Loftslagsmál – Kolefnishlutlaust Ísland 2040 

Ísland á að verða kolefnishlutlaust árið 2040. Hverfa þarf frá áformum um olíuvinnslu, skipta jarðefnaeldsneyti út fyrir endurnýjanlega orkugjafa, binda kolefni með mótvægisaðgerðum og strika frekari áform um mengandi stóriðju út af borðinu. Ísland á að beita sér á alþjóðavettvangi fyrir því að halda hlýnun jarðar undir 1,5°C. Efla þarf rannsóknir á áhrifum hlýnunar á vistkerfi lands og sjávar með sérstakri áherslu á súrnun sjávar en einnig þarf að huga að viðbrögðum vegna hækkunar sjávarborðs um allt land.

Náttúra – Náttúran njóti vafans

Tryggja þarf að gengið verði um náttúruauðlindir Íslands af ábyrgum hætti. Stofna þarf þjóðgarða á miðhálendi og hálendi Vestfjarða og stórefla heilsárslandvörslu. Friðlýsa þarf svæði sem ákvörðuð eru í rammaáætlun og framkvæmdaráætlun náttúruminjaskrár.

Mengun hafs, lofts og lands

Markvisst þarf að draga úr plastnotkun, í umbúðum og annars staðar, og auka endurnýtingu. Kortleggja þarf og bæta eftirlit með notkun hættulegra efna og auka fræðslu til almennings um áhrif þeirra. Draga þarf úr og efla viðbrögð við mengun frá allri mengandi starfsemi. Stórbæta þarf fráveitukerfin á landinu þannig að plast og jafnvel örplast rati ekki lengur til sjávar.

Grænt samfélag

Tryggja þarf umhverfisákvæði í stjórnarskrá, að náttúruauðlindir séu í þjóðareign og nýting þeirra sé í sátt við umhverfi og náttúru. Standa þarf vörð um rammaáætlun. Umhverfissjónarmið þurfa að vega þungt í allri ákvarðanatöku ríkisins og styrkja þarf þær stofnanir sem sinna umhverfismálum. Efla þarf almenningssamgöngur auk uppbyggingar innviða samgöngukerfisis í þágu hjólandi og gangandi sem styðja við samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda, auka lífsgæði og bæta mannlíf.

Grænt bókhald
Allar stærri áætlanir ríkisins, rekstur ríkisstofnana, frumvörp og þingsályktanir þarf að meta með tilliti til umhverfissjónarmiða, losunar gróðurhúsalofttegunda og auðlindanýtingar.

Raforkusamningar

Hefja þarf endurskoðun raforkusamninga til stóriðju með það að markmiði að minnka losun gróðurhúsalofttegunda, fækka mengandi stóriðjuverum, auka fjölbreytni í iðnaði og fjölga í hópi „grænna“ fyrirtækja sem nota raforku á Íslandi.

Berjumst gegn matarsóun

Aukum til muna innlenda matvælaframleiðslu, því mikið af mat skemmist í flutningum. Eflum fræðslu um matarsóun, bæði í skólum og stofnunum. Skoðum kosti þess að setja sérstök gjöld á fyrirtæki og stofnanir sem henda mikið af mat.