því að allir fái notið hins besta sem íslenskt samfélag hefur upp á að bjóða.

Burt með þröskulda í heilbrigðiskerfinu

VG setur í forgang að …
… fella niður komugöld á heilsugæslustöðvar
… endurskoða alla gjaldtöku í heilbrigðisþjónustu með það fyrir augum að draga úr henni og aflétta með öllu gjaldtöku af tekjulitlu fólki
… öll börn og unglingar til 20 ára aldurs fái ókeypis tannvernd og almennar tannviðgerðir
… almennar tannviðgerðir og tannhreinsun aldraðra og öryrkja verði viðurkenndur hluti heilbrigðisþjónustunnar
… efna til sameiginlegs átaks Heilbrigðisráðuneytis og Lýðheilsustöðvar um að ná til þeirra barna og unglinga sem fara á mis við forvarnir í tannheilsu og tannlækningum
… tryggja hnökralausan rekstur BUGL til langframa og útrýma biðlistum eftir sálfræði- og geðlæknaþjónustu fyrir börn og ungmenni, einnig í heimabyggð
… niðurgreiða sálfræðiþjónustu á sama hátt og þjónustu geðlækna
… ná lyfjakostnaði niður til samræmis við það sem gerist á Norðurlöndum með því að vinna gegn fákeppni, stýra magninnkaupum og endurskoða skattlagningu á lyf og endurgreiðslufyrirkomulag hins opinbera.

Burt með þröskulda í húsnæðiskerfinu

VG setur í forgang að …
… samræma húsnæðisframlög (húsaleigubætur og vaxtabætur) undir skattakerfinu
… auka hlutdeild ríkisins í húsaleigubótum
… tryggja félagasamtökum stofnstyrki til íbúðabygginga og lán á viðráðanlegum kjörum
… lánastefna Íbúðlánasjóðs verði endurmetin og tekjulitlu fólki tryggð félagsleg viðbótarlán
…  vaxtabótafyrirkomulagið verði endurskoðað og tryggt að hækkun fasteignaverðs hafi ekki bætur af fólki eins og gerst hefur.

Burt með þröskulda vegna búsetu

VG setur í forgang að…
… tryggja landsbyggðinni gott aðgengi að almennri heilbrigðisþjónustu ýmist í heimabyggð eða með sjúkrahótelum og þátttöku í ferðakostnaði til þéttbýlisstaða
… alls staðar á landinu verði nemendum tryggt nám í heimahéraði til 18 ára aldurs
… að námskostnaður í framhaldsnámi verði jafnaður til fulls þannig að tekjulítið fólk í dreifbýli eigi sömu möguleika og aðrir að koma unglingum til mennta
… umönnun og þjónusta við aldraða verði byggð upp og veitt svæðisbundið þannig að aldraðir geti átt áhyggjulaust ævikvöld í heimabyggð.

Burt með þröskulda í vegi öryrkja og aldraðra

VG setur í forgang að
… grunnlífeyrir verði hækkaður
… komið verði á afkomutryggingu
… tryggja að öryrkjar haldi óskertum réttindum þegar þeir verða aldraðir
… taka upp frítekjumark að lágmarki 900.000 á ári áður en kemur að skerðingu vegna atvinnutekna
… kjör öryrkja sem engan rétt hafa í lífeyrissjóðum verði bætt
… fólk geti unnið hlutastarf eða tímabundna vinnu án þess að bætur skerðist og stuðlað að sveigjanlegum starfslokum. Stefnt verði að því að atvinnutekjur eftir 70 ára aldur komi ekki til skerðingar á greiðslum almannatrygginga
… skattleysismörk verði hækkuð í áföngum. Í fyrsta áfanga verði skattleysismörk lágtekjufólks hækkuð sérstaklega.

Burt með þröskulda í vegi barnafjölskyldna

VG setur í forgang að
… engin börn á Íslandi búi við fátækt
… gert verði átak til að koma á gjaldfrjálsum leikskóla um allt land
… endurskoða tekjuskiptingu ríkis og sveitarfélaga svo tryggt verði að börn búi við svipuð tækifæri hvar á landinu sem þau búa
… gert verði átak til að koma á gjaldfrjálsum og hollustusamlegum máltíðum í skólum landsins.
… auka aðgengi barna á grunnskólaaldri að gjaldfrjálsri listkennslu og tómstundum
… treysta samband íþróttafélaga og skóla svo tryggt verði að öllum nemendum á grunnskólaaldri standi til boða að leggja stund á íþróttir að eigin vali.

Burt með þröskulda í vegi innflytjenda

VG setur í forgang að
… efla alla þjónustu sem tengist móttöku innflytjenda,
… auka upplýsingagjöf til þeirra um húsnæði, réttindi, skyldur og atvinnu
… tryggja að innflytjendum og erlendu verkafólki sé ekki mismunað launalega eða á nokkurn annan hátt
… tryggja íslenskukennslu fyrir innflytjendur í allt að 3000 stundir, án gjaldtöku.