Friðsamlegar lausnir

Ísland á að standa utan hernaðarbandalaga, tala fyrir friði hvarvetna í alþjóðasamfélaginu og beita sér fyrir pólitískum lausnum á átökum. Friðlýsa þarf Ísland fyrir kjarnorkuvopnum. Ísland á að beita sér fyrir banni gegn kjarnorkuvopnum á alþjóðavettvangi.

Tökum á móti fleiri flóttamönnum

Sífellt fleiri eru á flótta í heiminum undan stríðsátökum og afleiðingum loftslagsbreytinga. Ísland þarf að axla ábyrgð í þessum efnum. Þess vegna eigum við að taka á móti umtalsvert fleiri flóttamönnum og tryggja til þess fjármuni og aðstöðu. Jafna þarf aðstæður hælisleitenda og svokallaðra kvótaflóttamanna og tryggja fullnægjandi framkvæmd nýrra útlendingalaga með fjármagni og mannafla þannig að hún sé í takt við ákvæði Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.

Eflum þróunarsamvinnu

Ísland taki þátt í þróunarsamvinnu með myndarlegum hætti og stórauki framlög til málaflokksins til samræmis við alþjóðlegar skuldbindingar og markmið Sameinuðu þjóðanna.

Betri alþjóðleg viðskipti

Alþjóðlegir fríverslunarsamningar eiga ekki að vera metnir eingöngu úr frá viðskiptalegum hagsmunum né færa aukið vald til stórfyrirtækja á kostnað almennings. Samstarf um verslun og viðskipti hlýtur að vera háð því að mannréttindi almennings séu ekki fótum troðin í viðkomandi ríki. Eflum samstarf í skattamálum og tryggjum þannig aukið gagnsæi og bætta skattheimtu. Ísland á að vera í fremstu röð í baráttunni gegn skattaskjólum. Hvorttveggja stuðlar að jöfnuði.