Vinstri græn leggja áherslu á markvissa uppbyggingu í vegamálum með sérstakri áherslu á viðhald. Markaðir tekjustofnar þurfa að renna óskipt til samgöngumála.

Umhverfissjónarmið þarf að hafa að leiðarljósi við allar ákvarðanir í samgöngumálum þar sem mikil tækifæri eru í samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda í þeim málaflokki.

Áfram þarf að byggja upp almenningssamgöngur um land allt og auka möguleika gangandi og hjólandi vegfarenda í þéttbýli. Huga þarf að lestarsamgöngum og borgarlínu í samstarfi við Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu.

Hrinda þarf af stað stórátaki í þrífösun rafmagns í dreifbýli og gera tímasetta áætlun um að ljúka háhraðanettengingu um allt land.

Unnið verði að því að opna fleiri hlið inn til landsins til að auka möguleika fleiri svæða til að uppskera arð af ferðaþjónustu.

Samgöngukerfið er ein mikilvægasta leið Íslendinga til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Þættir í því verkefni eru rafvæðing hafna, rafbílavæðing og notkun lífeldsneytis í öðrum samgöngumátum.