Fæðingarorlof

Efla þarf fæðingarorlofssjóð, lengja fæðingarorlofið í áföngum í tólf mánuði til að jafna foreldraábyrgð og stöðu kynjanna á vinnumarkaði. Jafnframt er mikilvægt að tryggja, í samstarfi við sveitarfélögin, að leikskólarnir taki við börnum strax að afloknu lengdu fæðingarorlofi.

Staða brotaþola kynferðisofbeldis

Gera þarf heildstæða úttekt á réttarstöðu brotaþola kynferðisofbeldis og tryggja að sú vitundarvakning sem orðið hefur um þetta samfélagsmein skili sér í fræðslu, forvörnum og bættri réttarstöðu.

Kynbundinn launamunur

Nauðsynlegt er að útrýma kynbundnum launamun en þá þarf fyrst af öllu að afnema launaleynd að fullu og tryggja gagnsæja og hlutlæga ákvarðanatöku í launamálum.

Styttri vinnuvika

Vinna þarf að styttingu vinnuvikunnar án skerðingar launa og auka þannig lífsgæði almennings og stuðla að jafnari ábyrgð á heimilisstörfum og jafnari tækifærum til þátttöku í samfélaginu, í atvinnulífi og stjórnmálum.

Útrýmum kynbundnu ofbeldi

Gera þarf áætlun í samstarfi ríkis og sveitarfélaga um að útrýma kynbundnu ofbeldi. Komið verði á laggirnar ofbeldisvarnarráði þar sem saman komi allir viðbragðs- og fagaðilar í málaflokknum til að fylgja eftir aðgerðaráætluninni. Berjast þarf gegn stafrænu kynferðsofbeldi í hvívetna.

Jafnréttismenntun

Tryggja þarf menntun á sviði jafnréttis og kynjafræði á öllum skólastigum.

Löggjöf fyrir trans og intersex

Endurskoðum með metnaðarfullum hætti löggjöf um trans og intersex með mannréttindi og sjálfsákvörðunarrétt að leiðarljósi.